Fréttir Greiningar

Raungengi krónunnar í sínu hæsta gildi frá hruni

09.04.2014 09:42

nullRaungengi krónunnar var á fyrsta fjórðungi þessa árs 11,7% hærra en á sama tíma í fyrra. Er þá miðað við hlutfallslegt neysluverð. Var raungengið, á þennan mælikvarða, það hæsta frá hruni á fyrsta fjórðungi þessa árs og hafði hækkað um 24,9% frá því að það fór lægst eftir hrun. Krónan hefur því styrkst umtalsvert á þessum tíma á þennan mælikvarða. Þrátt fyrir það er raungengi krónunnar enn nokkuð lágt sögulega séð eða ríflega 11% undir meðaltali síðastliðins aldarfjórðungs. Seðlabankinn birti tölur um raungengi krónunnar á fyrsta ársfjórðungi undir lok síðustu viku.

Vitað að það myndi hækka

Raungengi krónunnar á mælikvarða hlutfallslegs neysluverðs má skilgreina sem neysluverð á Íslandi samanborið við neysluverð erlendis, reiknað í sömu mynt. Raungengi krónunnar hefur frá hruni lengst af verið mun lægra en það jafnvægisgengi sem reikna má með til lengdar. Því hefur verið vitað að raungengi krónunnar mun hækka samhliða því að slakinn myndi hverfa úr efnahagslífinu. Hins vegar hefur verið óvíst í hvaða mæli það yrði fyrir atbeina hærra nafngengis krónunnar, og að hversu miklu leyti vegna meiri verðbólgu en í viðskiptalöndum.

Æskilegt að hækkunin eigi sér stað með nafngengishækkun

Æskilegt er að hækkun raungengisins eigi sér stað með hækkun nafngengisins fremur en mikilli verðbólgu. Í því sambandi er þróunin undanfarið árið afar ánægjuleg þar sem hækkun raungengisins á þeim tíma hefur nær öll verið fyrir tilstuðlan hækkunar nafngengis krónunnar. Var viðskiptavegið nafngengi krónunnar þannig 10,3% hærra á fyrsta fjórðungi þessa árs en á sama tímabili í fyrra. Er nefngengi krónunnar á þennan mælikvarða nú nálægt sínu hæsta gildi frá hruni. Þegar litið er til lengri tíma hefur hluti raungengishækkunarinnar frá botni þess eftir hrun komið fyrir tilstuðlan þess að verðbólga hér á landi hefur verið umfram það sem hún hefur verið í viðskiptalöndunum.

Tvíbent sverð

Hækkandi raungengi getur verið nokkuð tvíbent sverð fyrir íslenskt hagkerfi um þessar mundir. Þörf er á verulegum afgangi af vöru- og þjónustujöfnuði til að afla gjaldeyris til greiðslu vaxta og afborgana af erlendum skuldum. Hærra raungengi rýrir samkeppnisstöðu útflutningsgreina og eykur innflutta neyslu, hvort sem er í formi utanlandsferða eða meiri kaupa á innfluttum varningi. Ef raungengi hækkar verulega til viðbótar gætu þessi áhrif farið að segja til sín í minni afgangi af utanríkisviðskiptum, sem svo aftur leiðir á endanum til gjaldeyrisútflæðis og veikari krónu.

Samkeppnisstaðan að versna á mælikvarða hlutfallslegra launa

Í þessu samhengi er áhugavert að skoða raungengi krónunnar á mælikvarða hlutfallslegs launakostnaðar en þar er um að ræða mælikvarða á þróun launakostnaðar á Íslandi miðað við launakostnað erlendis, reiknað í sömu mynt. Gefur raungengið á þennan mælikvarða því nokkuð góða mynd af þróun samkeppnisstöðu innlendra fyrirtækja með tilliti til launakostnaðar. Raungengi króunnar var á þennan mælikvarða 10,6% hærra á fyrsta ársfjórðungi þessa árs en á sama tímabili í fyrra. Hafði það þá hækkað um 43,3% frá því að það fór lægst eftir hrun. Það er því kannski ekki að ástæðulausu að nú er farinn að heyrast kvörtunartónn í einhverjum útflutningsfyrirtækjum. Hefur verulega saxast á það samkeppnisforskot sem innlend fyrirtæki fengu á þennan mælikvarða eftir hrun. Raungengið er hins vegar enn sögulega lágt á þennan mælikvarða og var það á fyrsta ársfjórðungi tæplega 15% undir meðaltali síðasta aldarfjórðungs.  

Sígandi lukka best

nullÞegar kemur að hækkun raungengisins um þessar mundir er sígandi lukka best. Hröð hækkun raungengisins er óhentug á meðan enn eru gjaldeyrishöft og ekki hefur verið rekið smiðshöggið á uppgjör þrotabúa gömlu bankanna, endurfjármögnun skuldabréfa Landsbankans og fleiri mál sem talin eru forsenda þess að hægt sé að aflétta höftunum. Segja má að hækkun raungengisins undanfarið hafi þannig verið nokkuð hröð og ekki sé í bráð innistæða fyrir mikið meiri hækkun.

Með verðbólguna undir verðbólgumarkmiðinu er ljóst að Seðlabankinn mun a.m.k. reyna að halda aftur af frekari hækkun nafngengisins með kaupum á gjaldeyri fyrir krónur á næstunni líkt og hann hefur verið að gera í auknum mæli undanfarið. Tækifærið til að styrkja gjalderyisforðann með þessum hætti er kærkomið í ljósi þess hvað óskuldsettur gjaldeyrisforði bankans er lítill, og að framundan eru boðuð skref í rýmkun gjalderyishafta. Bankinn slær því í raun tvær flugur í einu höggi með gjaldeyriskaupunum um þessar mundir: hann stuðlar að því að ekki dragi um of úr afgangi af vöru- og þjónustuviðskiptum, og safnar einnig í sarpinn fyrir áhættusamari tíma í gjaldeyrisflæðinu.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall