Fréttir Greiningar

Lítil fylgni milli innlends og erlendra hlutabréfamarkaða

23.10.2014 10:49

Innlendar hlutabréfavísitölur og hlutabréfavísitölur fyrir aðra hlutabréfamarkaði í Evrópu hafa mest lítið fylgst að það sem af er ári. Menn kunna að kenna höftum um. Sú forsenda heldur þó illa því ef betur er að gáð er ljóst að mörg hinna skráðu innlendu félaganna eru með talsverða alþjóðlega starfsemi og væri því ekki óeðlilegt að þau fylgdu a.m.k. að einhverju leyti þróun markaða erlendis. Að sama skapi er áhugavert að líta til þess að þvert á væntingar virðast höftin síst þrýsta upp verði á innlendum hlutabréfamarkaði.  

Evrópa í vanda

Hlutabréfamarkaðir í Evrópu hafa lækkað verulega á allra síðustu vikum. Þýskaland, stærsta hagkerfi Evrópu, sem hefur oft verið talið síðasta vígið til vaxtar á evrusvæðinu, sýndi merki um samdrátt á öðrum ársfjórðungi en landsframleiðsla dróst saman um 0,2% á tímabilinu. Á sama tíma sýna  hagtölur í Frakklandi, næst stærsta hagkerfi Evrópu, stöðnun á sama fjórðungi. Við þetta bætast áhyggjur af vettvangi alþjóðastjórnmála, s.s. vegna samskipta Evrópusambandsins við Rússland, og áhyggjur af frekari dreifingu ebólu vírusins. 

DAX niður um 7,6% frá ársbyrjun

Sé litið til þróunar hlutabréfavísitalna í Þýskalandi (DAX), Frakklandi (CAC), London (FTSE 100) og Svíþjóð (OMXS30) má sjá að meginlands vísitölurnar og sú breska hafa fylgst ágætlega að á árinu. Þær hækkuðu nokkuð framan af ári en á síðustu vikum hafa þær gefið verulega eftir. DAX vísitalan hafði m.v. lokagengi markaða í gær t.a.m. lækkað um 6,4% frá upphafi árs en hefur raunar lækkað um 10,9% frá sínu hæsta gildi á árinu. Svipaða sögu var að segja af CAC sem hafði lækkað um 4,4% á árinu en um 10,7% frá sínu hæsta gildi og FTSE sem hefur lækkað um 5,2% en 7% frá sínu hæsta gildi. Sænska vísitalan hefur hins vegar hækkað um 0,1% en hefur þó lækkað um 5,4% frá því að hún náði sínu hæsta gildi.

Önnur þróun hér heima

Íslenska hlutabréfavísitalan OMXI8 hafði m.v. lokagengi markaða í gær lækkað um 7,9% frá ársbyrjun. Samanburður á þróun hennar og annarra evrópskra hlutabréfavísitalna er sýndur í línuritinu hér að ofan. Eins og sést þar er lítil fylgni á milli þróunar innlendu vísitölunnar og þeirra erlendu þrátt fyrir að erlendu lækkunarvaldarnir ættu ekki að vera með öllu áhrifalausir á íslensk félög. Íslensku félögin eru nefnilega ekki að öllu leyti íslensk og hafa flest stóra snertifleti við erlenda markaði í starfsemi sinni. Þróunin í dag undirstrikar þetta enn frekar þar sem innlendur markaður hefur hækkað verulega á sama tíma og aðrir evrópskir markaðir hafa verið að lækka.

Marel, Grandi og Össur nær algjörlega háð erlendum mörkuðum

Sjóvá, Reginn og Vodafone lúta líklega minnstum erlendum áhrifum. Sjóvá á lítið af erlendum eignum en er þó endurtryggt af erlendum aðilum, Vodafone er einna helst háð erlendum mörkuðum um ýmsar fjárfestingar í tækni. Hin tryggingarfélögin tvö, VÍS og TM, eiga bæði nokkuð ef erlendum eignum. N1 og Hagar eru háð erlendum mörkuðum um innkaup. Eimskip og Icelandair eru háð erlendum viðskiptavinum að töluverðu leyti en Marel, HB Grandi og Össur eru nær algjörlega háð erlendum mörkuðum um sölu á sinni vöru. Þá hefur olíuverðsþróun á alþjóðlegum mörkuðum töluverð áhrif á kostnaðarverðsþróun hjá Icelandair, Granda og Eimskip. 

Eðlilega hafa efnahagsaðstæður í Evrópu þó einhver áhrif á einstök félög þrátt fyrir að OMXI8 hreyfist ekki í samfloti með evrópskum hlutabréfavísitölum. Það má til dæmis alveg draga þá ályktun að hluta af lækkun Marel undanfarið megi rekja til þess að horfur með sölu í Evrópu hafa farið versnandi. Við sjáum þó á línuritinu hér til hliðar að HB Grandi og Össur virðast ekki hafa orðið fyrir verulegum áhrifum af erfiðleikunum í Evrópu en álfan er eðlilega ekki eina markaðssvæði þessara félaga fremur en hinna sem hér eru til talin. 

Hefur verið léleg stemmning á íslenskum hlutabréfamarkaði?

Erfitt er að rekja lækkanir markaða hér heima til þess sem gerist fyrir utan vegg fjármagnshafta. Þó að  slík rök megi að vissu leyti finna í nýlegum hagtölum þá er það ekki ástæða lækkunarinnar nema þá að litlu leyti. Á íslenska hlutabréfamarkaðinum virðist algengt viðkvæði vera að ástæða þróunar markaðarins á árinu sé að fjármuni skorti inn á skráða markaðinn. Það er þó viss einföldun því ekki þarf verulega veltu til þess að hækka gengi félaga, eru allmörg dæmi um slíkt á síðustu mánuðum og ekki er dagurinn í dag undantekning að þessu leyti. 

Það er hins vegar rétt að sértaklega framan af þessu ári hafa fjárfestar haft ýmis tækifæri til fjárfesta utan hins skráða markaðar bæði í samlagshlutafélögum og ýmsum fjárfestingasjóðum. Fjármunir sem ellegar hefðu hugsanlega leitað inn á innlendan hlutabréfamarkað á tímabilinu hafa því farið annað.  Það er okkar mat að sú lækkun sem orðið hefur á íslenska hlutabréfamarkaðinum sé ekki hægt að skýra með framkomnum upplýsingum á þessu ári um virði þessara félaga. Hafi félögin því ekki verið verulega rangt verðlögð í lok síðasta árs hlýtur lækkunin það sem af er liðið árinu að skrifast að ákveðnu leyti á lélega stemmningu á hlutabréfamarkaði. Uppgjör Marel sem birt var eftir lokun markaða í gær virðist þó vera að hleypa nýju lífi í markaðinn. Þegar þetta er skrifið nemur velta um 1,7 mö.kr. og Úrvalsvísitalan hækkað um 4,1%

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall