Fréttir Greiningar

Áfram mikil aukning í kortaveltu erlendra ferðamanna

17.11.2014 12:25

Alls nam kortavelta útlendinga hér á landi 7,1 mö. kr. í október sl., sem er aukning upp á 23,9% í krónum talið á milli ára samkvæmt tölum sem Seðlabanki Íslands birti um greiðslumiðlun í síðustu viku. Rímar það vel við tölur Ferðamálastofu um brottfarir útlendinga um Keflavíkurflugvöll (KEF) í mánuðinum, en þeim fjölgaði 25,7% á milli ára.

... en kortaveltujöfnuður óhagstæður

Alls nam kortavelta Íslendinga í útlöndum 8,8 mö. kr. og var kortaveltujöfnuður (kortavelta útlendinga að frádreginni kortaveltu Íslendinga í útlöndum) þar með óhagstæður um tæpa 1,7 ma. kr. í október. Þrátt fyrir að jöfnuðurinn hafi verið óhagstæður þá hefur hallinn á kortaveltujöfnuði ekki verið minni í október frá því á árinu 2009 þegar utanlandsferðir Íslendinga voru í lágmarki. Í október í fyrra var jöfnuðurinn óhagstæður um 2,1 ma. kr. og í október árið þar á undan óhagstæður um 2,6 ma. kr.

Íslenskir ferðamenn eyðsluglaðari

Þrátt fyrir kortaveltuhalla voru erlendir ferðamenn mun fleiri hér á landi en Íslendingar í útlöndum í mánuðinum, eða um 66,5 þús. á móti 40,8 þús. sé tekið mið af brottförum um KEF. Það er þó ekkert nýtt af nálinni að kortaveltujöfnuðurinn sé óhagstæður þrátt fyrir að ferðamannajöfnuðurinn (brottfarir erlendra ferðamanna umfram brottfarir Íslendinga) sé hagstæður, enda hafa Íslendingar verið talsvert eyðsluglaðari erlendis í gegnum árin en útlendingar hafa verið hér á landi. Jafnframt virðist munurinn þarna á milli vera hvað mestur á síðasta fjórðungi ársins, sem kemur eflaust til að utanlandsferðir Íslendinga á þessum árstíma eru gjarnan verslunarferðir þar sem kortin eru straujuð af kappi, en afar ólíklegt er að útlendingar komi hingað til lands í sama tilgangi.

... en munurinn hefur minnkað

Raunar ber að hafa í huga er rýnt er í tölur Seðlabankans um kortaveltu Íslendinga erlendis að ekki er greint á milli kortaveltu í tengslum við ferðalög og veltu í erlendum netverslunum. Þó virðist nokkuð ljóst að þótt netverslun væri frádregin væri munurinn á útgjöldum Íslendinga á erlendri grundu og erlendra ferðamanna hér á landi enn þó nokkur. Þó hefur munurinn þarna á milli minnkað töluvert og verður það að teljast afar jákvæð þróun, enda þýðir það að eyðsla erlendra ferðamanna hér á landi hafi aukist hraðar en íslenskra ferðalanga í útlöndum á undanförnum árum.

Aldrei meiri afgangur af kortaveltujöfnuði

Það sem af er ári nemur kortavelta erlendra ferðamanna hér á landi 100,4 mö. kr. en Íslendinga í útlöndum 73,3 mö. kr. Er kortaveltujöfnuður þar með jákvæður um sem nemur 27,1 ma. kr. á fyrstu 10 mánuðum ársins, sem er gríðarleg aukning frá því sem áður hefur verið. Í fyrra var kortaveltujöfnuður hagstæður um 16,8 ma. kr. á sama tímabili, sem þótti gott, og árið þar á undan var hann hagstæður um 5,7 ma. kr.  Fyrir hrun var kortaveltujöfnuður hins vegar ávallt í halla á þessu tímabili, og má hér nefna að árið 2008 var hallinn kominn upp í 27,4 ma. kr. og árið 2007 upp í 25,8 ma. kr. þegar 10 mánuðir voru liðnir af árinu. Þessi breyting á kortaveltunni endurspeglar þá þróun að þjónustuviðskipti eru nú orðin einn helsti burðarás gjaldeyrisöflunar fyrir þjóðarbúið, og munu væntanlega standa að baki bróðurparts af viðskiptaafgangi við útlönd þetta árið.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall