Fréttir Greiningar

Kortavelta erlendra ferðamanna eykst um fimmtung

15.09.2014 11:34

Alls nam kortavelta útlendinga hér á landi 17,6 mö. kr. í ágúst sl., sem er aukning upp á 20% í krónum talið á milli ára samkvæmt tölum sem Seðlabanki Íslands birti um greiðslumiðlun á föstudag. Þessar tölur ríma vel við tölur Ferðamálastofu Íslands um brottfarir erlendra ferðamanna um Keflavíkurflugvöll (KEF) í mánuðinum, sem sýndu aukningu upp á rúm 16% á milli ára. 

Sé tekið mið af fyrstu átta mánuðum ársins hafa erlendir ferðamenn náð að strauja kortin sín fyrir 83,2 ma. kr. Í krónum talið er þetta 24% hærri fjárhæð en þeir straujuðu kortin sín fyrir á sama tímabili í fyrra, en 51% hærri fjárhæð en á sama tímabili 2012. Þessi aukning rímar einnig mjög vel við tölur Ferðamálastofu um brottfarir erlendra ferðamanna frá landinu um KEF. Samkvæmt þeim voru erlendir ferðamenn 699,8 þúsund á fyrstu átta mánuðum ársins, sem er 23% fjölgun frá sama tímabili í fyrra en 48% fjölgun sé borið saman við sama tímabil 2012

Kortaveltujöfnuður aldrei hagstæðari

Alls nam kortavelta Íslendinga í útlöndum rúmlega 8,2 mö. kr. í ágúst sl. Var kortaveltujöfnuður, þ.e. mismunur á kortaveltu útlendinga hér á landi og Íslendinga í útlöndum, þar með jákvæður um 9,4 ma. kr. í mánuðinum. Er hér um að ræða langhagfelldustu útkomu þessa jafnaðar frá upphafi í ágústmánuði. Í ágúst í fyrra var jöfnuðurinn jákvæður um 7,4 ma. kr. og árið þar á undan jákvæður um 5,9 ma. kr. 

Metafgangur af þjónustujöfnuði í uppsiglingu?

Á fyrri helmingi ársins var afgangur af þjónustujöfnuði vegna ferðalaga upp á 11,8 ma. kr. Er það heldur betur viðsnúningur frá því sem áður var, enda er þetta í aðeins annað skipti sem þessi hluti þjónustujafnaðar mælist jákvæður á fyrri árshelmingi. Í fyrra hafði hann verið jákvæður um 7,2 ma. kr. og ári áður neikvæður um 2,2 ma. kr. 

Frá hruni hefur þjónustujöfnuður vegna ferðalaga ávallt mælst jákvæður á 3. ársfjórðungi, en þá nær hann árstíðarbundnum toppi vegna komu ferðamanna hingað til lands. Í fyrra hljóðaði afgangurinn upp á rúma 27 ma. kr. á fjórðungnum, og var þá um mesta afgang að ræða á einum fjórðungi frá upphafi. Þrátt fyrir að tölur fyrir september liggi ekki fyrir má ætla, miðað við ofangreindar tölur, að afgangurinn, verði a.m.k. 32 ma. kr. á fjórðungnum nú í ár. Ekki þarf að fjölyrða um hversu mikilvæg þessi þróun er fyrir gjaldeyrisflæði til og frá landinu, og er ljóst að ferðaþjónustan gegnir lykilhlutverki við að halda styrknum í gengi krónunnar þessa dagana.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall