Fréttir Greiningar
Lítilsháttar aukning verðbólgu í október
29.10.2014 11:12

VNV hækkaði um 0,1% í október samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar. Raunar hefði mæling Hagstofu skilað óbreyttri VNV í október líkt og við spáðum, ef ekki hefði komið til leiðrétting á mistökum sem Hagstofan gerði í september sl. við útreikning á verðbreytingu flugfargjalda. Opinberar spár lágu á bilinu frá óbreyttri VNV til 0,1% hækkunar.
Eldsneyti og raftæki lækka í verði
Líkt og vænta mátti lækkaði eldsneytisliður VNV myndarlega í mælingunni nú. Lækkunin milli mánaða nam 3,5% (-0,15% áhrif í VNV). Við teljum raunar líklegt að frekari lækkun eldsneytis muni koma fram á næstunni, enda virðist eldsneytisverð erlendis hafa náð jafnvægi eftir u.þ.b. 10% lækkun á fyrri helmingi októbermánaðar. Þá hafði fyrirhuguð lækkun vörugjalda um næstu áramót lækkunaráhrif nú (-0,04% í VNV), enda sjá raftækjaverslanir væntanlega sína sæng útbreidda hvað það varðar að fáir myndu kaupa slík tæki fram til áramóta ef ekki kæmi forskot á lækkunina. Lækkaði verð á stærri heimilistækjum um 1,4% og verð á sjónvörpum, hljómtækum o.þ.h. lækkaði um 4,1%. Líklegt er að fyrrnefndi liðurinn muni lækka frekar á næstunni, enda hefur þeim verslunum fjölgað jafnt og þétt sem hafa auglýst slíkt forskot á vörugjaldalækkunina.
Íbúðaverð ráðandi í verðbólgu

Flugfargjöld hækka vegna leiðréttingar
Flugfargjöld hækkuðu um 9,5% (0,14% í VNV) í birtingu VNV nú í október. Hins vegar endurspeglar það ekki mælingu Hagstofunnar á flugfargjöldum að þessu sinni, þar sem Hagstofan setti inn leiðréttingu á mistökum sem gerð höfðu verið í septembermælingu á flugfargjöldunum. Að þessari leiðréttingu slepptri hefðu flugfargjöld lækkað um u.þ.b. 2% í október, og VNV verið óbreytt frá septembermánuði.
Jákvæðar skammtímahorfur en blikur á lofti

Hins vegar gæti bætt allhratt í verðbólgutaktinn á næsta ári ef kjarasamningum sem nú eru framundan verður lent með verulegri prósentuhækkun nafnlauna. Vaxandi launakostnaður virðist því vera einn helsti áhættuþátturinn hvað varðar aukna verðbólgu á komandi misserum, þótt raunar séu líkur á að verðbólga verði áfram í hóflegri kantinum miðað við það sem raunin hefur verið sögulega séð hér á landi. Þó verður auðvitað að setja þann fyrirvara að aldrei er á vísan að róa með þróun krónunnar, og virðist áhættan þar sömuleiðis vera til veikingar og í kjölfarið meiri innfluttrar verðbólgu.
Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?