Fréttir Greiningar

Engin vetrarfrost í ferðaþjónustunni

14.03.2014 13:52

nullErlendir ferðamenn hafa aldrei straujað kortin sín fyrir hærri fjárhæð hér á landi í upphafi árs og nú. Rímar það vel við þá gríðarlegu fjölgun sem orðið hefur á erlendum ferðamönnum hérlendis á sama tíma. Virðist því að sá spútnikvöxtur sem verið hefur í ferðaþjónustu ætli ekki að taka enda í ár a.m.k., sem sætir tíðindum miðað við þann mikla vöxt sem verið hefur á síðustu árum. Miðað við hvernig fyrstu tveir mánuðir ársins líta út og hvernig horfir fram eftir árinu bendir allt til þess að efnahagsleg áhrif ferðaþjónustunnar á þjóðarbúskapinn aukist enn frekar í ár. Í fyrra aflaði sú grein í fyrsta sinn meiri gjaldeyristekna en nokkur önnur útflutningsgrein. Hér ber þó að geta að inni í þeim tölum eru einnig tekjur íslenskra flugfélaga af því að flytja erlenda farþega sem ekki koma til Íslands, en það flokkast til gjaldeyristekna af ferðaþjónustu.

Metinnflæði gjaldeyris vegna ferðamanna

Alls nam kortavelta útlendinga hér á landi 6,0 mö.kr. í febrúar sl., sem er aukning upp á 29% í krónum talið á milli ára samkvæmt tölum sem Seðlabanki Íslands birti í gær. Þetta er framhald af þeirri þróun sem átti sér stað í janúarmánuði, og hafa erlendir ferðamenn nú náð að strauja kortin sín fyrir 11,7 ma.kr. á fyrstu tveimur mánuðum ársins. Í krónum talið er þetta 28% hærri fjárhæð en þeir straujuðu kortin sín fyrir á fyrstu tveimur mánuðum ársins í fyrra (sem þá var met), og 88% hærri fjárhæð en á sama tímabili 2012. Þetta rímar við tölur Ferðamálastofu um brottfarir erlendra ferðamanna frá landinu um Keflavíkurflugvöll. Samkvæmt þeim er fjöldi erlendra ferðamanna kominn upp í 99,1 þúsund á fyrstu tveimur mánuðum ársins samanborið við 73,3 þúsund á sama tímabili í fyrra og 54,1 þúsund árið 2012.

Kortaveltujöfnuður aldrei hagstæðari

nullKortavelta Íslendinga í útlöndum nam rétt rúmlega 6,0 mö.kr. í febrúar sl., og var kortaveltujöfnuður þar með neikvæður um 48 m.kr. í mánuðinum. Er hér um langhagfelldustu útkomu þessa jafnaðar frá upphafi í febrúarmánuði, og má hér til samanburðar nefna að í febrúar í fyrra var jöfnuðurinn neikvæður um 753 m.kr. og sé litið lengra aftur má sjá mun hærri neikvæða tölu. Þetta er svipuð þróun og var upp á teningnum í janúar síðastliðnum þegar kortaveltujöfnuður fyrsta mánaðar ársins mældist í fyrsta sinn jákvæður.

Toppa Íslendinga þrátt fyrir gríðarlegan vöxt netviðskipta

Frá áramótum talið er kortaveltujöfnuður jákvæður um sem nemur 185 m.kr. Þetta er í fyrsta skipti sem kortavelta útlendinga hér á landi er umfram kortaveltu Íslendinga í útlöndum á þessu tímabili. Í fyrra straujuðu Íslendingar kortin sín í útlöndum fyrir 1.079 m.kr. hærri fjárhæð en útlendingar hér á landi, og árið þar á undan var munurinn 3.358 m.kr. Vart þarf að nefna að hér er um afar jákvæða þróun að ræða, og þá ekki síst  í ljósi þess að netviðskipti Íslendinga telja orðið ansi drjúgt í kortanotkun þeirra á erlendri grundu. Í raun teljum við að slík notkun skýri stærsta hluta þeirrar aukningar sem orðið hefur á kortanotkun Íslendinga erlendis á síðustu mánuðum, en netviðskipti eru ekki flokkuð sér í tölum Seðlabankans. Slík viðskipti koma fram í tölum um vöruskipti við útlönd en ekki þjónustuskipti við útlönd, líkt og ferðaþjónustan er flokkuð undir Má búast við að kortajöfnuðurinn verði enn hagstæðari þegar kemur fram á vor og háannatími ferðaþjónustunnar hefst. Við teljum því líklegt að gjaldeyrisflæði vegna kortaviðskipta muni styðja við krónuna fremur en hitt með hækkandi sól.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall