Fréttir Greiningar

Mikil viðbrögð á markaði

05.11.2014 11:35

Ljóst er að stýrivaxtalækkunin nú kom flestum á markaði í opna skjöldu, enda hljóðuðu allar opinberar spár upp á óbreytta stýrivexti. Mikill atgangur hefur verið á skuldabréfamarkaði það sem af er degi og hefur krafa á óverðtryggðum jafnt sem verðtryggðum bréfum lækkað verulega í umtalsverðri veltu. Kröfulækkunin og veltan er þó til muna meiri í óverðtryggðu bréfunum sem vonlegt er, og verðbólguálag á markaði hefur því lækkað um 0,1 – 0,2% eftir því hvaða mælikvarði er notaður. 

Þegar þetta er ritað (kl.11:00) nemur kröfulækkun ríkisbréfa 24-45 punktum, en lækkun kröfu verðtryggðra bréfa með ríkisábyrgð nemur 15-24 punktum. Þegar um langa skuldabréfaflokka er að ræða jafngildir svo mikil kröfulækkun verulegri verðhækkun, og nemur hækkunin ríflega 2% í tilfelli lengstu ríkisbréfaflokkanna. Velta ríkisbréfa nemur 11,3 mö.kr. frá opnun, og velta verðtryggðra íbúða- og ríkisbréfa nemur 1,8 ma.kr.

Þá hafa áhrif ákvörðunarinnar einnig birst á hlutabréfamarkaði, þar sem gengi skráðra félaga hefur almennt hækkað í 1,2 ma.kr. veltu. Úrvalsvísitala Kauphallarinnar hefur hækkað um 1,3% frá opnun í morgun. Er hækkunin hvað mest í tryggingafélögunum, en kröfulækkun á skuldabréfamarkaði hefur jákvæð áhrif á fjármunatekjur þeirra.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall