Fréttir Greiningar

Viðskiptajöfnuður aldrei verið hagstæðari

04.03.2014 13:00

nullViðskiptajöfnuður hefur aldrei áður mælst hagstæðari á einu ári og í fyrra, og á það við hvort sem litið er á jöfnuðinn með eða án innlánsstofnana í slitameðferð. Útkoman er jafnframt almennt mun betri en væntingar voru um. Þetta má sjá í bráðabirgðatölum sem Seðlabanki Íslands birti í gær um greiðslujöfnuð við útlönd á fjórða ársfjórðungi síðastliðins árs.

... hvort sem áhrif innlánsstofnana eru meðtalin eður ei

Afgangur mældist af undirliggjandi viðskiptajöfnuði á öllum fjórðungum ársins í fyrra, sem hefur aldrei áður atvikast, eða a.m.k. ekki eins langt aftur og tölur Seðlabankans ná. Á árinu 2013 í heild nam undirliggjandi viðskiptaafgangur 110,9 mö.kr., eða sem nemur um 6,2% af áætlaðri vergri landsframleiðslu (VLF) ársins. Þetta er mun betri niðurstaða en Seðlabankinn gerði ráð fyrir í sinni nýjustu spá frá byrjun síðasta mánaðar, en þar gerði hann ráð fyrir undirliggjandi afgangi upp á 94,1 ma.kr., eða  sem nemur um 5,3% af VLF.

nullEins og áður segir er þetta langmesti afgangur sem mælst hefur, og á það einnig við þótt gömlu bankarnir séu hafðir með í tölunum. Að þeim meðtöldum mældist afgangur af viðskiptajöfnuði upp á 70 ma.kr., eða sem nemur um 3,9% af VLF. Árið 2012 nam afgangurinn af undirliggjandi viðskiptajöfnuði 9,7 mö.kr., eða sem nemur um 0,6% af VLF en ef áhrifin af gömlu bönkunum eru meðtalin þá mældist jöfnuðurinn neikvæður um 5,3% af VLF. Til gamans má geta að frá árinu 1945 hafði afgangurinn af viðskiptajöfnuði mest farið upp í um 3% af VLF, og frá þeim tíma hefur viðskiptajöfnuður í 80% tilvika mælst neikvæður. Viðskiptahallinn var hvað mestur á góðæristímabilinu 2005-2008 þegar Íslendingar keyptu inn vörur og fóru erlendis eins og enginn væri morgundagurinn, auk þess sem fjárfestingar í hagkerfinu voru þá í sögulegu hámarki. 

Ferðamennska og álverð

nullBæði mun hagstæðari útkoma á þáttatekjujöfnuði og einnig ört vaxandi þjónustuafgangur, ekki síst vegna vaxandi ferðamennsku, eru meðal helstu skýringa á auknum afgangi af viðskiptajöfnuði milli ára. Eins og við fjölluðum nýlega um í Morgunkorni okkar var um langmesta afgang af þjónustujöfnuði að ræða frá upphafi í fyrra, en hann hljóðaði upp á 62,4 ma.kr. sem er rúmum 36 mö.kr. betri útkoma en var árið 2012. Alls nam afgangur af vöruskiptum 69,4 mö.kr. í fyrra, sem er um 8 mö.kr. lakari niðurstaða en árið 2012. Lakari vöruskipti má m.a. rekja til þeirrar lækkunar sem varð á verði áls á heimsmarkaði enda dró það verulega úr útflutningsverðmæti okkar á álafurðum. Á hinn bóginn hafði verðlækkun á áli öfug áhrif á jöfnuð þáttatekna, enda þýðir lægra álverð minni hagnað eða jafnvel tap fyrir álfyrirtækin sem eru í eigu erlendra aðila. Hagnaður fyrirtækja í erlendri eigu á Íslandi kemur fram sem þáttagjöld í greiðslujöfnuði, hvort sem hann er endurfjárfestur eða greiddur út. Mældist undirliggjandi jöfnuður þáttatekna (án áhrifa gömlu bankanna) neikvæður um 20,9 ma.kr. samanborið við um 94,0 ma.kr árið 2012. Bæði dró verulega úr þáttagjöldum af hlutabréfaeign erlendra aðila og af vaxtagjöldum til þeirra, og einnig jukust fjármagnstekjur innlendra aðila af erlendum eignum enda var síðasta ár gjöfult á erlendum hlutabréfamörkuðum.

Dregur úr afgangi í ár

Eins og við fjölluðum nýlega um í Morgunkorni okkar þá teljum við að horfur séu á svipuðum afgangi af vöru- og þjónustuviðskipum í ár og var í fyrra. Í bráðabirgðaspá okkar reiknum við með afgangi af vöru- og þjónustuviðskiptum upp á 135 ma.kr. í ár, en vart þarf að taka fram að verðþróun á erlendum mörkuðum, gæftir á fiskimiðunum og framvinda efnahagsmála hér innanlands sem erlendis eru allt óvissuþættir í þeirri spá. Þá má telja líklegt að þáttatekjujöfnuðurinn verði óhagstæðari í ár en í fyrra þar sem eignatekjur af erlendum eignum innlendra aðila munu væntanlega minnka og vaxtagjöld til erlendra aðila gætu hækkað nokkuð. Þó teljum við að nokkur afgangur verði af undirliggjandi viðskiptajöfnuði í ár. Seðlabankinn spáði í febrúar að undirliggjandi afgangur muni nema 0,8% af VLF í ár, og teljum við jafnvel að hann gæti reynst heldur meiri þar sem við erum bjartsýnni en Seðlabankamenn á vöru- og þjónustuafgang ársins.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall