Fréttir Greiningar

Óbreyttir stýrivextir í takti við spá

01.10.2014 11:47

Ákvörðun peningastefnunefndar Seðlabankans um að halda stýrivöxtum bankans óbreyttum að þessu sinni kom ekki á óvart en ákvörðunin er í takti við okkar spá og annarra. Hafa stýrivextir bankans nú verið óbreyttir síðan í nóvember árið 2012. Í yfirlýsingu nefndarinnar, sem er óvenju stutt að þessu sinni, er tvennt að vegast á í rökunum fyrir ákvörðuninni. Annars vegar er verðbólgan undir markmiði bankans, horfur á minni verðbólgu á næstunni en bankinn hafði spáð í ágúst síðastliðnum, verðbólguvæntingar hafa þokast nær markmiði bankans og raunstýrivextir hækkað. Hins vegar hefur nefndin áhyggjur af kröftugum vexti innlendrar eftirspurnar á komandi misserum og vaxandi spennu á vinnumarkaði en hvoru tveggja gæti aukið verðbólguþrýsting á næstunni. 

Örlítið harðari tónn

Óvissan var lítil um vaxtaákvörðunina. Meiri óvissa var hins vegar um hvort einhver breyting yrði á tóninum í yfirlýsingu nefndarinnar varðandi næstu skrefum í peningamálum. Í yfirlýsingu sinni nú tekur nefndin út þá setningu sem var í yfirlýsingu hennar 20. ágúst sl. og varðaði að m.v. grunnspá bankans sé útlit fyrir að núverandi vaxtastig dugi til að halda verðbólgu í markmiðinu. Bendir nefndin hins vegar á, líkt og í síðustu yfirlýsingu, að kröftugur vöxtur innlendrar eftirspurnar á komandi misserum og vaxandi spenna á vinnumarkaði gætu leitt til aukins verðbólguþrýstings og orðið til þess að nafnvextir Seðlabankans þyrftu að hækka. Má því segja að tónninn í yfirlýsingunni nú sér örlítið harðari að þessu samanlögðu.

Lág verðbólga hjálpar komandi kjarasamningum

Aðspurður að áhyggjum peningastefnunefndar af komandi kjarasamningum sagði seðlabankastjóri, Már Guðmundsson, á kynningarfundi eftir vaxtaákvörðunina að miklar launahækkanir tengist spennu á vinnumarkaðinn og að hagkerfið sé að nálgast þann punkt, en það sé mat bankans að það sé enn til staðar einhver slaki. Komin sé hins vegar spenna í vinnumarkaðinn hér og hvar að hans sögn. Sagði seðlabankastjóri að það muni vonandi hjálpa í komandi kjarasamningum að verðbólgan er þegar orðin lág. Á móti kemur, segir Már, að samkvæmt nýjustu spá bankans eru horfur á mjög sterkum hagvexti á næstu tvö árin sem aðallega er drifinn áfram af innlendri eftirspurn, og að það geti í sjálfu sér grafið undan verðstöðugleikanum og líka haft áhrif á komandi kjarasamninga.  

Ekki ráðlegt að veikja krónuna

Már sagði á kynningarfundinum að þótt Seðlabankinn hefði eytt út styrkingarþrýstingi á krónuna með miklum gjaldeyriskaupum undanfarið hefði hann ekki talið ráðlegt að ganga þvert gegn þrýstingnum og veikja krónuna að sinni, enda vildi bankinn ekki taka markaðsöflin á gjaldeyrismarkaði algerlega úr sambandi. Einnig gæti mikið gjaldeyrisinnstreymi verið tímabundið og umfangsmikil gjaldeyriskaup orðið til þess að ýkja veikingarþrýsting ef flæðið snerist við með stuttum fyrirvara. Þá sagði Már að óvissa tengd breytingum á þjóðhagsreikningum gerði það enn flóknara en ella að lesa í undirliggjandi gengisþrýsting þessa dagana.

Óbreyttir stýrivextir fram á seinni hluta næsta árs

Ákvörðun nefndarinnar sem tilkynnt var um í morgun og tónninn í yfirlýsingu hennar breytir ekki spá okkar um óbreytta stýrivexti fram á seinni hluta næsta árs. Reiknum við með því að bankinn muni þá fara hægt af stað að nýju í vaxtahækkanir. Óvissan varðandi þróun stýrivaxta næsta kastið snýr að okkar mati að gengisþróun krónunnar næstu misseri í ljósi greiðslujafnaðarvanda þjóðarbúsins, óvissu um uppgjör búa föllnu fjármálafyrirtækjanna og fyrirhugaðra tilslakana gjaldeyrishafta. 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall