Fréttir Greiningar

Lognmolla á verðbréfamörkuðum

01.07.2014 10:09

Veltan á íslenska hlutabréfamarkaðinum á fyrstu sex mánuðum ársins nam 278 mö.kr. sem er 2% minni velta en á sama tímabili 2013. Mismunur þessara tímabila er hins vegar sá að fyrstu sex mánuði þessa árs eru þrjú ný félög, N1, Grandi og Sjóvá á Aðallista Kauphallarinnar. Auk þess voru tvö félög, VÍS og TM, skráð undir lok fyrstu sex mánaða síðasta árs. Virði þessara fimm félaga eru tæplega fjórðungur af heildarvirði hlutabréfamarkaðarins í dag. Það er því óhætt að segja að á fyrri helmingi þessa árs hafi verið töluverð lognmolla á innlendum hlutabréfamarkaði hvað veltu varðar.

Engu að síður talsverðar verðbreytingar

nullÞrátt fyrir litla veltu á fyrri helming ársins hefur verð einstakra félaga tekið töluverðum breytingum. HB Grandi, sem skráður var á Aðallista á árinu, hefur hækkað um 29,5% á tímabilinu. Megin hluti hækkunarinnar kom til á meðan félagið var skráð á First North en félagið hefur hækkað um 2,9% frá útboðsgengi sínu. Össur, Hagar og Vodafone hafa einnig öll hækkað vel frá ársbyrjun og er megin ástæða þeirra hækkana sennilega sterk uppgjör félaganna.

Tryggingafélögin hafa öll lækkað frá ársbyrjun. Kemur það ekki á óvart miðað við þróun markaða enda kemur bróður partur arðsemi félaganna frá ávöxtun af eignasafni þeirra. Önnur félög sem hafa lækkað hafa gert það á grundvelli slakra uppgjöra en vænt áhrif verkfallsaðgerða á afkomu skýrir þó líklega að mestu lækkun Icelandair.

Hlutabréfavísitölur hafa lækkað töluvert

nullHlutabréfaverð, mælt með K-90, hefur lækkað um 7,1% frá ársbyrjun. Vísitala Kauphallarinnar hefur aftur lækkað heldur meira eða um 9,8%. Vísitölurnar eru eðlis ólíkar en þannig er vísitala Kauphallarinnar endursamsett hálfsárlega úr þeim félögum er hafa mestan seljanleika. K-90, hlutabréfavísitala okkar, er aftur samsett af þeim félögum sem skapa í það minnsta 90% af samanlagðri veltu síðustu þriggja mánaða fyrir viðmiðunarmánuð. Ein afleiðing þessa mismunar er að ákveðin félög koma fyrr inn í K-90 en vísitölu Kauphallarinnar. Vísitalan Kauphallarinnar, OMXI6, hefur hingað til verið skipuð sex félögum. Frá 1. júlí verður hins vegar tveim félögum bætt við vísitöluna (OMXI8). Við vísitöluna bætast þá N1, Sjóvá og HB Grandi en Eimskip fellur úr henni.

Lítill byr á skuldabréfamarkaði

nullLognmollan hefur einnig verið á skuldabréfamarkaði í ár. Þannig lækkaði  aðal skuldabréfavísitala Kauphallarinnar, NOMXIBB, sem mælir verðþróun ríkistryggðra skuldabréfa, um 0,4% á fyrri helmingi ársins. Vísitala verðtryggðra ríkistryggðra bréfa (NOMXIREAL) lækkaði um 1,1% á sama tíma en vísitala óverðtryggðra ríkistryggðra bréf (NOMXINOM) hækkaði um 1,1%. Þessa þróun má að hluta til rekja til minnkandi verðbólguálags á skuldabréfamarkaði.

Framboð hefur líklega verið meiri en eftirspurn

Það sem af er ári hefur framboð ýmissa fjármálaafurða verið töluvert og er líklegasta skýringin á þessari lægð á verðbréfamörkuðum því sú að þar hafi eftirspurn ekki náð að halda í við framboð. Frá ársbyrjun hafa ýmis stór verkefni verið fjármögnuð á hinum óskráða og/eða óvirka markaði. Þannig voru m.a. kláruð viðskipti með HS Veitur, Höfðatorgi og Norvik. Auk þessa voru hlutafjárútboð hjá Sjóvá og HB Granda. Einnig voru gerð nokkur stór viðskipti á skráða hlutabréfamarkaðnum en slík viðskipti hafa tilhneigingu til að þurrka upp eftirspurn á markaðnum til skamms tíma. Helstu stóru viðskipti þessa árs á skráða markaðnum voru sala Framtakssjóðsins á hlut sínum í N1 og Icelandair, sala Hagamels á bróðurhluti eignar félagsins í Högum, sala á hluta af eign Klakka í VÍS og sala TM á hlut sínum í HB Granda.

Veðrabrigði í nánd?

Það verður spennandi að fylgjast með innlendum verðbréfamörkuðum á seinni hluta árs. Það er líklegt að við sjáum einhver hlutafjárútboð fyrir árslok. Promens hefur rætt skráningu á seinni hluta þessa árs, síðustu upplýsingar eru þó þær að félagið sé að meta möguleikann á tvískráningu og gæti það tafið skráningarferlið. Fasteignafélögin Reitir og Eik færast aftur nær skráningu. Samkeppniseftirlitið hefur samþykkt kaup Eikar á Landsfestum en Reitir vinna enn að sáttum við Seðlabankann. Þá má búast við því að en bætist við flóru skuldabréfa á seinni hluta ársins þegar Seðlabankinn hefur sölu á ESÍ bréfunum.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall