Fréttir Greiningar

Enn innstreymi í hlutabréfasjóði, hluti heimilanna minnkar

30.09.2014 10:45

Hlutabréfasjóðir áttu 73,7 ma.kr. hlutafjáreign í ágúst samkvæmt nýbirtum tölum Seðlabankans. Skráð innlend hlutabréfaeign nam 57,8 mö.kr. og er það um 10% af skráðum hlutabréfum á Aðallista Kauphallarinnar m.v. lokagengi ágústmánaðar. 

Það sem af er ári hefur sala hlutdeildaskírteina umfram innlausn í hlutabréfasjóðum numið 5,7 mö.kr. Það hefur þó heldur dregið úr viðskiptum með hlutdeildarskírteini síðustu mánuði en í ágústmánuði var einungis seldur tæplega 1 ma.kr. af nýjum hlutdeildarskírteinum á sama tíma og innleyst voru skírteini fyrir um 0,5 ma.kr.

Lífeyrissjóðir og heimili umsvifamest

Lífeyrissjóðirnir áttu í ágústmánuði um 47,2% af útgefnum hlutdeildarskírteinum í hlutabréfasjóðum. Eignarhluti þeirra hefur aukist jafnt og þétt undanfarin misseri og hefur hann ekki verið meiri síðan Seðlabankinn fór að taka saman tölur yfir hlutfallslega skiptingu eignarhalds í september 2011. 

Það hefur aftur dregið töluvert úr eignarhluta heimilanna í hlutabréfasjóðum. Frá þeim tíma er Seðlabankinn fór að taka saman tölur yfir hlutfallsskiptingu fór hlutdeild heimilanna í hlutabréfasjóðum hæst í 34% í september 2012 en þá var stærð hlutabréfasjóða ekki nema rétt um þriðjungur af því sem hún eru í dag. Þrátt fyrir að hlutfallsleg eign heimila hafi lækkað hefur heildareign þeirra í hlutabréfasjóðum aukist um 192 m.kr. frá því í desember á síðasta ári. Það liggur því fyrir að aðrir aðilar eru að bæta hlutfallslega meira við sig í þessu sparnaðarformi en heimilin í landinu. 

Sáu tækifæri í fjarskiptum og smásölu

Í töflunni hér að neðan má sjá hlutfallsleg eign hlutabréfasjóða í einstökum félögum ásamt breytingum á eignarhaldi frá ársbyrjun og heildarávöxtun ársins (gengisþróun að viðlagðri arðgreiðslu). Frá ársbyrjun hafa hlutabréfasjóðirnir aukið mest við sig í Vodafone en eignarhluti þeirra í félaginu hefur aukist um 5,7% á sama tíma og gengi bréfa í félaginu hefur hækkað um 19,6% (m.v. dagslokagengi í gær). Sjóðirnir hafa einnig keypt töluvert í Högum og hefur ávöxtun  bréfa félagsins verið 17,7%. Sjóðirnir virðast því hafa séð tækifæri í verðlagningu eða starfsemi þessara félaga. Hlutabréfasjóðirnir eru töluvert umfangsmiklir á markaði og getur eftirspurn þeirra og framboð því haft töluverð áhrif á verðþróun markaða.

Sjóðirnir hafa aftur minnkað töluvert við hluta sinn í  VÍS og TM og hefur gengi félaganna lækkað töluvert. Tryggingarfélögin hafa ekki átt góðu gengi að fagna á árinu enda kemur töluverður hluti tekna þeirra af fjárfestingum en ávöxtun á mörkuðum hefur verið fremur döpur. Við þetta bætast versnandi horfur í tryggingarstarfsemi þar sem samsett hlutföll hafa hækkað auk þess sem stórtjónið í Skeifunni mun hafa neikvæð áhrif á afkomu tryggingarreksturs félaganna á þessu ári. Sjóvá hefur þó eitthvað sótt á frá skráningu en hugsanlegt er að sjóðirnir hafi eitthvað fært sig á milli tryggingarfélaga. Sjóðirnir eiga þó enn hlutfallslega minnst í Sjóvá af tryggingarfélögunum.

Tvö ný félög komu á aðalmarkað á árinu annars vegar N1 og hins vegar Grandi. Frá skráningu Granda á aðalmarkað hafa hlutabréfasjóðirnir heldur aukið við hlut sinn en þeir hafa aftur minnkað við sig í N1. N1 er raunar eina félagið sem hlutabréfasjóðir komast ekki á lista yfir stærstu hluthafa. Minnsti hluthafa N1 þann 25. september sl. átti 1,1% í félaginu og á því engin sjóður svo stóran hlut. Á sama tíma hefur þó  heildarávöxtun félagsins verið nokkuð góð samanborið við önnur félög en inn í ávöxtuninni er arðgreiðsla sem svaraði til 1,65 kr. á hlut.  

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall