Fréttir Greiningar

Væntingar neytenda lítt breyttar

28.05.2014 11:05

nullLítil breyting varð á væntingum íslenskra neytenda til efnahags- og atvinnulífsins á milli mælinga í apríl sl. og maí samkvæmt Væntingavísitölu Gallup (VVG) sem birt var í gærmorgun. Þannig hækkar VVG um tæplega 1 stig í maí frá fyrri mánuði, og mælist hún nú 83,6 stig. Kemur þessi lítilsháttar hækkun á hæla töluverðrar lækkunar á vísitölunni mánuðinn á undan, en sú þróun kom okkur nokkuð á óvart þar sem hún var úr takti við þróun annarra hagvísa er varða stöðu heimila. Við reiknuðum með að lækkunin í apríl myndi ganga talsvert til baka í maí, en ljóst er að það gekk ekki eftir. Kann að vera að viðvarandi órói á hluta vinnumarkaðar hafi átt hér hlut að máli, en verkföll framhaldsskólakennara settu svip á aprílmánuð og verkföll grunnskólakennara og flugfólks komu síðan í kjölfarið í maí.

Mest hækkar mat neytenda á atvinnuástandi í maí, um rúm 6 stig, og mælist sú vísitala nú 86,4 stig. Einnig varð nokkur hækkun á væntingum neytenda til ástandsins eftir 6 mánuði (tæp 6 stig) og mælist sú vísitala 113,1 stig. Á hinn bóginn varð talsverð lækkun á undirvísitölunni fyrir mat neytenda á efnahagslífinu (11 stig) og á núverandi ástandi (7 stig), og mælist sú fyrrnefnda nú 63,9 stig en sú síðarnefnda 39,5 stig.

Öllu lágstemmdari kosningabarátta nú

nullÍ maí í fyrra tók VVG heldur betur við sér og fór í fyrsta sinn í 100 stig frá því í febrúar 2008, en 100 stig þýða að jafnvægi var á milli bjartsýni og svartsýni hjá þjóðinni. Þróunin þá var þó talsvert lituð af alþingiskosningum, en almennt virðast Íslendingar fyllast af aukinni bjartsýni þegar ný ríkistjórn tekur við völdum. Svo virðist hins vegar sem áhrifin séu lítil sem engin af kosningabaráttunni í kringum sveitarstjórnarkosningar, en umræðan í kring um kosningarnar nú hefur verið öllu lágstemmdari en í kringum alþingiskosningar í fyrra. Miðað við þróun hinna ýmissa hagstærða er varða heimilin, eins og neyslu þeirra, ástandinu á vinnumarkaði og kaupmátt reiknum við með að VVG komi frekar til með að hækka en hitt yfir sumarmánuðina.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall