Fréttir Greiningar

Brúnin léttist á landsmönnum

25.03.2014 12:26

nullÍslenskir neytendur eru orðnir mun bjartsýnni á ástand og horfur í efnahags- og atvinnumálum en raunin var á seinni helmingi síðasta árs, ef marka má Væntingavísitölu Gallup (VVG) fyrir marsmánuð sem Capacent Gallup birti nú í morgun. VVG hækkaði um tæp 9 stig á milli febrúar og mars, og mælist hún nú 94,8 stig. Þetta er hæsta gildi vísitölunnar frá því í júní í fyrra, og í raun hefur gildi hennar aðeins tvívegis mælst hærra frá því í apríl 2008. Í maí og júní í fyrra þegar VVG fór upp í 101 stig, var vísitalan talsvert lituð af niðurstöðu alþingiskosninga, en almennt virðast Íslendingar fyllast af aukinni bjartsýni þegar ný ríkistjórn tekur við völdum. Þrátt fyrir að VVG fari ekki yfir 100 stigin í þetta sinn, og Íslendingar teljist því ekki enn almennt bjartsýnir á ástandið í efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar, þá teljum við ekki ólíklegt að með hækkandi sól fari vísitalan yfir 100 stigin.

Áfram væntingar um betri tíð

nullAllar undirvísitölur VVG hækka á milli mælinga í febrúar og mars. Mest hækkar mat neytenda á núverandi ástandi, eða um tæp 18 stig. Mælist sú undirvísitala nú 54,8 stig, sem er hæsta gildi vísitölunnar frá því fyrir hrun. Þó er ljóst að Íslendingar vænta þess að ástandið í efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar muni batna frá núverandi ástandi, líkt og þeir hafa vænst frá því snemma árs 2008. Þannig er vísitalan sem mælir væntingar neytenda til ástandsins eftir 6 mánuði 121,5 stig og hækkar um tæp 3 stig frá fyrri mánuði. Fyrir hrun var þessu öfugt farið, en frá miðju ári 2004 til mars 2008 var gildi vísitölunnar sem mælir mat neytenda á núverandi ástandi ávallt hærra en þeirrar sem mælir mat á væntingum til 6 mánaða. Töldu neytendur þá núverandi ástand svo gott að það myndi varla batna upp frá þessu, andstætt við stöðuna nú.

Íslendingar líklegri til að ráðast í stórkaup

Capacent Gallup birti einnig samhliða VVG niðurstöður úr ársfjórðungslegum mælingum sínum á fyrirhuguðum stórkaupum neytenda. Samkvæmt þeirri niðurstöðu eru íslenskir neytendur líklegri til þess að ráðast í stórkaup nú en þeir hafa verið frá hruni, en stórkaupavísitalan mælist nú 57,8 stig sem er hæsta gildi hennar frá því í september 2008. Stórkaupavísitalan mælir hversu líklegir neytendur eru til þess að festa kaup á húsnæði eða bifreið á næstu 6 mánuðum, eða ferðast til útlanda á næstu 12 mánuðum.

Fleiri huga að bíla- og húsnæðiskaupum

Hækkun stórkaupavísitölunnar nú má rekja til hækkunar á öllum undirvísitölum hennar. Vísitalan fyrir bifreiðakaup hækkar um tæp 7 stig frá síðustu mælingu, og mælist hún nú 25,2 stig sem er hæsta gildi hennar í 6 ár. Töldu rúmlega 13% aðspurða það mjög eða frekar líklegt að þeir myndu festa kaup á bifreið á næstu 6 mánuðum, en tæplega 76% mjög eða frekar ólíklegt. Þessi vístalan hefur lægst farið niður í 10,5 stig, sem var í árslok 2008, en frá upphafi mælinga hefur hún að jafnaði mælst 24,2 stig.

nullSvipaða sögu má segja um þá þróun sem varð á vísitölunni sem metur líkur á því að einstaklingur ráðist í húsnæðiskaup á næstu 6 mánuðum. Sú vísitala mælist nú 8,9 stig sem er einnig hæsta gildi hennar í 6 ár. Töldu nú um 6% aðspurða það mjög eða frekar líklegt að þeir myndu ráðast í húsnæðiskaup á næstu 6 mánuðum en tæplega 89% það ólíklegt. Þessi vístalan hefur lægst farið niður í 3,2 stig, sem var í árslok 2011, en frá upphafi mælinga hefur hún að meðaltali mælst 9,7 stig.

Vísitalan um fyrirhugaðar utanlandsferðir fór í sitt næsthæsta gildi frá  hruni, en hún mældist 139,1 stig. Töldu 60% svarenda mjög eða frekar líklegt að þeir myndu halda erlendis á næstu 12 mánuðum en 28% frekar eða mjög ólíklegt. Þessi vístala hefur lægst farið niður í 103,2 stig sem var í júní 2009, en frá upphafi mælinga hefur hún að meðaltali mælst 143,2 stig.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall