Fréttir Greiningar

Spáum lækkun stýrivaxta 21. maí nk.

12.05.2014 09:16

Við spáum því að peningastefnunefnd Seðlabankans muni ákveða að lækka stýrivexti bankans um 0,25 prósentur á næsta vaxtaákvörðunarfundi, sem verður 21. maí næstkomandi. Er þar með lokið lengsta tímabili óbreyttra stýrivaxta í sögu verðbólgumarkmiðs bankans. Verður þetta að okkar nullmati eina vaxtalækkun ársins og raunar eina vaxtabreyting ársins, en við teljum að eftir þessa lækkun muni nefndin ákveða að halda stýrivöxtum bankans óbreyttum út árið. Helstu rökin fyrir lækkuninni nú eru að verðbólgan er undir 2,5% verðbólgumarkmiði bankans, verðbólgan ætti að haldast undir eða við verðbólgumarkmiðið út árið, verðbólguhorfur munu væntanlega batna samkvæmt nýrri spá bankans, gengi krónunnar hefur verið stöðugt frá síðustu vaxtaákvörðun og að kjarasamningum hefur verið lent í samræmi við verðbólgumarkmið fyrir stærstan hluta vinnumarkaðarins.

Nefndin opnaði á vaxtalækkun í mars

Í samræmi við spá okkar opnaði peningastefnunefndin á vaxtalækkun á síðasta vaxtaákvörðunarfundi hennar 19. mars síðastliðinn. Samkvæmt fundargerð þótti peningastefnunefndinni þá helst koma til álita að halda stýrivöxtum bankans óbreyttum eða lækka þá um 0,25 pósentur. Sagði í yfirlýsingu nefndarinnar vegna ákvörðunarinnar að það færi eftir þróun verðbólgu og verðbólguvæntinga næstu mánuði hvort skapast gæti tilefni til lækkunar nafnvaxta. Nefndarmenn voru sammála um að verðbólguhorfur hefðu batnað en töldu ekki tímabært að lækka vexti meðal annars þar sem lengri tíma verðbólguvæntingar virtust enn vera töluvert yfir verðbólgumarkmiðinu. Allir studdu tillögu Seðlabankastjóra um óbreytta stýrivexti.

Hvað með verðbólguvæntingarnar?

Seðlabankastjóri hefur sagt að þó að það sé fagnaðarefni að bankinn hafi náð verðbólgumarkmiðinu nú, og fyrr en reiknað var með, þá skiptir höfuðmáli að halda verðbólgu þar til lengri tíma og að ná verðbólguvæntingum niður. Telur bankastjórinn að ef verðbólguvæntingar komi niður skapist forsendur fyrir því að nafnvextir bankans gætu lækkað.

nullFyrir vaxtaákvörðunina nú mun peningastefnunefndin vera með nýja mælingu á verðbólguvæntingum aðila á fjármálamarkaði. Könnun Seðlabankans sem framkvæmd var í byrjun febrúar sl. gefur til kynna að markaðaaðilar hafi þá vænst 3,3% verðbólgu eftir eitt ár. Reikna má fastlega með því að mæling Seðlabankans á verðbólguvæntingum þessara aðila núna til árs reynist lægri og nokkuð nálægt verðbólgumarkmiðinu, en verðbólguvæntingar þessar hafa fylgt þróun verðbólgunnar tiltölulega vel. Í febrúarkönnuninni væntu markaðsaðilar 3,6% verðbólgu eftir 24 mánuði. Líklegt er að verðbólguvæntingar muni einnig lækka á þennan mælikvarða í nýrri könnun bankans. Hugsanlegt er að verðbólguvæntingar til lengri tíma lækki einnig í könnun Seðlabankans nú, en í febrúarkönnuninni reiknuðu markaðsaðilar með 3,9% verðbólgu að meðaltali næstu 5 árin.

Nokkur rök fyrir óbreyttum stýrivöxtum

Meiri óvissa er um þessa vaxtaákvörðun en verið hefur um síðustu vaxtaákvarðanir. Óvissan er í þá veru að líkur eru á því að penignastefnunefndin ákveði að halda stýrivöxtum bankans óbreyttum, en finna má nokkur rök fyrir óbreyttum stýrivöxtum. Má þar nefna að verðbólguvæntingar til lengri tíma eru enn nokkuð yfir verðbólgumarkmiði bankans, verðbólguálag á skuldabréfamarkaði hefur ekki lækkað frá síðasta vaxtaákvörðunarfundi nefndarinnar og að talsverð launahækkun einstakra launþegahópa hefur hleypt illu blóði í aðila vinnumarkaðarins sem kann að kalla á meiri hækkanir launa á næsta kjarasamningstímabili en samrýmist verðbólgumarkmiðinu. Teljum við að síðastnefnda atriðið muni vega nokkuð þungt í óbreyttum stýrivöxtum þegar líður á árið og að kjarasamningum á næsta ári verði ekki lent í jafn góðu samræmi við verðbólgumarkmiðið og núverandi samningar, sem aftur mun verða meðal þeirra þátta sem kalla á hækkun stýrivaxta á næsta ári.

Verðbólguhorfur hafa batnað

Samhliða stýrivaxtaákvörðuninni 21. maí nk. mun Seðlabankinn birta nýja verðbólguspá, en síðast birti bankinn slíka spá 12. febrúar sl. Verðbólgan hefur það sem af er ári verið lægri en Seðlabankinn gerði ráð fyrir í febrúarspá sinni. Var verðbólgan þannig á fyrsta ársfjórðungi null2,5% en Seðlabankinn spáði 2,7% verðbólgu á þeim fjórðungi. Reiknum við með því að verðbólgan á öðrum ársfjórðungi verði einnig undir febrúarspá Seðlabankans, en við spáum því að  verðbólgan á öðrum ársfjórðungi verði 2,3% á meðan Seðlabankinn reiknaði með 2,8% verðbólgu á þeim fjórðungi. Reiknum við með að í nýrri spá muni Seðlabankinn lækka verðbólguspá sína fyrir fjórðunginn.

Reiknum við einnig með því að Seðlabankinn muni í nýrri spá lækka verðbólguspá sína fyrir seinni helming ársins. Spáum við því að verðbólgan á síðasta ársfjórðungi ársins verði 2,3% sem er nokkuð undir febrúarspá Seðlabankans um 2,6% verðbólgu á fjórðungnum. Hagstæðari verðbólguþróun á þessu ári en spáð var í febrúar mun að okkar mati verða ein af rökum peningastefnunefndar fyrir lækkun stýrivaxta nú. 

Samhliða vaxtaákvörðuninni 21. maí nk. mun Seðlabankinn einnig birta nýja spá um hagvöxt til ársins 2016. Reikna má með því að bankinn muni hækka hagvaxtarspá sína fyrir þetta ár, en hann reiknaði með 2,6% hagvexti í febrúarspá sinni. Við spáum 3,2% hagvexti á árinu í nýlegri hagvaxtarspá okkar sem birt var í byrjun maí. Teljum við að Seðlabankinn hafi í febrúarspánni verið heldur hóflegur í forsendum sínum um vöxt í útflutningi vöru- og þjónustu á tímabilinu. Reiknaði bankinn með 1,4% vexti en við með 3,7%. Einnig teljum við að bakinn hafi verið nokkuð hóflegur í spá sinni um vöxt fjárfestinga á árinu, en hann reiknaði með 5,4% vexti á móti 9,9% vexti í spá okkar. Hraðari hagvöxtur á árinu merkir að slakinn er að hverfa fyrr úr hagkerfinu en áður var reiknað með, og eru það viss mótrök gegn vaxtalækkun. Við reiknum þó með því að þetta muni ekki vikta þungt í vaxtaákvörðuninni nú.

Hækkun stýrivaxta á næsta ári

Litið til lengri tíma eru bæði hagvaxtar- og verðbólguhorfur líkt og Seðlabankinn teiknaði þær upp í febrúarspá sinni í grófum dráttum viðlíka þeim sem við gerum ráð fyrir í okkar spám. Reiknum við með því, líkt og Seðlabankinn, að hagvöxtur verði það mikill á næstu tveim árum að framleiðsspenna fari að myndast í hagkerfinu. Þá mun verðbólgan færast í aukana þegar kemur fram á næsta ár og vera nokkuð yfir verðbólgumarkmiðinu. Hvorutveggja kallar á hærri stýrivexti. Seðlabankinn reiknar þó með ögn meiri hagvexti og verðbólgu næstu tvö ár en við. Má vera að í nýrri spá muni bankinn lækka þessar spár.

Eftir lækkun stýrivaxta núna í maí reiknum við með því að peningastefnunefndin ákveði að halda vöxtum bankans óbreyttum út árið. Við reiknum með því að peningastefnunefndin ákveði síðan að hækka stýrivexti bankans í þrígang á næsta ári um samtals 0,75 prósentur samhliða því að spennan myndast í íslensku efnahagslífi og að verðbólgan fæstist í aukana á ný. Verða stýrivextir bankans þá komnir upp í 6,5% í árslok 2015. Við spáum síðan einni 0,25 prósentustiga hækkun á árinu 2016.

Skref í afnámi gjaldeyrishafta gætu kallað á hærri stýrivexti

Ofangreind spá okkar um stýrivexti byggir á því að þær tilslakanir sem gerðar verði á gjaldeyrishöftum á spátímabilinu verði framkvæmdar þannig að þær munu ekki raska stöðugleikanum á gjladeyrismakraðinum. Spáin byggir á því að gengi krónunnar verði nálægt núverandi gildi út spátímabilið. Mikil óvissa er um þá forsendu. Hugsanlegt er að einhver skref verði stigin í afnámi gjaldeyrishafta á spátímabilinu í takti við yfirlýsingu ríksisstjórnarinnar. Verði skrefin stór má reikna með því að þau muni kalla á viðbrögð í peningastjórnun í formi hærri stýrivaxta og aukins vaxtamunar til varnar gengi krónunnar. Verði þetta raunin munu stýrivextir hækka meira á spátímabilinu en felst í okkar spá. 

Hér má nálgast stýrivaxtaspána.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall