Fréttir Greiningar

Verðbólga áfram undir markmiði Seðlabankans

29.04.2014 11:15

nullVerðbólga í apríl mældist undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans þriðja mánuðinn í röð. Verðbólga þessa dagana er að stórum hluta drifin áfram af hækkun íbúðaverðs, en áhrif af styrkingu krónu frá nóvember til mars síðastliðins hafa ráðið mestu um lága verðbólgu nú. Horfur eru á lítilli verðbólgu fram eftir ári, en væntanlega mun hún vaxa að nýju þegar kemur fram á veturinn.

Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,31% í apríl samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar. Hækkunin var í neðri kantinum miðað við opinberar spár, en þær lágu á bilinu 0,3% - 0,5% hækkun. Við höfðum spáð 0,5% hækkun VNV, og skýrist munurinn að stórum hluta af lækkun á farsímakostnaði og matvælaverði sem við höfðum ekki gert ráð fyrir. Verðbólga mælist nú 2,3% og eykst um 0,1% frá marsmánuði.

Íbúðaverð helsti verðbólguvaldurinn

nullHúsnæðisliður VNV vó þungt í hækkun hennar að þessu sinni. Liðurinn hækkaði í heild um 0,93% á milli mánaða, sem hafði áhrif til 0,25% hækkunar VNV í apríl. Til samanburðar hækkaði vísitala neysluverðs án húsnæðis einungis um 0,05% í apríl. Mælist verðbólga nú aðeins 1,0% á þann mælikvarða. Þessi þróun minnir raunar um margt á samsetningu verðbólgunnar fyrir u.þ.b. áratug. Árið 2005 mældist verðbólga 4,0% miðað við VNV en 0,9% miðað við vísitölu neysluverðs án húsnæðis, og árið 2003 voru þessar tölur 2,1% á móti 0,7%. Þá, eins og nú, var styrking krónu verulegur áhrifaþáttur til minni verðbólgu.

Reiknuð húsaleiga, sem endurspeglar að mestu íbúðaverð, hækkaði um 1,4% í apríl, og var sú hækkun drifin af 1,9% hækkun á verði fjölbýlis á höfuðborgarsvæði og 1.7% hækkun íbúðaverðs á landsbyggðinni. Auk þess hækkaði viðhaldskostnaður húsnæðis um 0,9% vegna kjarasamningsbundinnar launahækkunar hjá iðnaðarmönnum.

Ferðakostnaður hækkar, sími og matur lækkar

Að húsnæðisliðnum undanskildum hafði ferða- og flutningaliður VNV mest að segja um hækkun vísitölunnar nú, líkt og við höfðum gert ráð fyrir. Eldsneytisverð hækkaði um 2,6% (0,11% í VNV) og flugfargjöld hækkuðu um 6,0% (0,11% í VNV). Á móti vó að verð á farsímaþjónustu lækkaði um 7,6% í apríl (-0,12% í VNV) og er sú lækkun væntanlega tengd breyttu þjónustuframboði farsímafyrirtækjanna, sem kynnt hefur verið síðustu vikur. Einnig lækkaði dagvöruverð um 0,6% (-0,11% í VNV). Þá lækkaði verð á fötum og skóm um 0,74% (-0,04% í VNV).

Minnsta verðbólga í 12 ár

nullHorfur eru á að verðbólga mælist nærri verðbólgumarkmiði Seðlabankans fram eftir árinu. Bráðabirgðaspá okkar gerir ráð fyrir 0,1% hækkun VNV í maí, 0,3% hækkun í júní og 0,4% lækkun í júlí. Miðað við bráðabirgðaspána mun verðbólga mælast 2,1% í júlí. Horfur fyrir seinni hluta ársins eru einnig fremur jákvæðar. Útlit er því fyrir að verðbólga verði hóflegri á yfirstandandi ári en hún hefur verið  frá árinu 2002, en þá mældist verðbólga 2,1% að jafnaði. Það sem helst gæti ýtt upp verðbólgu næsta kastið væri áframhaldandi hröð hækkun íbúðaverðs eða ef krónan gæfi verulega eftir. Það síðarnefnda virðist þó fremur ólíklegt næstu mánuði, þegar gjaldeyrisinnflæði vegna ferðamanna fer að ná árstíðabundnu hámarki.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall