Fréttir Greiningar

Ágætur vöxtur einkaneyslu á 3. fjórðungi

14.10.2014 10:56

Útlit er fyrir að vöxtur einkaneyslu á þriðja fjórðungi ársins hafi verið í takti við væntingar okkar. Einkaneysluvöxturinn er mun hraðari utan landsteinanna en innanlands þessa dagana, bæði vegna aukinna utanlandsferða Íslendinga og meiri kaupa af erlendum netverslunum. Aukning einkaneyslunnar er því innflutt að verulegu leyti nú um stundir.

Mikil aukning veltu utan landsteina

Samkvæmt nýbirtum tölum Seðlabankans nam raunvöxtur kortaveltu einstaklinga 3,9% í sl. septembermánuði frá sama mánuði í fyrra. Fremur hægur vöxtur var í kortaveltu innanlands, eða sem nemur um 1,9%. Hraður vöxtur var hins vegar í kortaveltu erlendis í mánuðinum líkt og verið hefur undanfarið, eða 21%. Í því sambandi má geta þess að brottförum Íslendinga um Flugstöð Leifs Eiríkssonar fjölgaði um tæp 12% á milli ára í septembermánuði. Auk heldur eru vísbendingar um að viðskipti Íslendinga við erlendar netverslanir hafi aukist hröðum skrefum, og á það eflaust sinn þátt í aukningu erlendu veltunnar. 

Vöxtur í samræmi við spá

Ef litið er á þriðja fjórðung ársins í heild nam raunvöxtur kortaveltu 3,7% á milli ára. Þar af var 1,8% vöxtur innanlands en 19,3% erlendis. Er þetta nokkru hægari vöxtur en var á fyrri helmingi ársins, en þá nam hann 5,3%. Munurinn liggur eingöngu í hægari vexti veltu innanlands, en vöxtur í veltu erlendis hefur verið meira og minna sá sami þá þrjá fjórðunga sem liðnir eru af árinu. Í nýbirtri þjóðhagsspá okkar spáum við 4,5% vexti einkaneyslu í ár. Kortatölurnar það sem af er ári virðast í ágætu samræmi við þá spá, þótt það komi eilítið á óvart að það dragi úr vexti veltunnar á þriðja ársfjórðungi. Það sem af er ári nemur raunvöxtur kortaveltu þó 4,7%, og við það bætist að hraður vöxtur er í kaupum heimila á einkabifreiðum, en það eru líklega stærstu neysluútgjöld heimila sem ekki eru greidd með greiðslukortum alla jafna.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall