Fréttir Greiningar

Undirliggjandi erlend staða á batavegi

04.03.2014 12:57

nullUndirliggjandi erlend staða þjóðarbúsins var hagstæðari um síðustu áramót en hún hefur verið frá aldamótaárinu síðasta, ef marka má nýjar tölur Seðlabankans. Hefur staðan batnað um 12% af vergri landsframleiðslu (VLF) frá því um mitt síðasta ár samkvæmt mati bankans, en það jafngildir bata upp á u.þ.b. 215 ma.kr. Undirliggjandi staða virðist því í grófum dráttum sjálfbær, þótt enn sé vissulega talsverð óvissa um endanlega útkomu úr uppgjörum gömlu bankanna og fleiri fyrirtækja í slitameðferð.

Svipuð staða og í upphafi aldar

Vegna þeirra sérstöku aðstæðna sem verið hafa hér á landi eftir fall gömlu bankanna hefur Seðlabankinn undanfarið birt mat á undirliggjandi erlendri stöðu, þar sem búið er að taka tillit til þess að kröfur í bú gömlu bankana og fleiri fallin fyrirtæki verða afskrifaðar að hluta. Í nýjasta mati bankans, sem birt var í gær, má sjá að ef gömlu bankarnir eru undanskildir er erlend staða þjóðarbúsins neikvæð sem nemur 12% af VLF (214 ma.kr.). Hins vegar liggur fyrir að þar sem hlutfall innlendra eigna gömlu bankanna er mun hærra en hlutfall krafna frá innlendum kröfuhöfum mun uppgjör gömlu bankanna væntanlega hafa talsverð neikvæð áhrif á erlendu stöðuna. Mat Seðlabankans er að þetta misræmi eigna og krafna rýri erlenda stöðu þjóðarbúsins um 44% af VLF (787 ma.kr.). Slit annarra búa í slitameðferð mun hins vegar hafa jákvæð áhrif sem nemur 3% af VLF að mati Seðlabankans.

Niðurstaðan er því sú að undirliggjandi erlend staða þjóðarbúsins hafi í árslok 2013 verið neikvæð sem nemur 53% af VLF, eða u.þ.b. 950 mö.kr. Ef mat bankans á við rök að styðjast er hér um hagstæðustu erlendu stöðu þjóðarbúsins að ræða síðan á 1. ársfjórðungi 2000, en þá var hrein erlend staða þjóðarbúsins neikvæð um 49% af VLF. Erlenda staðan versnaði svo allhratt og var orðin neikvæð um meira en eina landsframleiðslu sex árum síðar.

Batnandi landi er best að lifa

Seðlabankinn hóf að birta mat á undirliggjandi erlendri stöðu þjóðarbúsins á 1. ársfjórðungi 2013. Var undirliggjandi staða þá metin neikvæð um 65% af VLF, eða sem nemur ríflega 1.160 mö.kr. Breytingin til batnaðar í nýjustu tölum bankans skýrist af því að erlendar skuldir utan gömlu bankanna eru nú metnar minni en áður. Undirliggjandi staða þjóðarbúsins virðist viðráðanleg samkvæmt þessum tölum, þótt vissulega sé mikilvægt að hún versni ekki í fjárhæðum mælt og batni jafnt og þétt sem hlutfall af landsframleiðslu. Má hér nefna að mörg dæmi eru um að lítil opin hagkerfi séu með talsvert hátt hlutfall neikvæðrar erlendrar stöðu af landsframleiðslu, sér í lagi þar sem fjárfesting hefur verið mikil. Er Ísland þar bæði í hópi ríkja í vanda á borð við Grikkland (-108% af VLF) og Spán (-97% af VLF), en einnig í félagsskap ríkja eins og Ástralíu (-64% af VLF) og Nýja Sjálands (-69% af VLF), sem og Eystrasaltsríkjanna og margra ríkja Austur-Evrópu.

Þegar öllu er á botninn hvolft skiptir mestu máli varðandi erlenda stöðu þjóðarbúsins að ekki verði mikill og viðvarandi halli á utanríkisviðskiptum, og ef Ísland lendir ekki í þeirri stöðu ætti erlend staða að halda áfram að lagast jafnt og þétt á komandi árum.

 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall