Fréttir Greiningar

Spáum 0,2% hækkun neysluverðs í maí

19.05.2014 09:16

nullVið spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) hækki um 0,2% í maí. Gangi spá okkar eftir eykst verðbólga úr 2,3% í 2,6%, enda lækkaði VNV um 0,05% í maí í fyrra.

Verðbólguhorfur eru allgóðar fyrir yfirstandandi ár og eru lítið breyttar frá síðustu spá okkar. Horfur fyrir næstu ár hafa hins vegar heldur batnað, þótt við gerum líkt og áður ráð fyrir að verðbólgan muni aukast lítillega samhliða auknum umsvifum í hagkerfinu. Þó teljum við að verðbólga verði mun minni næstu ár en hún hefur að jafnaði verið undanfarin ár. Hagstofan birtir VNV fyrir maí kl. 09:00 þann 28. maí næstkomandi.

Íbúðaverð skýrir stærstan hluta hækkunar

nullHúsnæðisliður VNV skýrir stærstan hluta hækkunar hennar nú. Vísbendingar af markaði benda til þess að reiknuð húsaleiga, sem endurspeglar að mestu markaðsverð húsnæðis, muni hækka um 0,8% í maí frá fyrri mánuði (0,11% áhrif í VNV). Í heild hefur húsnæðisliður vísitölunnar áhrif til 0,14% hækkunar í maí.

Aðrir liðir sem hafa einna helst áhrif á mánaðarbreytingu VNV í spá okkar eru hótel og veitingastaðir (0,06% í VNV), mat- og drykkjarvörur (0,05% í VNV) og ferðir og flutningar (-0,06% í VNV). Hvað fyrstnefnda liðinn varðar er á ferð árstíðarbundin hækkun á hótelgistingu þegar háannatími ferðaþjónustunnar fer í hönd. Spá um verðhækkun mat- og drykkjarvöru byggir á verðkönnun okkar, og skrifast sú hækkun einna mest á verðhækkun á kjöti og grænmeti. Loks er lækkun á ferðalið VNV í spá okkar til komin vegna lækkunar á flugfargjöldum til útlanda, en flugfargjöld hafa hækkað um nærri fimmtung undanfarna þrjá mánuði, og bendir margt til þess að nú sé komið að lækkun á þeim lið.

Verðbólga svipuð út árið

nullVerðbólguhorfur fyrir komandi mánuði eru að mestu svipaðar og í síðustu spá okkar. Nú er komið á daginn að lækkun krónutölugjalda af áfengi, tóbaki og eldsneyti kemur til framkvæmda í júní, og hefur lítilsháttar áhrif til lækkunar VNV í þeim mánuði. Að öðru leyti virðast fara í hönd fremur tilþrifalitlir mánuðir í verðlagsþróun, ef frá eru talin áhrif af útsölum og útsölulokum í júlí og ágúst.

Við spáum 0,2% hækkun VNV í júní, 0,3% lækkun í júlí og 0,4% hækkun í ágúst. Samkvæmt þeirri spá mun verðbólga mælast 2,2% alla mánuðina þrjá. Við gerum í kjölfarið ráð fyrir að verðbólga haldist á svipuðum slóðum út árið, og mælist 2,3% í árslok.

Á næsta ári teljum við að verðbólga aukist heldur. Eftirspurnarþrýstingur eykst væntanlega nokkuð í hagkerfinu, og endurspeglast það í hraðari hækkun launa og áframhaldandi raunhækkun fasteignaverðs. Við spáum því að verðbólga verði að jafnaði 3,1% á árinu 2015, og raunar hljóðar spá okkar fyrir árið 2016 einnig upp á 3,1% hækkun að jafnaði.

Langtímaspá okkar byggir á þeim forsendum að íbúðaverð hækki um 5% – 7% á ári hverju, laun taki að hækka hraðar frá og með næsta ári samhliða því að slakinn hverfur úr efnahagslífinu, og að gengi krónu haldist óbreytt í námunda við núverandi gildi. Breytt forsenda um gengi krónu er í samræmi við nýlega þjóðhagsspá okkar, og má þar finna rökin fyrir þeirri spá. Áður höfðum við gert ráð fyrir nokkurri veikingu krónu á spátímanum, og er þessi breyting ástæðan fyrir því að verðbólguhorfur fyrir næstu ár eru öllu bjartari í spá okkar nú en raunin hefur verið undanfarið. Það þarf svo vart að fjölyrða um að gengisforsendan er verulegri óvissu háð, þótt vissulega hafi dregið úr gengissveiflum krónu í kjölfar virkari afskipta Seðlabankans af gjaldeyrismarkaði.

Verðbólguspá fyrir maí

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall