Fréttir Greiningar
Hófleg hækkun neysluverðs í ágúst
27.08.2014 11:13

Samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar hækkaði VNV um 0,24% í ágúst frá fyrri mánuði. Hækkunin var ívið minni en við höfðum vænst (0,3%), en spár lágu á bilinu 0,1% - 0,3% hækkun. Ársverðbólga mælist nú 2,2%, en var 2,4% í júlímánuði. VNV án húsnæðis hækkaði hins vegar um 0,18% og mælist verðbólga á þann kvarða nú 1,2%.
Útsölulok, húsnæði, póstur og sími til hækkunar

Að áhrifum útsöluloka undanskildum hafði húsnæðisliður VNV mest áhrif til hækkunar (0,08%) í ágústmánuði. Hækkunin kom að langstærstum hluta til vegna 0,6% hækkunar rá reiknaðri húsaleigu (0,08% í VNV), en sá liður endurspeglar að mestu verðþróun á íbúðarhúsnæði. Einnig hækkaði greidd húsaleiga lítillega, en lítilsháttar lækkun á rafmagni og hita vó á móti.
Þá hækkaði verð á póst- og símaþjónustu um 2,0% (0,06% í VNV) og hefur sá liður nú hækkað um 3,8% á tveimur mánuðum. Póstþjónusta hækkaði í verð um 9,4% í ágústmánuði, en 1,9% hækkun á símaþjónustu vó þó þyngra.
Flug og eldsneyti vegur til lækkunar
Á móti framantöldum hækkunum kom til 1,7% lækkun á ferða- og flutningalið vísitölunnar (-0,27% í VNV). Þar af lækkaði eldsneytisverð um 2,1% (-0,09% í VNV) og flugfargjöld um 8,4% (-0,18% í VNV). Lækkun á heimsmarkaðsverði á eldsneyti undanfarnar vikur var þar veigamikill áhrifaþáttur. Að auki má nefna að flugfargjöld höfðu samtals hækkað um nærri 28% í júní og júlí, og lækkunin nú þegar nær dregur hausti var að okkar mati viðbúin í því ljósi.
Góðar verðbólguhorfur til skemmri tíma

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?