Fréttir Greiningar

Ferðamenn strauja kortin sem aldrei fyrr

15.04.2014 12:33

nullErlendir ferðamenn hafa aldrei straujað kortin sín fyrir hærri fjárhæð hér á landi á 1. ársfjórðungi en nú. Rímar það vel við þá gríðarlegu fjölgun sem orðið hefur á erlendum ferðamönnum hérlendis á sama tíma, og bendir allt til þess að efnahagsleg áhrif ferðaþjónustunnar á þjóðarbúskapinn aukist enn frekar í ár. Jafnframt er eyðsla þeirra hér á landi umfram þá fjárhæð sem Íslendingar eru að eyða í útlöndum, og kemur það til þrátt fyrir gríðarlegan vöxt netviðskipta Íslendinga undanfarið. Bendir þetta til þess að um afgang verði að ræða á þjónustujöfnuði vegna ferðalaga á fyrsta ársfjórðungi, en hingað til hefur hann ávallt verið í halla á þeim tíma.

Kortaveltujöfnuður jákvæður í fyrsta sinn í mars

Samkvæmt tölum sem Seðlabanki Íslands birti í gær nam kortavelta útlendinga hér á landi 6.744 m.kr. í mars sl., sem er 29% hærri fjárhæð í krónum talið en þeir eyddu í mars í fyrra. Á sama tíma nam kortavelta Íslendinga í útlöndum 6.221 m.kr., og var kortaveltujöfnuður (kortavelta útlendinga hér á landi að frádreginni kortaveltu Íslendinga í útlöndum) þar með jákvæður um 523 m.kr. í mánuðinum. Þetta er í fyrsta sinn sem útlendingar eyða meiru hér á landi en Íslendingar í útlöndum í marsmánuði. Til samanburðar má nefna að í mars í fyrra var kortaveltujöfnuður neikvæður um 617 m.kr. og árið þar á undan neikvæður um 1.879 m.kr.

Vísbending um afgang á þjónustujöfnuði

nullOfangreind þróun er framhald af þeirri þróun sem átti sér stað á fyrstu tveimur mánuðum ársins, og hafa erlendir ferðamenn náð að strauja kortin sín fyrir rúma 18,4 ma.kr. nú á fyrsta fjórðungi ársins. Á sama tímabili nemur kortavelta Íslendinga í útlöndum 17,7 mö.kr., og er kortaveltujöfnuður jákvæður um sem nemur 708 m.kr. Er það í fyrsta sinn sem um jákvæðan jöfnuð er að ræða á þessu tímabili. Á sama tíma í fyrra var kortaveltujöfnuður neikvæður um 1.696 m.kr. og árið þar á undan neikvæður um 5.237 m.kr.

Vart þarf að nefna að hér er um afar jákvæða þróun að ræða, og þá ekki síst  í ljósi þess að netviðskipti Íslendinga telja orðið ansi drjúgt í kortanotkun þeirra á erlendri grundu. Í raun teljum við að slík notkun skýri stærsta hluta þeirrar aukningar sem orðið hefur á kortanotkun Íslendinga erlendis á síðustu mánuðum, en netviðskipti eru ekki flokkuð sér í tölum Seðlabankans enn sem komið er. Slík viðskipti koma fram í tölum um vöruskipti við útlönd en ekki þjónustuskipti við útlönd, líkt og ferðaþjónustan er flokkuð undir. Út frá þessum tölum má því álykta að við séum í fyrsta sinn að sjá fram á jákvæðan þjónustujöfnuð vegna ferðalaga á 1. ársfjórðungi, en nýjar tölur um þjónustujöfnuð verða ekki birtar fyrr en í byrjun júní nk. Ekki þarf að fjölyrða um hversu mikilvæg þessi þróun er fyrir gjaldeyrisflæði til og frá landinu, sér í lagi þar sem verðþróun á útflutningsvörum Íslands var óhagstæð á síðasta ári. Hagstæðara gjaldeyrisflæði vegna ferðamanna á að mati okkar verulegan þátt í því hversu vel gengi krónu hefur haldið sjó á þeim vetri sem senn er að baki.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall