Fréttir Greiningar

Undirliggjandi viðskiptaafgangur meiri

03.09.2014 11:59

Afgangur var af undirliggjandi viðskiptajöfnuði við útlönd nú á 2. ársfjórðungi, og er það í þriðja sinn eins langt aftur og tölur ná sem afgangur mælist á þessum árstíma. Afgangurinn reyndist rúmir 12,8 ma.kr. miðað við bráðabirgðatölur sem Seðlabanki Íslands birti í gær. Er það meiri afgangur en mældist á sama tíma í fyrra þegar undirliggjandi afgangur var um 10,5 ma.kr. Með undirliggjandi viðskiptajöfnuði er hér átt við viðskiptajöfnuð að undanskildum reiknuðum þáttatekjum og –gjöldum gömlu bankanna sem verður að mestu afskrifað við uppgjör þeirra. Séu gömlu bankarnir teknir með í reikninginn þá var viðskiptajöfnuður hagstæður um 2,9 ma.kr., en að okkar mati gefur það betri mynd af gjaldeyrisflæði til og frá landinu að undanskilja þá. 

Dregur úr afgangi af vöru- og þjónustujöfnuði

Afganginn á öðrum ársfjórðungi má þakka 34,2 ma.kr. afgangi af þjónustujöfnuði, en vöruskiptajöfnuður var hins vegar óhagstæður um sem nemur 18,9 mö.kr. Samanlagður afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum nam því 15,3 mö.kr. Afgangurinn á þennan kvarða er þó 7,5 mö.kr. minni en hann var á sama tíma í fyrra, og má það hvort tveggja rekja til óhagstæðari þjónustu- og vöruskiptajöfnuð nú í ár en á sama tíma í fyrra. Veigamesti þátturinn hér er útflutningur framleiðsluþjónustu sem skilaði nú útflutningi upp á 5,4 ma.kr. en 12,4 mö.kr. í fyrra. 

Frumþáttatekjur hagstæðari

Það að afgangur af undirliggjandi viðskiptajöfnuði var meiri nú á 2. ársfjórðungi en á sama tíma í fyrra má rekja til þriðja undirjafnaðarins, þ.e. frumþáttatekna (gömlu bankar undanskildir),  sem reyndist hagstæður um 1 ma.kr. samanborið við 8,5 ma.kr. halla í fyrra. Rekstrarframlög voru svipuð á milli ára, eða neikvæð um 3,4 ma.kr. samanborið við 3,8 ma.kr. í fyrra. 

Lakari útkoma á fyrri árshelmingi en í fyrra

Þrátt fyrir hagstæðari útkomu viðskiptajafnaðarins nú á 2. ársfjórðungi en í fyrra er staðan á fyrri helmingi ársins verri en hún var á þeim tíma í fyrra. Það sem af er ári nemur undirliggjandi viðskiptaafgangur 15,8 ma.kr. en hann var 43,0 ma.kr. á sama tíma í fyrra. Það má að miklu leyti rekja til 15,6 ma.kr. meiri halla á vöruskiptajöfnuði, sem aftur má rekja til samdráttar í vöruútflutningi, sem og 10,1 ma.kr. minni afgangs af þjónustujöfnuði. Þar var veigamesti þátturinn minni útflutningur framleiðsluþjónustu. 

Breytingar á stöðlum gera þjónustujöfnuði hærra undir höfði

Ofangreindar tölur um greiðslujöfnuð eru í fyrsta sinn birtar samkvæmt. nýjum stöðlum. Breytingar á aðferðafræði og framsetningu hagtalnanna eru margar, og má sjá ítarlega umfjöllun um þær í Upplýsingariti nr. 5 sem Seðlabankinn gaf út í gær. Helstu áhrif breytinganna á viðskiptajöfnuð eru í vöru- og þjónustuviðskiptum, og leiða þær til þess að vöruskiptajöfnuður mælist nú óhagstæðari en ella en þjónustuviðskipti hagstæðari. Veigamesti munurinn er í framleiðsluþjónustu á vörum í eigu annarra sem áður voru flokkuð til vöruskipta en heyra nú undir þjónustuviðskipti. Enginn innflutningur er á slíkri þjónustu, og koma áhrifin því eingöngu inn í útflutning þjónustu, en rýra að sama skapi vöruskiptatölur. Samkvæmt Upplýsingariti Seðlabankans þá hafa staðlabreytingarnar svipuð áhrif á tekju- og gjaldahlið viðskiptajafnaðarins. Breytingin hefur mest áhrif á hagtölur áranna 2007-2013, og leiðir hún til þess að staðan á viðskiptajöfnuði var betri á árunum 2007-2013 um sem nemur 0,7%-2,0% af VLF. 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall