Fréttir Greiningar

Vöruskipti í október þau hagstæðustu í tvö ár

06.11.2014 11:40

Afgangur af vöruskiptum við útlönd í október sl. hljóðaði upp á 12,3 ma. kr. samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofu Íslands sem birtar voru í gær. Er hér um mesta afgang af vöruskiptum að ræða í einum mánuði allt frá því í október 2012. 

Þriðji stærsti útflutningsmánuður frá upphafi

Alls voru fluttar út vörur fyrir 61,0 ma. kr. í október, og er hér um þriðja mesta vöruútflutning að ræða í einum mánuði frá upphafi. Það má rekja til útfluttra iðnaðarvara, sem námu alls 33,4 mö. kr. í mánuðinum og hefur útflutningsvermæti þeirra aðeins einu sinni áður verið meira sem var í maí 2011. Má telja líklegt að þarna hafi álútflutningur vegið allþungt, en álverð hefur hækkað töluvert frá miðju ári. Frekari sundurliðun á útflutningi iðnaðarvara liggur hins vegar ekki fyrir fyrr en uppfærðar tölur Hagstofunnar eru birtar. Einnig var töluvert flutt út af sjávarafurðum í mánuðinum, en alls nam útflutningsverðmæti þeirra 25,1 ma. kr. og hefur ekki verið meira síðan í nóvember í fyrra. Í október voru fluttar alls inn vörur fyrir 48,7 ma. kr., sem er með rýrara móti m.v. það sem verið hefur að jafnaði síðasta árið.

16 ma. kr. viðsnúningur á vöruskiptum í september

Í síðustu viku birti Hagstofan uppfærðar tölur um vöruskipti í september sl., sem sýndu verulega breytta mynd frá því sem fyrri bráðabirgðatölurnar höfðu sýnt. Bráðabirgðatölurnar höfðu gefið til kynna afgang af vöruskiptum í september upp á 5,5 ma. kr. en uppfærðar tölur sýndu halla upp á 10,5 ma. kr. Var því 16 ma. kr. viðsnúningur þarna á milli. 

Þessi mismunur lá í því að innflutningur reyndist mun meiri en bráðabirgðatölurnar sýndu, eða sem nemur 65,0 mö. kr. í stað 49,1 ma. kr. Það mátti svo aftur rekja til þess að innflutningur á  eldsneyti og smurolíu var mun meiri (16,7 ma. kr . í stað 7,2 ma. kr.) og innflutningur skipa upp á 6,6 ma. kr. í mánuðinum bættist við í nýju tölunum. Er hér væntanlega um eitt skip að ræða, þ.e. Polarsyssel, skip Fáfnis Offshore, sem samkvæmt fjölmiðlum er dýrasta skip í sögu landsins og kostaði einmitt á sjöunda milljarð króna. Varðandi eldsneytið þá var um að ræða eldsneyti sem keypt er á flutningatæki erlendis á 3. ársfjórðungi, en Hagstofan fær upplýsingar um slík kaup ársfjórðungslega og skráir þau á síðasta mánuð í hverjum fjórðungi. Þessi 16 ma.kr. mismunur endurspeglaði því ekki að sama skapi óhagstæðara gjaldeyrisflæði, og var því þessi viðsnúningur á tölunum ekki eins neikvæður og í fyrstu mætti ætla.

Óhagstæðari vöruskipti í ár

Það sem af er ári nemur vöruútflutningur 487,6 mö. kr. en vöruinnflutningur 491,8 mö. kr. Eru vöruskiptin þar með óhagstæð um 4,2 ma. kr. á fyrstu tíu mánuðum ársins, samanborið við 31,7 ma. kr. vöruskiptaafgang í fyrra. Helstu ástæður fyrir þessari óhagstæðu þróun er 18,2 ma. kr. aukinn innflutningur á flutningatækjum, aðallega skipum og fólksbílum, og 24,1 ma. kr. samdráttur í útflutningi sjávarafurða á milli ára. Vissulega er þróunin á útflutningi áhyggjuefni, en hún helgast að stórum hluta af óhagstæðri verðþróun á útflutningsvörum á fyrri hluta árs og aflabresti í loðnu. Á hinn bóginn er þessi aukning á innflutningi að stórum hluta jákvæð þar sem hún er að verulega leyti vegna aðfangakaupa og fjárfestingar til að afla þjónustutekna, bæði í ferðaþjónustu og vöruflutningum. Þá verður að taka tillit til þess að innflutningur er í auknum mæli aðfangakaup og fjárfesting vegna þjónustustarfsemi sem alfarið fer fram utan landsteinanna, en einu áhrifin á gjaldeyrisflæði til og frá landinu vegna slíkra umsvifa eru oft innflæði vegna þess hagnaðar sem á endanum skapast vegna starfseminnar.

Við teljum hugsanlegt að um lítilsháttar afgang verði að ræða á vöruskiptum á árinu 2014 í heild, en ljóst er að afgangur af utanríkisviðskiptum í ár mun nær alfarið koma frá þjónustuviðskiptum. Við teljum í raun mun betra að horfa á þessar stærðir í samhengi fremur en að einblína á aðra hvora, eins og ofangreind umfjöllun gefur til kynna. Verður því spennandi að rýna í tölur 3. ársfjórðungs um vöru- og þjónustuviðskipti sem birtar verða í byrjun næsta mánaðar. 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall