Fréttir Greiningar

Einn vildi vaxtahækkun

27.02.2014 10:29

nullEinn meðlimur peningastefnunefndar Seðlabankans greiddi atkvæði gegn tillögu Seðlabankastjóra um óbreytta stýrivexti á síðasta vaxtaákvörðunarfundi nefndarinnar. Þessi nefndarmaður vildi hækka stýrivexti um 0,25 prósentur vegna þess að verðbólguhorfur til tveggja ára hefðu versnað frá fyrri spám og verðbólguvæntingar hefðu lítið lækkað með hjaðnandi verðbólgu. Þetta er í fyrsta sinn síðan í mars 2013 sem nefndarmaður hefur kosið gegn tillögu um óbreytta stýrivexti. Þá, eins og nú, vildi einn nefndarmaður hækka vexti um 0,25 prósentur.

Nefndin sammála spá bankans

Nefndarmenn voru sammála greiningu SBÍ á áhrifum skuldalækkunaraðgerða ríkisstjórnarinnar. Þótti nefndinni tímasetning aðgerðanna óheppileg vegna þess að slakinn yrði nánast horfinn úr þjóðarbúinu þegar þær kæmu til framkvæmda. Því væri mikilvægt að stjórnvöld gripu til mótvægisaðgerða. Einnig væri mikilvægt að endurbætur sem styrkja framboðshlið þjóðabúsins gætu dregið úr framleiðsluspennu og þar með úr verðbólguáhrifum aukinnar eftispurnar. Fjórir nefndarmenn töldu þó að óvissa varðandi nýja hagspá SBÍ og mótvægisaðgerðir, ásamt því að rúmur tími væri til að bregðast við versnandi verðbólguhorfum, mælti gegn hækkun vaxta að svo stöddu.

Í samræmi við væntingar okkar

Kemur þetta fram í fundargerð vegna síðasta fundar peningastefnunefndar Seðlabankans. Fundargerðin er í stórum dráttum í samræmi við væntingar okkar. Greinilegt er að flestir peningastefnunefndarmenn vilja bíða og sjá hvernig verðbólga þróast næstu mánuði, og eins hvernig samspil skuldalækkunar og mögulegra mótvægisaðgerða verður, áður en vextir eru hækkaðir.

Vaxtahaukurinn kveður hins vegar nokkru fastar að orði en við bjuggumst við, þar sem við áttum frekar von á að hann „hefði kosið aðra niðurstöðu“, eins og stundum hefur gerst á fundum nefndarinnar, en samt greitt atkvæði með óbreyttum vöxtum. Enn sem komið er virðist haukurinn samt einn í vaxtahækkunargírnum.

Taumhaldið hefur aukist umtalsvert

Taumhald peningastefnunnar hefur aukist umtalsvert undanfarið samhliða því að verðbólgan hefur hjaðnað. Virkir raunvextir bankans voru 2,2% í janúar, og um 0,5 prósentu hærri en á fundi nefndarinnar í desember. Fyrir um 2 árum voru þeir neikvæðir um ríflega 2% og hafa því hækkað umtalsvert síðan. Með hjöðnun verðbólgunnar núna á milil janúar og febrúar úr 3,1% í 2,1% hafa virkir raunstýrivextir bankans hækkað frekar og mælast nú 3,2%. Eru það að okkar mati nokkuð háir raunstýrivextir í ljósi þess að enn er slaki í hagkerfinu. 

Í fundargerðinni kemur fram að þrátt fyrir þetta er það mat nefndarmanna að nafnvextir SBÍ þyrftu að óbreyttu að hækka samkvæmt verðbólguspá bankans þegar nær dregur því að slaki snúist í spennu. Í sljósi m.a. verðbólguspár okkar og Seðlabankans,  sem eru nokkuð samhljóða, reiknum við með því að peningastefnunefndin muni halda stýrivöxtum bankans óbreyttum út þetta ár en hefja hækkunarferilinn að nýju á næsta ári. Höfum við spáð 0,5 prósentustiga hækkun á næsta ári og frekari hækkun á árinu 2016.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall