Fréttir Greiningar

Ekkert gjaldeyrisinnflæði vegna vöruskipta

07.08.2014 12:02

Vöruskipti við útlönd hafa ekki skapað neitt nettóinnflæði gjaldeyris það sem af er ári, ef marka má tölur Hagstofunnar, og er það í fyrsta sinn frá hruni sem slíkt er uppi á teningnum á fyrstu sjö mánuðum ársins. Viðsnúningurinn í vöruskiptunum er talsvert brattari en við áttum von á, en á sama tímabili í fyrra var ríflega 30 ma.kr. afgangur af vöruskiptum við útlönd. Ljóst er að hraður vöxtur í ferðaþjónustunni hefur komið krónunni til bjargar það sem af er ári, og ef hans nyti ekki við er hætt við að til veikingar krónu hefði komið undanfarið.

Halli á vöruskiptum í júlí

Samkvæmt nýbirtum bráðabirgðatölum Hagstofu var 1,2 ma.kr. halli á vöruskiptum við útlönd í nýliðnum júlímánuði. Hallinn kom að þessu sinni til að mestu leyti vegna mikils innflutnings, sér í lagi á eldsneyti og öðrum hrá- og rekstrarvörum. Útflutningur í júlí reyndist 51,2 ma.kr., og er það mesti útflutningur í krónum talið frá nóvember á síðasta ári. Þar hjálpar til að verð á áli hefur hækkað um ríflega 13% frá maí síðastliðnum, enda voru iðnaðarvörur fluttar út fyrir 29 ma.kr. sem er mesti útflutningur slíkra vara frá því í júlí í fyrra. Vöruinnflutningur í júlí nam hins vegar 52,3 mö.kr. og hefur ekki verið meiri í krónum talið síðan í desember árið 2011. Þar af nam innflutningur eldsneyti og annarra hrá- og rekstrarvara samtals 26 mö.kr., en til samanburðar nam slíkur innflutningur að jafnaði tæpum 19 mö.kr. í mánuði hverjum á fyrri helmingi ársins.

Óhagstæð vöruskipti það sem af er ári

Á fyrstu sjö mánuðum ársins var 3,6 ma.kr. halli á vöruskiptum við útlönd. Til samanburðar var á þessu tímabili í fyrra 30,5 ma.kr. afgangur af vöruskiptunum, og árið 2012 var afgangurinn 26,4 ma.kr. á sama tímabili. Við áttum raunar von á að vöruskiptaafgangurinn myndi reynast nokkuð rýrari á þessu ári en í fyrra, en umskiptin hafa reynst mun snarpari en við gerðum ráð fyrir. 

Nokkrar ástæður eru fyrir versnandi vöruskiptajöfnuði. Má þar nefna að útflutningur sjávarafurða var nærri 10% minni í magni mælt á fyrri helmingi ársins samkvæmt tölum Hagstofunnar, og er þar að verulegu leyti um að kenna lélegri loðnuvertíð í vetur. Þá var álverð mjög lágt framan af ári, en það hefur raunar hækkað talsvert síðustu vikurnar eins og að framan greinir. Á innflutningshliðinni hefur svo orðið töluverð aukning á fyrri árshelmingi frá sama tíma í fyrra, sér í lagi hvað varðar innflutning á bifreiðum bæði til einkanota (34,5% aukning) og í atvinnuskyni (35,6% aukning). Innflutningur annarra neysluvara jókst svo um 6,5% á tímabilinu. 

Ferðaþjónustan drjúg í gjaldeyrisöflun

Horfur eru að mati okkar á að vöruskipti á síðustu 5 mánuðum ársins reynist nokkru hagstæðari en hingað til hefur verið raunin frá áramótum. Hækkandi álverð hefur hér áhrif, en einnig hefur verð sjávarafurða heldur farið hækkandi. Þá voru aflaheimildir fyrir komandi fiskveiðiár auknar lítillega á heildina litið. Hins vegar er líklegt að vöxtur innflutnings mælist áfram nokkur. Það virðist í öllu falli ljóst að afgangur af vöruskiptum verður lítill, ef nokkur, þetta árið. Þeim mun dýrmætari er sá mikli vöxtur sem verið hefur í ferðaþjónustu það sem af er ári, og skilað hefur mun meiri gjaldeyristekjum í ár en raunin var í fyrra. Víst er að gjaldeyrisinnflæðið sem verið hefur ríkjandi á gjaldeyrismarkaði frá nóvember á síðasta ári, og gert hefur Seðlabankanum kleyft að auka verulega við gjaldeyrisforða sinn á sama tíma og gengi krónu hefur verið stöðugt, er ekki til komið vegna afgangs á vöruskiptum. Þar eru gjaldeyristekjur af ferðamönnum og annarri þjónustu lykilþáttur. Líklega má svo einnig þakka hagstæðara flæði frá fjármagnsjöfnuði fyrir stöðugleikann á gjaldeyrismarkaði, en greiðari aðgangur að erlendu lánsfé undanfarið hefur væntanlega dregið nokkuð úr þörfinni á gjaldeyriskaupum í tengslum við gjalddaga erlendra skuldbindinga þessa dagana.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall