Fréttir Greiningar

Teljum að þrjú félög verði nýskráð á árinu, fækkum um þrjú frá eldra mati

20.03.2014 09:19

Í október síðastliðin gerðum við ýtarlega úttekt á væntu framboði næstu ára. Við töldum þá útlit fyrir að á árinu 2014 yrðu einungis þrjú félög skráð, Skipti, Reitir og Sjóvá, en við áætluðum samanlagt markaðsvirði þeirra í kjölfar skráningar um 75 ma.kr. Eftir þann tíma var tilkynnt um fyrirhugaða skráningu nokkurra annarra félaga og í janúar endurskoðuðum við væntingar okkar um framboð og höfðu þá Eik, Promens og HB Grandi bæst á lista þessa árs. Við mátum þá sameiginlegt markaðsvirði þessara sex félaga í kjölfar skráningar um 200 ma.kr. Okkur virðist nú, m.v. fyrirliggjandi gögn, líkur á að framboð þessa árs verði umtalsvert minna. Væntum við þess að þrjú félög, Sjóvá, HB Grandi og Promens, verði skráð á þessu ári og að þau verði í kjölfar skráningar að sameiginlegu markaðsvirði um 112 ma.kr.

Líkur á að Skipti verði ekki skráð fyrr en 2015

nullSkipti segja nú stefnt að skráningu í síðasta lagi vorið 2015, við teljum að útboðið muni dragast fram að þeim tíma. Ástæðan er sú að félagið mun eflaust vilja ná einhverju fram af samlegðaráhrifum sameiningar Skipta og Símans en sú sameining er í meðförum Samkeppniseftirlitsins. Við það bætast síðan 3 ma.kr. niðurfærsla á kröfu vegna máls sem vísað hefur verið til hæstaréttar auk 2,6 ma.kr. gjaldfærslu í varúðarskyni vegna endurákvörðunar skatta. Það er ekki hentugt við skráningu félaga að hafa slíkt mál og slíka fjármuni í óvissu.

Hvorum megin við áramótin lenda fasteignafélögin?

nullEik og Reitir hafa bæði gefi það út að stefnt sé að skráningu á þessu ári. Samruni Eik og Landfesta er í umfjöllun viðeigandi yfirvalda á sama tíma og unnið er að endurfjármögnun Landfesta. Umfjöllun yfirvalda er ekki lokið og ljóst að slíkt ferli hefur tilhneigingu til að tefjast. Þá er einnig heppilegt að sameinað félag nái einhverjum uppgjörum fyrir skráningu þannig að rekstarhagræði sameiningarinnar megi verða fjárfestum ljóst.

nullÁ sama tíma eru Reitir að vinna í því að ná sáttum við Seðlabankann vegna erlends láns félagsins en þær viðræður hafa staðið yfir í töluvert langan tíma án þess að sátt hafi náðst. Í mati á líkum á skráningu félags í nærtíð horfum við sérstaklega til eignarhalds viðkomandi félags sökum þrýstings Fjármálaeftirlitsins á sölu eigna sem eru í eigu fjármálafyrirtækja. Bæði þessi fasteignafélög verða, eftir sameiningu Landfesta og Eikar, að töluverðum hluta í eigu Arion banka. Slíkt eignarhald eykur líkur á sölu í nærtíð en eins og statt er höfum við hins vegar litlar væntingar um að skráning þeirra náist fyrir árslok.

Skrá á Promens fyrir árslok

nullSamkvæmt tilkynningum er stefnt að skráningu Promens fyrir árslok, félagið er nokkuð stórt á íslenskan mælikvarða og verður því góð viðbót við markaðinn þegar að skráningu kemur. Núverandi eigendur félagsins eru Horn og Framtakssjóður Íslands. Við teljum mjög líklegt að félagið verði skráð fyrir árslok sökum óbeins eignarhalds Landbankans. Lítið er af aðgengilegum fjárhagslegum upplýsingum um félagið en þær gætu e.t.v. varpað öðru ljósi á skráningarlíkur. Mikilvægt er að fyrirliggjandi uppgjör í skráningu gefi með skýrum hætti til kynna hver grunnur áframhaldandi reksturs félagsins er.

Fimm félög á markað 2015

nullÁrið 2015 gerum við ráð fyrir nýskráningum fimm félaga sem við væntum að séu, m.v. fyrirliggjandi forsendur, að samanlögðu markaðsvirði um 94 ma.kr. Þessi félög verða fasteignafélögin tvö Eik Landfestar og Reitir auk Skipta, Kaupás og  Skeljungs.

Eftir árið 2015 má búast við skráningum bankana, verði þeir ekki seldir til erlendra aðila, sem og skráningu Advania og Icelandic Group.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall