Fréttir Greiningar

Mikil styrking krónu í gjaldeyrisútboðum ársins

03.09.2014 12:09

Munurinn á útboðsgengi í gjaldeyrisútboðum Seðlabankans og gengi íslensku krónunnar gagnvart evru á álandsmarkaði hefur helmingast frá áramótum, og hefur krónan aldrei verið sterkari í útboði en raunin var í gjaldeyrisútboðinu í gær. Upphæð aflandskróna er nú u.þ.b. helmingur af því sem hún varð hæst eftir hrun, og hafa gjaldeyrisútboðin fækkað aflandskrónum um 146 ma.kr. frá því þau hófu göngu sína fyrir þremur árum síðan. Virðist sem þrýstingur vegna aflandskróna sé orðinn mun minni en hann var við upphaf útboðanna, og því hafa líkur aukist á að stjórnvöld fari að huga að næstu skrefum í afléttingu gjaldeyrishafta. 

50/50 leiðin fyrirferðarmest í gær

Í gjaldeyrisútboði Seðlabankans í gær, sem var það fyrsta frá júní síðastliðnum, skiptu ríflega 28 m. evra um hendur fyrir 5,1 ma.kr. á útboðsgenginu EUR/ISK 181. Heildartilboð í fyrri legg útboðsins, þar sem fjárfestar seldu evrur til Seðlabankans í skiptum fyrir krónur, námu 32,3 m.evra. Langstærstur hluti þeirra fjárfesta sem seldu evrur í útboðinu kom inn um hina svokölluðu 50/50 leið, þar sem fjárfestum býðst að selja jafnháa fjárhæð í evrum talið í gjaldeyrisútboð og þeir selja á álandsmarkaði með gjaldeyri, að uppfylltum tilteknum skilyrðum um fjárfestingu fjárins. Alls voru 27,5 m.evra seldar í útboðinu vegna 50/50 leiðarinnar en 0,5 m.evra voru seldar vegna ríkisbréfaleiðar. Í seinni legg útboðsins, þar sem aflandskrónueigendum bauðst að kaupa evrur fyrir krónur sínar, námu heildartilboð 11,2 mö.kr. og var 5,1 ma.kr. tekið á ofangreindu gengi.

Munur á útboðsgengi og álandsgengi minnkar mikið

Þróun útboðsgengisins í gjaldeyrisútboðunum hefur verið býsna fróðleg það sem af er ári. Í fyrsta útboði ársins, í febrúar síðastliðnum, var útboðsgengið gagnvart aflandskrónueigendum EUR/ISK 210. Útboðsgengið hefur síðan lækkað jafnt og þétt með hverju útboði, og krónan því styrkst gagnvart evru í útboðunum. Alls nemur þessi lækkun 29 kr. á hverja evru á tímabilinu, sem jafngildir því að krónan hafi styrkst um 16% gagnvart evru í útboðunum. Á sama tíma hefur krónan styrkst um 2% gagnvart evru á almennum markaði. Munurinn á útboðsgengi og almennu gengi krónu gagnvart evru hefur því í stórum dráttum helmingast það sem af er ári, og er nú 17,5%. Árin 2011-2013 var munurinn að jafnaði 41%, og er því ljóst að þeir fjárfestar sem selja evrur fyrir krónur í útboðunum þessa dagana njóta mun minni ábata en raunin var framan af.

Sterkt gengi krónu er sérstaklega athyglisvert í ljósi þess að mun meiri munur var á heildartilboðum og teknum tilboðum hjá aflandskrónueigendum en hjá þeim fjárfestum sem selja vildu evrur í útboðinu í gær. Mætti túlka þetta sem svo að aflandskrónueigendur séu mun þolinmóðari og verðnæmari en fjárfestar sem koma vilja inn um 50/50 leiðina. Það kann að endurspegla að síðarnefndu fjárfestarnir eru oft og tíðum búnir að leggja línur með fjárfestingar sínar fyrir útboð og þola illa bið á þeim. Það er gömul saga og ný á mörkuðum að sá aðili sem er næmari fyrir verði hefur undirtökin um verðlagningu gagnvart hinum sem hefur minna verðnæmi. Einnig má lesa úr heildarfjölda tilboða (86 inn, 20 út), að kaupendur evranna eru væntanlega færri og umsvifameiri hver um sig en seljendurnir, og þeir fyrrnefndu eru þar með líklegir til að hafa meira um verðmyndun að segja.

Eru útboðin að renna sitt skeið?

Seðlabankinn hefur ekki enn tilkynnt um frekari útboð, og verður athyglisvert að heyra hvernig hann túlkar þróunina í útboðunum undanfarið. SBÍ hefur áður sagt að minnkandi munur á útboðsgenginu og almennu gengi væri til marks um minnkandi þrýsting vegna aflandskróna, og að í kjölfarið mætti fara að huga að næstu skrefum í afléttingu hafta. Hingað til hafa þeir bætt við útboðum jafnt og þétt, áður en síðasta útboð á áætlun gengi um garð. Bankinn hefur þó ekki gefið í skyn að útboðið í dag væri það síðasta. Í áætlun um afnám gjaldeyrishafta sem birt var snemma árs 2011 var gert ráð fyrir að fyrri hluti afnámsins myndi snúast um að minnka þrýsting vegna aflandskróna, og að auk gjaldeyrisútboða yrði í fyllingu tímans beitt skuldabréfaskiptum og útgönguskatti í því skyni. Margt hefur þó breyst frá því þessi áætlun leit dagsins ljós, ekki síst hvað varðar aukna áherslu á hlut slitabúa gömlu bankanna og mögulegt gjaldeyrisútflæði vegna þeirra við afléttingu hafta.

Frá upphafi hafa gjaldeyrisútboðin losað 146 ma.kr. af aflandskrónum. M.v. nýjustu tölur Seðlabankans nema aflandskrónur eftir þetta útboð u.þ.b. 304 ma.kr. Hæst varð upphæð aflandskróna tæplega 600 ma.kr. vorið 2009, og hefur upphæðin því nánast helmingast síðan þá, en til viðbótar við gjaldeyrisútboðin hafa sértæk viðskipti á borð við Avens-viðskiptin á sínum tíma losað um talsvert magn aflandskróna.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall