Fréttir Greiningar

Þjónustujöfnuður loksins hagstæður á 1. ársfjórðungi

02.06.2014 11:28

nullAfgangur upp á 825 m.kr. var af þjónustujöfnuði við útlönd á 1. fjórðungi þessa árs skv.  bráðabirgðatölum sem Hagstofa Íslands birti nú í morgun. Þetta er í fyrsta sinn frá upphafi sem afgangur er af þjónustujöfnuði á þessu tímabili, eða a.m.k. í fyrsta sinn frá árinu 1990 sem er eins langt aftur og opinberar tölur ná. Fyrir hrun var að jafnaði 10 ma.kr. halli á þessum jöfnuði á 1. ársfjórðungi, en eftir hrun og fram til ársins 2012 var hallinn kominn niður í rúmlega 3 ma.kr. að jafnaði. Í fyrra mældist halli upp á 187 m.kr. sem er augljóslega afar lítill halli sögulega séð.

Útflutningur á þjónustu nam rúmlega 85,0 mö.kr. og jókst um rúmlega 11% milli ára í krónum talið, en innflutningur þjónustu nam 84,1 mö.kr. og jókst um 10% á sama tímabili. Var afgangurinn að stærstum hluta vegna rúmlega 14,9 ma.kr. afgangs af viðskiptum vegna samgangna sem er stærsti þjónustuliðurinn í útflutningi, og einnig vegna 1,7 ma.kr. afgangs á þjónustu tengdri ferðalögum. Halli var af annarri þjónustu upp á 15,8 ma.kr., og hefur aldrei meiri halli mælst á þeim jöfnuði frá upphafi. Sá þjónustuliður hefur nánast ávallt verið í halla allt frá því í ársbyrjun 2003, og er stærsta skýringin rekstrarleiga sem væntanlega endurspeglar leigu flutningafyrirtækja á skipum og flugvélum. Má raunar segja að sá liður sé hin hliðin á þjónustutekjum vegna samgagna, enda eru leiguskipin og –flugvélarnar nýttar til að afla þeirra tekna. Annars innifelur liðurinn afar fjölbreytta flóru þjónustuviðskipta, allt frá fjármálaþjónustu til höfundarréttargjalda.

Mestu munar um stórauknar ferðaþjónustutekjur

nullEins og á undan er getið var afgangur af þjónustujöfnuði vegna ferðalaga upp 1,7 ma.kr. nú á 1. ársfjórðungi. Það er heldur betur viðsnúningur frá því sem áður var enda hefur þessi hluti þjónustujafnaðar aldrei áður verið jákvæður á 1. fjórðungi. Þessi þróun er tilkomin vegna gríðarlegrar aukningar á útfluttri ferðaþjónustu, en hún nam 23,8 mö.kr. á 1. ársfjórðungi nú í ár. Það jafngildir krónutöluaukningu upp á rúm 25% frá sama tímabili í fyrra, 76% aukningu frá því árinu á undan og er munurinn enn meiri eftir því sem litið er lengra aftur í tímann, enda hefur útflutningur þessa þjónustuliðar aldrei verið eins mikill. Innflutt ferðaþjónusta hefur ekki vaxið með sama hraða, en hún nam alls 22,1 mö.kr. á 1. ársfjórðungi sem er 10% krónutöluaukning á milli ára.

Ofangreind útkoma er í takti við það sem við bjuggumst við enda hafa erlendir ferðamenn á 1. ársfjórðungi aldrei verið jafn margir og nú í ár, og hafa þar með aldrei áður straujað kortin sín fyrir jafn háa fjárhæð á því tímabili. Jafnframt var eyðsla þeirra hér á landi í fyrsta sinn umfram eyðslu Íslendinga í útlöndum á þessu tímabili samkvæmt kortaveltutölum frá Seðlabankanum.

Dregur úr afgangi af vöru- og þjónustuviðskiptum

Seðlabankinn birtir á morgun tölur um greiðslujöfnuð við útlönd á 1. ársfjórðungi 2014. Núna liggja fyrir bráðabirgðatölur um tvo af þremur undirþáttum viðskiptajafnaðarins, þjónustujöfnuð (842 m.kr. afgangur) og vöruskiptajöfnuð (9,2 ma.kr. afgangur). Samanlagður afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum var því 10,1 ma.kr. nú á 1. ársfjórðungi. Þrátt fyrir hagstæðustu útkomu þjónustujafnaðar á þessu tímabili frá upphafi er um minnsta afgang af þessum tveimur undirliðum viðskiptajafnaðar að ræða frá því fyrir hrun. Sú þróun skýrist m.a. af því að loðnuvertíðin í ár skilaði einungis um þriðjungi af afurðum vertíðarinnar í fyrra, 14% lækkun álverðs á milli ára og auknum innflutningi vegna vaxtar í innlendri eftirspurn.

Þriðji liðurinn, þáttatekjur og tilfærslur nettó, birtist svo á morgun, en jafnan hefur verið halli á þeim lið undanfarin misseri, jafnvel þótt reiknuð vaxtagjöld vegna gömlu bankanna séu undanskilin. Mun sá liður þar með ráða hvort halli eða afgangur komi til með að mælast á undirliggjandi viðskiptajöfnuði á fjórðungnum, og er erfitt að segja til um hvoru megin hryggjar lokaniðurstaðan lendir.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall