Fréttir Greiningar

Neytendur ekki verið bjartsýnni síðan fyrir hrun

24.06.2014 13:40

nullVæntingavísitala Gallup (VVG) tók heldur betur við sér í júnímánuði og fór upp í sitt hæsta gildi frá því í febrúar 2008. Hækkar VVG um rúm 18 stig á milli maí og júní, og mælist nú 101,8 stig, en þegar vísitalan er yfir 100 stigum eru fleiri neytendur bjartsýnir en svartsýnir. Fyrir þessa mælingu hafði hún aðeins tvívegis komist upp fyrir 100 stig frá því í ársbyrjun 2008 sem var í maí og júní í fyrra. Þá var VVG talsvert lituð af niðurstöðu alþingiskosninganna, en Íslendingar virðast fyllast aukinni bjartsýni þegar ný ríkistjórn tekur við völdum. Þeirra áhrifa var augljóslega ekki að gæta nú og má því segja að Íslendingar hafi ekki verið bjartsýnni á efnahags- og atvinnulíf þjóðarinnar síðan fyrir hrun.

Áfram væntingar um betri tíð

nullAllar undirvísitölur hækka í júní frá fyrri mánuði. Mest hækkar mat neytenda á efnahagslífinu (33 stig), en sú vísitala mælist nú 96,8 stig sem er hæsta gildi þeirrar vísitölu frá því í janúar 2008. Næstmest hækkar undirvísitalan sem mælir mat neytenda á núverandi ástandi (26 stig), og mælist sú vísitalan nú 65,6 stig sem er hæsta gildi hennar frá því í september 2008. Mat á atvinnuástandinu hækkar einnig töluvert (18 stig) sem og væntingar til aðstæðna eftir 6 mánuði (13 stig). Mælist fyrrnefnda vísitalan 103,9 stig og sú síðarnefnda 126,0 stig.

Af ofangreindu má sjá að Íslendingar vænta þess að ástandið í efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar muni batna frá núverandi ástandi, en við því hafa þeir raunar búist frá því snemma árs 2008. Fyrir hrun var þessu öfugt farið, en frá miðju ári 2004 til mars 2008 var gildi vísitölunnar sem mælir mat neytenda á núverandi ástandi ávallt hærra en þeirrar sem mælir mat á væntingum til 6 mánaða. Töldu neytendur þá núverandi ástand svo gott að það myndi varla batna upp frá þessu, sem er andstætt við stöðuna nú.

Íslendingar líklegri til að ráðast í stórkaup

nullCapacent Gallup birti einnig samhliða VVG niðurstöður úr ársfjórðungslegum mælingum sínum á fyrirhuguðum stórkaupum neytenda. Hækkar vísitalan fyrir fyrirhuguð stórkaup  lítillega á milli mælinga (1 stig), og mælist nú 59,1 stig sem er hæsta gildi hennar frá því í september 2008. Samkvæmt þessari niðurstöðu eru íslenskir neytendur líklegri til þess að ráðast í stórkaup nú en þeir hafa verið frá hruni, en stórkaupavísitalan mælir hversu líklegir neytendur eru til þess að festa kaup á húsnæði eða bifreið á næstu 6 mánuðum, eða ferðast til útlanda á næstu 12 mánuðum.

Fleiri huga að utanlandsferð

nullHækkun stórkaupavísitölunnar á milli mælinganna í mars og júní má að öllu leyti rekja til hækkunar á vísitölunni um fyrirhugaðar utanlandsferðir (9 stig). Sú vísitala mælist nú 148 stig og fer í sitt hæsta gildi frá því í september 2008. Töldu 65% svarenda mjög eða frekar líklegt að þeir myndu halda utan á næstu 12 mánuðum en 24% frekar eða mjög ólíklegt. Þessi þróun kemur ekki á óvart enda í takti við tölur Ferðamálastofu Íslands um brottfarir Íslendinga um Keflavíkurflugvöll. Þannig hafa ekki jafn margir Íslendingar á fyrstu fimm mánuðum ársins haldið erlendis og nú í ár frá því fyrir hrun. Miðað við niðurstöðu Capacent Gallup má vænta þess að ekkert lát verði á þeirri þróun, a.m.k. næsta árið.

nullEkki er alveg sömu sögu að segja um þróun á vísitölunni fyrir fyrirhuguð húsnæðiskaup (-2 stig) eða fyrirhuguð bifreiðakaup (-3 stig), en þær lækka báðar á milli mælinga. Stingur það í stúf við aðra hagvísa er þetta varðar sem sýna að stöðugt meira líf hefur verið að færast í bifreiða- og húsnæðismarkaðinn. Mælist gildi vísitölunnar fyrir húsnæðiskaup 7,1 stig og er þar með aðeins lægra en það hefur að jafnaði mælst síðasta árið. Gildi vísitölunnar fyrir bifreiðakaup stendur hins vegar í sínu þriðja hæsta gildi frá því í júní 2008, eða 22,3 stigum, þrátt fyrir ofangreinda lækkun vísitölunnar enda náði hún sínu hæsta gildi í mars mælingu þessa árs.

Vísbendingar um talsverðan einkaneysluvöxt

nullOfangreind niðurstaða Capacent Gallup um VVG og stórkaupavísitöluna er í takti við aðra hagvísa sem gefa vísbendingu um einkaneyslu, t.a.m. kortatölur Seðlabankans sem við fjölluðum um í Morgunkorni okkar í síðustu viku. Benda þær tölur til þess að einkaneysluvöxtur verði all myndarlegur á árinu, en að raunvirði hefur kortavelta einstaklinga aukist um 4,8% á milli ára á fyrstu fimm mánuðum ársins. Er það nokkuð umfram þá 2,7% kaupmáttaraukningu sem orðið hefur á sama tímabili. Þó þarf að taka það með í reikninginn að einkaneysla var með rýrara móti í fyrra og er vöxtur hennar því af nokkuð lágum grunni, og var þá nokkuð undir vexti kaupmáttar, eða 1,2% á móti 1,7%.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall