Fréttir Greiningar

Enn aukast ferðamannatekjur

18.06.2014 11:22

nullTölur Seðlabankans um greiðslumiðlun sýna að ekkert lát er á tekjuvexti af erlendum ferðamönnum nú þegar hillir undir stærstu ferðamannamánuði ársins. Alls nam heildarúttekt erlendra greiðslukorta hér á landi 8,7 mö.kr. í maí sl., sem er aukning upp á rúm 28% í krónum talið á milli ára. Hafa erlendir ferðamenn nú náð að strauja kortin sín fyrir 34,0 ma.kr. á fyrstu fimm mánuðum ársins, sem er 7,5 mö.kr. hærri fjárhæð en þeir straujuðu kortin sín fyrir á sama tímabili í fyrra. Jafngildir það aukningu upp á rúm 28% í krónum talið á milli ára. Þessi þróun er í ágætu samræmi við tölur Ferðamálastofu um brottfarir erlendra ferðamanna frá landinu um Keflavíkurflugvöll. Samkvæmt þeim fjölgaði erlendum ferðamönnum um rúm 24% á milli ára í maí sl., en sé tekið mið af fyrstu fimm mánuðum ársins hefur þeim fjölgað um 31%.

Kortaveltujöfnuður fjórfaldast á milli ára

nullKortavelta Íslendinga í útlöndum vegna ferðalaga og netviðskipta nam 7,7 mö.kr. í maí sl., og var kortaveltujöfnuður þar með jákvæður um 1,0 ma.kr. í mánuðinum. Er hér um að ræða langhagfelldustu útkomu þessa jafnaðar frá upphafi í maímánuði, og er útkoman fjórfalt betri en hún var í maí í fyrra þegar jöfnuðurinn mældist í fyrsta sinn jákvæður.

Frá áramótum talið er kortaveltujöfnuður jákvæður um sem nemur 1,7 ma.kr., og er þetta í fyrsta sinn sem kortavelta útlendinga hér á landi er umfram kortaveltu Íslendinga í útlöndum á þessu tímabili. Á sama tímabili í fyrra straujuðu Íslendingar kortin sín í útlöndum fyrir 2,2 ma.kr. hærri fjárhæð en útlendingar hér á landi, og árið þar á undan munaði 7,2 mö.kr. Af þessu má sjá að ferðaþjónustan hefur gegnt lykilhlutverki við að afla gjaldeyris fyrir þjóðarbúið, og þar með hjálpað til við að halda styrknum í gengi krónunnar á síðustu mánuðum en dregið hefur töluvert úr afgangi á vöruskiptum við útlönd á sama tímabili.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall