Fréttir Greiningar

Vísbendingar um talsverðan einkaneysluvöxt

25.03.2014 12:25

nullNiðurstöður Capacent Gallup sem birtar voru nú í morgun gefa til kynna að einkaneysluvöxtur gæti reynst talsverður á árinu, sem er viðsnúningur frá því í fyrra. Á síðasta ári jókst einkaneysla aðeins um 1,2% að raungildi, og var hún fremur dragbítur á hagvöxt fremur en hitt. Er þróun Væntingavísitölunnar (VVG)  í takti við annað sem gefur vísbendingu um einkaneyslu, t.a.m. kortatölur Seðlabankans. Þannig bendir kortavelta einstaklinga til þess að einkaneysluvöxtur verði all myndarlegur á yfirstandandi ársfjórðungi, en að raunvirði jókst kortavelta einstaklinga um 6,9% á milli ára á fyrstu tveimur mánuðum ársins. Jafnframt rímar þetta vel við fréttir af bifreiðakaupum landsmanna, en samkvæmt nýlegri frétt á Vísi.is jókst sala nýrra bifreiða til einstaklinga um 15% á fyrstu tveimur mánuðum ársins frá sama tímabili í fyrra. 

Áhrifa krónunnar gætir

nullÞó teljum við líklegt að eitthvað hægi á vexti kortaveltunnar á komandi mánuðum, því þrátt fyrir að vöxtur kaupmáttar styðji við vöxt einkaneyslu þá er sá vöxtur talsvert hægari en sem nemur kaupmáttaraukningunni. Samkvæmt nýlegum tölum Hagstofunnar jókst kaupmáttur launa um 2,5% í febrúar síðastliðnum frá sama mánuði ári fyrr. Til samanburðar óx kaupmáttur launa að jafnaði um 1,7% árið 2013, og hefur því nokkuð bætt í kaupmáttarvöxtinn. Reyndar teljum við líklegt að sama rótin kunni að vera að hluta að auknum vexti kaupmáttar og hækkun VVG, þ.e. styrking krónu frá nóvember síðastliðnum til febrúarloka. Mikil fylgni hefur oft á tíðum verið milli gengishreyfinga krónu og breytinga á VVG, og virðist sú fylgni hafa aukist að nýju síðustu misserin. Styrking krónu eykur að öðru jöfnu kaupmátt á innfluttum vörum og erlendri þjónustu, og hefur því hvetjandi áhrif á einkaneyslu til skemmri tíma litið.

Allt er best í hófi

Allt er hins vegar best í hófi, og það væri skammgóður vermir ef sagan frá árunum fyrir hrun endurtæki sig. Þá óx nulleinkaneysla töluvert hraðar en sem nam vexti kaupmáttar launa, og skuldsetning heimilanna jókst samfara því að mikill innflutningur neysluvara átti sinn þátt í þeim mikla viðskiptahalla sem ríkti á þessum tíma. Það er því bæði líklegt og í raun æskilegt að meiri samhljómur verði í kaupmáttarvextinum og vexti einkaneyslu á komandi fjórðungum, þótt líklega verði einkaneysluvöxturinn nokkru meiri en sem nemur kaupmáttarvexti vegna áhrifa af skuldalækkunaraðgerðum ríkisstjórnarinnar sem koma til framkvæmda seinna á árinu.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall