Fréttir Greiningar

Undirliggjandi erlend staða þjóðarbúsins lagast

03.09.2014 11:57

Undirliggjandi hrein erlend staða þjóðarbúsins um mitt ár var neikvæð sem nemur ríflega hálfri áætlaðri vergri landsframleiðslu (VLF). Undirliggjandi erlend staða þjóðarbúsins virðist því viðráðanleg þegar öll kurl varðandi uppgjör slitabúa eftir hrun eru komin til grafar, og niðurfærsla á hluta eigna slitabúa gömlu bankanna við slit þeirra myndi bæta stöðuna frekar.

Samkvæmt nýbirtum tölum Seðlabankans var óleiðrétt hrein staða þjóðarbúsins við útlönd í lok júní síðastliðins neikvæð um ríflega fjórfalda landsframleiðslu, eða sem nemur 7.483 mö.kr. Þær tölur gefa þó villandi mynd af raunverulegri stöðu, þar sem skuldir slitabúa gömlu bankanna eru þar færðar á bókfærðu verði þrátt fyrir að vitað sé að þær verða afskrifaðar að stórum hluta við uppgjör búanna. Seðlabankinn birtir því einnig töflu þar sem áhrif af væntanlegu uppgjöri slitabúanna og annarra þrotabúa eru metin. Í henni kemur fram að án slitabúa bankanna var hrein staða þjóðarbúsins við útlönd neikvæð um sem nemur 10% af VLF (182 ma.kr.). Bankinn telur að slit innlánsstofnana í slitameðferð muni hafa neikvæð áhrif á hreinu stöðuna sem nemur 44% af VLF. Önnur fyrirtæki í slitameðferð hafa svo að mati bankans jákvæð áhrif sem nemur 3% af VLF. 

Miðað við þetta mat er því undirliggjandi hrein erlend staða þjóðarbúsins neikvæð sem nemur 51% af VLF, eða sem nemur u.þ.b. 925 mö.kr. Er þetta lítillega betri staða en í lok 1. ársfjórðungs, þegar staðan á þennan kvarða var metin neikvæð um 54% af VLF. Til samanburðar má einnig nefna að í sérriti Seðlabankans frá mars í fyrra var undirliggjandi staðan við útlönd metin neikvæð sem nam 60% af VLF, og eru því nýju tölurnar talsvert álitlegri en þá var talið.

Endanleg stæða gæti orðið betri

Rétt er að hafa í huga að framangreint mat Seðlabankans byggir á að ekki verði um neina niðurfærslu að ræða á þeim innlendu eignum slitabúanna sem koma í hlut erlendra kröfuhafa. Verði um niðurfærslu á þessum eignum að ræða, hvort sem hún á sér stað við nauðasamninga búanna eða í kjölfar gjaldþrotaskipta þeirra, mun hreina erlenda staðan verða að sama skapi betri en tölur Seðlabankans gefa til kynna. Oft er miðað við að hreinar erlendar skuldir hagkerfa yfir 60% séu líklegri til að valda búsifjum en skuldir undir því marki, þótt það sé vissulega ekki einhlítt og velti m.a. á þáttum á borð við vaxtakostnað og afborgunarferil skulda. Í því ljósi virðist erlend staða íslenska þjóðarbúsins því viðráðanleg. Komi til umtalsverðra afskrifta á erlendum skuldum í tengslum við uppgjör slitabúanna, sem virðist nokkuð líkleg óháð fyrirkomulagi slitanna, mun staðan að sama skapi verða viðráðanlegri hvað varðar áhrif á greiðslujöfnuð til framtíðar.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall