Fréttir Greiningar

Sögulegur stöðugleiki á gjaldeyrismarkaði

04.09.2014 09:53

Gengi krónunnar hefur verið afar stöðugt frá því í maí á þessu ári eftir að hafa styrkst nokkuð síðastliðinn vetur og fram á vor. Hefur tímabilið frá því í maí verið lengsta stöðugleikatímabil krónunnar í áratug eða frá árinu 2004 þ.e. ef miðað er við viðskiptavegna gengisvísitölu krónunnar. Eftir allan þann ólgusjó sem krónan hefur gengið í gegnum á undanförnum árum er þessi stöðugleiki kærkominn. Varanleika hans þarf þó að skoða í sama sögulega ljósi, og raunar einnig með það í huga að framundan eru boðuð skref stjórnvalda í afnámi gjaldeyrishafta sem líklegast mun fylgja vaxandi gjaldeyrisflökt. Þessi stöðugleiki er því tímabundinn að okkar mati. 

Markmið Seðlabankans að draga úr gengissveiflum

Verulega dró úr flökti krónunnar eftir að peningastefnunefnd Seðlabankans ákvað að auka virkni Seðlabankans á gjaldeyrismarkaði í maí í fyrra. Markmiðið með þeim aðgerðum var að draga úr sveiflum í gengi krónunnar. Voru breytingarnar í samræmi við fyrri yfirlýsingar nefndarinnar um mikilvægi þess að nota þau stjórntæki sem hún hefur yfir að ráða til þess að stuðla að verðstöðugleika. Segja má að þetta hafi virkað ágætlega, en verðbólgan hefur verið við verðbólgumarkmið Seðlabankans síðan í febrúar á þessu ári sem er lengsta tímabil verðbólgu við verðbólgumarkmiðið síðan 2003.

Umtalsverð gjaldeyriskaup Seðlabankans

Veltan á millibankamarkaði með gjaldeyri hefur aukist samhliða þessum aukna stöðugleika krónunnar. Skýrist það af aukinni virkni Seðlabankans á þeim markaði, en bankinn hefur keypt umtalsvert af gjaldeyri bæði í reglubundnum og óreglubundnum gjaldeyriskaupum frá því í fyrra. Kaupin hafa verið sérstaklega mikil í ár.

Ágústmánuður síðastliðinn var metmánuður hvað þessi kaup bankans varðar frá því að bankinn jók virkni sína á gjaldeyrismarkaði í maí í fyrra og raunar einn allra stærsti mánuðurinn hvað þetta varðar frá því að gengi krónunnar var sett á flot í mars 2001. Bankinn keypti í mánuðinum gjaldeyri fyrir 17,3 ma.kr. Hefur hann frá áramótum keypt gjaldeyri fyrir 70,7 ma.kr. og styrkt óskuldsettan gjaldeyrisvarasjóð bankans sem því nemur. Eru kaup bankans á gjaldeyri á þessu ári orðin meiri en samanlögð kaup hans síðastliðin þrjú ár þar á undan að meðtöldum greiðslum vegna framvirkra samninga.

Í aðgerðum Seðlabankans undanfarið á gjaldeyrismarkaði hefur birst vilji bankans til að koma í veg fyrir frekari styrkingu krónunnar og í leiðinni vilji hans til að styrkja óskuldsettan gjaldeyrisvarasjóð sinn. Segja má að hann sé með þessu að undirbúa sig fyrir afnám gjaldeyrishafta þar sem hann mun hugsanlega þurfa að nýta gjaldeyrisforða sinn til að verja krónuna tímabundið fyrir lækkun.

Fram kemur í fundargerð vegna síðasta fundar peningastefnunefndar sem haldinn var í 18.-19. ágúst síðastliðinn og birt var í gær að nefndarmenn hafi verið sammála um að gjaldeyrisviðskipti bankans undanfarið ár hafðu stuðlað að auknum stöðugleika krónunnar. Í því ljósi taldi nefndin rétt að bankinn héldi áfram reglulegum kaupum í núverandi umfangi svo lengi sem aðstæður breyttust ekki umtalsvert en beitti eftir sem áður óreglulegum viðskiptum í því skyni að draga úr sveiflum í gengi krónunnar. 

Undirliggjandi viðskiptaafgangur að minnka

Undirliggjandi viðskiptajöfnuður þjóðarbúsins var hagstæður um 15,8 ma.kr. á fyrri helmingi þessa árs samanborið við 43,0 ma.kr. á sama tíma í fyrra. Er þessi þróun í takti við spár en Seðlabankinn reiknaði t.d. með því í sinni nýjustu þjóðhagsspá að afgangur þessi færi úr 6,2% af vergri landsframleiðslu (VLF) í fyrra niður í 0,8% af VLF í ár. Miðað við þessar tölur er í raun merkilegt að krónan hafi styrkst á tímabilinu. Er það í raun enn merkilegra þegar skoðað er hvað Seðlabankinn hefur keypt mikið af gjaldeyri á sama tíma. Bendir þetta til þess að talsvert minna hafi verið um afborganir af erlendum lána innlendra fyrirtækja og opinberra aðila á þessu tímabili í ár en í fyrra. Var það viðbúið. Rétt er að taka fram að myndin er betri þegar einungis er skoðaður annar ársfjórðungur ársins, en undirliggjandi viðskiptajöfnuður var þá jákvæður um 12,8 ma.kr. samanborið við 10,5 ma.kr. afgang á sama tímabili í fyrra. 

Varhugavert er að horfa á niðurstöðu í útreikningi á undirliggjandi viðskiptajöfnuði til að meta flæðið á gjaldeyrismarkaði þar sem hugsanlegt að mismunandi liðir innan viðskiptajafnaðarins skili sér með ólíkum hætti inn í flæðið á gjaldeyrismarkaði. Þannig er betra að skoða þessa einstöku liði og þróun þeirra til að greina þetta flæði.

Aukinn ferðamannastraumur styður við krónuna

Gjaldeyrisinnstreymi vegna komu erlendra ferðamanna til landsins hefur stutt við gengi krónunnar undanfarna mánuði.  Brottfarir erlendra ferðamanna frá landinu um KEF eru nú þegar komnar upp í 699,8 þús. á fyrstu átta mánuðum ársins samanborið við 566,8 þús. á sama tímabili í fyrra. Þetta nemur rúmlega 23% fjölgun á milli ára. Þjónustujöfnuður vegna ferðalaga var hagstæður um 11,1 ma.kr. á öðrum ársfjórðungi í ár samanborið við 8,2 ma.kr. á sama tíma í fyrra og 3,0 ma.kr. á öðrum ársfjórðungi 2012. M.v. tölur um fjölda ferðamanna í júlí og ágúst má ætla að þessi jöfnuður verði á þriðja fjórðungi þessa árs sá hagstæðasti frá upphafi, en innan ársins er afgangurinn er ávallt mestur á þeim fjórðungi. Styður þessi þróun við krónuna.

Samdráttur í vöruútflutningi neikvæður fyrir krónuna

Á móti hagstæðri þróun í gjaldeyristekjum vegna ferðamanna var þróun í útflutningi sjávarafurða og áli neikvæð fyrir krónuna framan af ári. Á fyrstu sjö mánuðum ársins dróst verðmæti útfluttra sjávarafurða saman um 12,6% m.v. sama tímabil í fyrra. Samdrátturinn í útflutningi iðnaðarvara var 9,2% á sama tímabili, aðallega vegna áls. Verðþróunin var óhagfelld á tímabilinu fyrir bæði sjávarafurðir og afurðir stóriðju, en einnig dróst útflutningur þessara afurða saman í magni. Þó ber að hafa í huga að verð beggja þessara afurðaflokka hefur rétt nokkuð úr kútnum að undanförnu, og sér í lagi hefur álverð hækkað myndarlega frá því í vetur.

Raungengi krónunnar í sínu hæsta gildi frá hruni

Raungengi krónunnar var á öðrum fjórðungi þessa árs í sínu hæsta gildi frá hruni. Hefur krónan ekki verið sterkari að raungildi frá því á þriðja ársfjórðungi 2008. Hefur raungengi krónunnar hækkað um 25% frá því að það fór lægst eftir hrunið. Þrátt fyrir þessa hækkun er raungengi krónunnar enn lágt sögulega séð og nokkuð undir jafnvægisraungengi krónunnar að okkar mati.

Í fundargerð Peningastefnunefndar vegna vaxtaákvörðunar hennar sem kynnt var 11. júní sl. segir að afstaða nefndarmanna sé sú að raungengi krónunnar sé um þessar mundir ekki fjarri þeim stað sem nefndin teldi ásættanlegt næstu misserin. M.v. verðbólguspá bankans, sem hljóðar upp á verðbólgu við verðbólgumarkmiðið næstu misseri, merkir þetta að nefndin er sátt við núverandi nafngengi krónunnar næstu misseri.

Eðlilegt að raungengi krónunnar hækki í efnahagsuppsveiflu

Eðlilegt er að raungengi krónunnar hækki samhliða því að hagkerfið hristir af sér slakann og spenna tekur við líkt og nú er að eiga sér stað. Seðlabankinn getur tafið þessa þróun en ekki komið í veg fyrir hana. Hann ræður hins vegar nokkru um það hvort raungengishækkunin eigi sér stað fyrir tilstilli meiri verðbólgu en í viðskiptalöndunum eða með hækkun á nafngengi krónunnar. Ljóst er að það er bæði hentugra fyrir hagkerfið og betra fyrir Seðlabankann, m.v. hans markmið, að það gerist fyrir tilstuðlan hærra nafngengis krónunnar. 

Hækkun raungengis krónunnar um þessar mundir er hins vegar óheppileg á meðan enn eru gjaldeyrishöft og ekki hefur verið gengið frá uppgjöri slitabúa gömlu bankanna, endurfjármögnun skuldabréfa Landsbankans og fleiri málum sem talin eru vera forsenda þess að gjaldeyrishöftunum sé aflétt. Í því ljósi er eðlilegt að Seðlabankinn leitist við að tefja þessa þróun. 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall