Fréttir Greiningar

Spáum 0,2% hækkun neysluverðs í júní

16.06.2014 08:09

nullVið spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) hækki um 0,2% í júní. Gangi spá okkar eftir hjaðnar verðbólga úr 2,4% í 2,1% enda hækkaði VNV um 0,5% í júní í fyrra.

Verðbólguhorfur eru allgóðar fyrir yfirstandandi ár. Líkt og áður þá gerum við ráð fyrir að verðbólgan muni aukast á næsta ári samhliða auknum umsvifum í hagkerfinu. Þó teljum við að verðbólga verði mun minni næstu ár en hún hefur að jafnaði verið undanfarin ár. Hagstofan birtir VNV fyrir júní kl. 09:00 þann 27. júní næstkomandi.

Engar áhrifamiklar verðhækkanir

nullLítið er um stóra hækkunarvalda VNV í júní samkvæmt spá okkar. Stærsti einstaki áhrifavaldurinn er ferða- og flutningaliðurinn. Gerum við ráð fyrir að hann vegi til 0,06% hækkunar VNV í mánuðinum, sem má meðal annars rekja til hækkunar eldsneytisverðs (0,02% í VNV). Að þessu sinni teljum við að lítil breyting verði á flugfargjöldum til útlanda (0,01% í VNV), og þá þrátt fyrir að talsverð breyting hafi verið í verði á fargjöldum til einstakra áfangastaða, bæði til hækkunar og lækkunar.

Spá um verðhækkun mat- og drykkjarvöru (0,05% í VNV) byggir á verðkönnun okkar og skrifast sú hækkun helst á kjöt, grænmeti og ávexti. Af öðrum liðum sem má nefna hér er árstíðarbundin verðhækkun á þjónustu hótela og veitingastaða, sem að okkar mati munu vega til 0,03% hækkunar VNV.

Gögn af íbúðamarkaði benda til þess að húsnæðisliður vísitölunnar (0,03% í VNV) muni lítið hækka þennan mánuðinn sem er ólíkt þróuninni sem verið hefur að undanförnu. Vísbendingar af markaði benda til þess að reiknuð húsaleiga, sem endurspeglar að mestu markaðsverð húsnæðis, hafi verið óbreytt á milli maí og júní. Samkvæmt verðmælingu okkar mælist lækkun á verði sérbýlis á höfuðborgarsvæðinu, en aftur á móti hækkun á íbúðaverði á landsbyggðinni og fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu.

Að lokum má nefna að áhrifa lækkunar á krónutölugjöldum áfengis og tóbaks (-0,02 í VNV) gætir í spánni í júní. Samkvæmt verðmælingu okkar höfðu þó ekki nærri allar víntegundir lækkað í verði vegna ofangreindrar lækkunar, og kann því að vera að talsverður hluti vínumboða eigi eftir að ráðast í þá lækkun sem mun þá hafa áhrif síðar í sumar.

Verðbólga svipuð út árið

Verðbólguhorfur fyrir komandi mánuði eru að mestu svipaðar og í síðustu spá okkar. Fremur tilþrifalitlir mánuðir í verðlagsþróun eru framundan að okkar mati, ef frá eru talin áhrif af útsölum og útsölulokum.

nullVið spáum 0,4% lækkun VNV í júlí og 0,4% hækkun bæði í ágúst og september. Lækkun VNV í júlí skýrist af útsöluáhrifum, sem ganga svo til baka í ágúst og september. Samkvæmt þeirri spá mun verðbólga mælast 2,0% í júlí og ágúst en 2,1% í september. Við gerum í kjölfarið ráð fyrir að verðbólga haldist á svipuðum slóðum út árið, og mælist 2,0% í árslok.

Á næsta ári teljum við að verðbólga aukist heldur. Framleiðsluspenna myndast væntanlega í hagkerfinu, og endurspeglast það í hraðari hækkun launa og áframhaldandi raunhækkunar fasteignaverðs. Við spáum því að verðbólga verði að jafnaði 3,1% á árinu 2015, og raunar hljóðar spá okkar fyrir árið 2016 einnig upp á 3,1% hækkun að jafnaði.

Langtímaspá okkar byggir á þeim forsendum að íbúðaverð hækki um 5% – 7% á ári hverju út spátímann, laun taki að hækka hraðar frá og með næsta ári samhliða því að framleiðsluspennan eykst í efnahagslífinu, og að gengi krónu haldist óbreytt í námunda við núverandi gildi.

Verðbólguspá fyrir júní

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall