Fréttir Greiningar

Óvænt lækkun neysluverðs í september

25.09.2014 10:58

Metlækkun á flugfargjöldum til útlanda ásamt óvenju vægum áhrifum útsöluloka eru helstu ástæður þess að vísitala neysluverðs (VNV) lækkaði um 0,12% í september, og það þrátt fyrir talsverða hækkun á húsnæðisverði. Óhætt er að segja að septemberlækkun VNV komi á óvart, enda höfðu spár legið á bilinu 0,2% - 0,3% hækkun, þar sem við spáðum 0,2% hækkun. 12 mánaða taktur verðbólgu lækkar við þetta úr 2,2% í ágúst í 1,8% í september, og hefur verðbólga ekki verið minni síðan í janúar 2011. Verðbólga án húsnæðis mælist nú 0,4%, og hefur ekki verið minni síðan í ágúst 2005. Verðbólga nú er því fyrst og fremst drifin áfram af umtalsverðri hækkun húsnæðisverðs.

Metlækkun á flugfargjöldum

Flugliður VNV lækkaði um ríflega fjórðung (-0,5% í VNV) þrátt fyrir 13% hækkun á flugfargjöldum innanlands. Þessu veldur metlækkun flugfargjalda til útlanda, en þau lækkuðu um tæp 29% í september. Grundvallarbreyting varð á útreikningi þessa liðar á fyrri hluta þessa árs, og því eru nýjustu tölur ekki samanburðarhæfar við þróunina á undanförnum árum. Þó er ljóst að hér er um árstíðarsveiflu að ræða að stórum hluta, þar sem háannatími ferðaþjónustu er að baki. Einnig hefur eldsneytisverð á heimsmarkaði lækkað nokkuð. Við teljum því ólíklegt að þessi lækkun gangi að fullu til baka í októbermælingu VNV, þótt við sjáum líklega talsverða hækkun í liðnum þá.

Væg útsöluáhrif 

Útsölulok höfðu mun vægari áhrif til hækkunar VNV í september en undanfarin ár. Verð á fötum og skóm hækkaði um 3,3% (0,15% áhrif í VNV), en liðurinn hafði hækkað óvenju mikið í ágúst og virðast útsölulok hafa verið fyrr á ferðinni í fataverslunum þetta árið en fyrri ár. Hins vegar lækkaði verð á húsgögnum og heimilisbúnaði um 0,4% (-0,02% í VNV) þrátt fyrir útsölulok. Eru þar væntanlega á ferð bein og óbein áhrif af tilkynningu IKEA um 5% meðallækkun á vörum sínum í lok ágúst, en verslunin hefur mikla markaðshlutdeild og er leiðandi í verðmyndun á ódýrari hluta þessa markaðar. 

Húsnæðisliður á bak við bróðurpart verðbólgu

Húsnæðisliður VNV hækkaði um 0,8% í september (0,22% í VNV). Því olli að langmestu leyti 1,4% hækkun reiknaðrar húsaleigu (0,19% í VNV), en einnig hækkaði greidd húsaleiga um 0,3%. Hækkun húsnæðisliðar skýrir 1,4% af 1,8% ársverðbólgunni nú, og má segja að Ísland væri hársbreidd frá verðhjöðnun ef ekki kæmi til hröð hækkun húsnæðisverðs undanfarið ár. Af öðrum liðum sem vógu til hækkunar VNV nú í september ber hæst árvissa hækkun á tómstunda- og íþróttaiðkun, sem og afþreyingu (0,08% í VNV). Þá hækkaði kostnaður við menntun um 0,8% (0,01% í VNV), sem einnig er árviss hækkun í september.

Góðar skammtímahorfur en blikur á lofti

Horfur um þróun VNV fyrir næstu mánuði eru í heildina svipaðar og fyrr. Þó hefur eldsneytisverð lækkað um tæpt prósent frá septembermælingu Hagstofunnar, sem hefur að óbreyttu áhrif til u.þ.b. 0,03% lækkunar VNV næst. Einnig hafa nokkrar raftækjaverslanir tilkynnt að forskot verði tekið á verðlækkun vegna afnáms almennra vörugjalda um áramót, sem gæti haft lækkunaráhrif á VNV í október. Á móti má búast við töluverðri hækkun á flugi í mælingu næsta mánaðar eftir mikla lækkun nú. Bráðabirgðaspá okkar gerir ráð fyrir að VNV hækki um 0,2% í október, 0,2% í nóvember og 0,3% í desember. Verðbólga verður skv. spánni 1,6% í árslok og hefur þá ekki verið minni síðan í júlí 2003. Hins vegar gæti verðbólgutakturinn aukist nokkuð á nýjan leik á fyrstu mánuðum næsta árs, sér í lagi ef komandi kjarasamningum verður lent með verulegri prósentuhækkun launa og verðlagsáhrif af skattabreytingum verða óhagstæðari en stjórnvöld hafa haldið fram, en talsverð hætta er á hvoru tveggja.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall