Fréttir Greiningar

Hægir á fjölgun vinnustunda

22.10.2014 12:13

Nýbirtar niðurstöður úr vinnumarkaðskönnun Hagstofunnar sýna að bati á vinnumarkaði heldur áfram. Þó hefur hægt á fjölgun vinnustunda, og gæti það verið vísbending um að vinnuaflseftirspurn aukist nú hægar en raunin hefur verið undanfarið. 

Samkvæmt rannsókn Hagstofunnar voru ríflega 190.400 manns á íslenskum vinnumarkaði að jafnaði á 3. fjórðungi yfirstandandi árs. Jafngildir það 1,0% fjölgun vinnuafls frá sama tíma í fyrra. Af þessum fjölda voru að jafnaði rúmlega 7.600 manns atvinnulausir, eða sem nemur 4,0% af vinnuafli, á nýliðnum ársfjórðungi. Á sama tíma í fyrra var hlutfall atvinnulausra 4,4% og á 3. fjórðungi ársins 2012 var hlutfallið 5,0%. Ljóst er því af tölum Hagstofunnar að atvinnuleysi hefur minnkað jafnt og þétt, og ber þeim saman við tölur Vinnumálastofnunar um skráð atvinnuleysi hvað það varðar. 

Fleiri störf, styttri vinnutími

Fróðlegt er að rýna í mælingar Hagstofu á þróun vinnustunda, enda gefa þær ágæta vísbendingu um framboðshlið hagkerfisins. Alls voru tæplega 182.800 manns starfandi á 3. ársfjórðungi að jafnaði, og jafngildir það fjölgun um 1,4% frá sama tíma í fyrra. Venjulegar vinnustundir í viku hverri voru að meðaltali 40,6 klst., sem felur í sér fækkun vinnustunda um 0,3 klst. á viku frá 3. ársfjórðungi í fyrra. Heildarvinnustundum fjölgaði því um 0,6% á milli ára samkvæmt rannsókn Hagstofunnar. Er það minnsta aukning vinnustunda á þennan mælikvarða í tvö ár.

Vísbending um framboðshlið hagkerfisins

Allsterk fylgni er milli þróunar vinnustunda og hagvaxtar, enda endurspeglar fjöldi vinnustunda eftirspurn eftir vinnuafli, og þar með framboðshlið hagkerfisins. Þróun vinnustundanna undanfarið gæti því verið vísbending um hægari vöxt að öðru óbreyttu. Við teljum þó að aftur muni bæta í fjölgun vinnustunda þegar frá líður. Mannaflsfrekar iðnaðar- og orkuframkvæmdir eru í pípunum, og áfram má gera ráð fyrir vexti í mannaflsfrekum greinum á borð við ferðaþjónustu. 

Nýleg könnun Capacent meðal stjórnenda 400 stærstu fyrirtækja landsins, sem Samtök atvinnulífsins og Seðlabankinn létu gera í september sl., rímar við þessa skoðun okkar. Þar kom fram að fjölgun starfsmanna var helst áformuð í byggingarstarfsemi, flutningum og ferðaþjónustu, og fjármálastarfsemi. Í heild var þó ekki gert ráð fyrir fjölgun starfsfólks næstu sex mánuði samkvæmt könnuninni, en það gæti hins vegar breyst með hækkandi sól á næsta ári þegar meiri gangur færist í iðnaðaruppbygginguna og ferðamannastraumur hingað til lands nær væntanlega nýjum hæðum.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall