Fréttir Greiningar

Einn nefndarmaður á móti og annar sem hefði viljað bíða

20.11.2014 09:36

Einn nefndarmaður peningastefnunefndar af fimm greiddi atkvæði gegn tillögu seðlabankastjóra um lækkunstýrivaxta á síðasta fundi peningastefnunefndar vegna vaxtaákvörðunarinnar sem tilkynnt var um 5. nóvember sl. Kaus hann frekar að halda stýrivöxtum óbreyttum. Einn af þeim fjórum nefndarmönnum sem greiddu atkvæði með tillögu seðlabankastjóra um lækkun stýrivaxta hefði heldur kosið að halda vöxtum óbreyttum að þessu sinni. Hefði hann kosið að bíða með vaxtalækkunina fram í desember. Kemur þetta fram í fundargerð peningastefnunefndar Seðlabankans  sem birt var eftir lokun innlends fjármálamarkaðar í gær.  

Ekki mikið svigrúm til launahækkana

Sá aðili sem greiddi atkvæði gegn tillögu bankastjóra og kaus frekar að halda vöxtum óbreyttum sagði m.a. að í vaxtaákvörðuninni yrði að líta til þess að litið til lengri tíma væri búist við því að verðbólgan þokaðist upp aftur vegna verðbólguþrýstings frá vinnumarkaði og minnkandi slaka í þjóðarbúskapnum. Hann sagði einnig að óvissan um verðbólguhorfur væru heldur meiri upp á við. 

Sá sem hefði kosið að fresta vaxtalækkuninni fram í desember hafði einnig áhyggjur af vinnumarkaðinum og þeim óróleika sem nú einkennir hann. Hann nefndi auk þess að bíða ætti eftir áhrifum skuldalækkunar á eftirspurn þegar niðurstöður lægju fyrir. Nú liggur fyrir að með því að færa aðgerðirnar framar í tíma munu áhrifin af þeim á eftirspurn og verðbólgu veriða eitthvað meiri en áður var reiknað með, og kann það að hafa áhrif á vaxtaákvörðunina í desember.  

Í fundargerðinni kemur fram að peningastefnunefndin taldi að svigrúm til launahækkana í komandi kjarasamningum sé ekki mikið í ljósi þess hversu hægur framleiðnivöxtur er. Taldi nefndin að þetta væru rök fyrir óbreyttum vöxtum, þ.e. að bíða ætti eftir að gerð kjarasamninga helstu stéttarfélaga væri lokið, sérstaklega þegar tafir í miðlun peningastefnunnar væru hafðar í huga.

Bæði rök fyrir að halda vöxtum óbreyttum og lækka þá

Fram kemur í fundargerðinni að mat nefndarmanna hafi verið að bæði væru rök fyrir því að lækka vexti og halda þeim óbreyttum. Eins og á síðasta fundi nefndarinnar, sem var í lok september sl., voru helstu rök fyrir lækkun vaxta þau að aðhald peningastefnunnar hefði aukist meira en áður var búist við. Nafnvextir Seðlabankans hefðu verið óbreyttir í tvö ár en raunvextir bankans hækkað meira að undanförnu en gert var ráð fyrir sökum hraðari hjöðnunar verðbólgu og verðbólguvæntinga, og umfram það sem staða hagsveiflunnar og nærhorfur gæfu tilefni til.

Rennir stoðum undir spá um óbreytta stýrivexti í desember

Ofangreint rennir stoðum undir þá skoðun að peningastefnunefndin muni halda stýrivöxtum bankans óbreyttum á næsta vaxtaákvörðunarfundi sem haldinn verður 10. desember næstkomandi.  Stutt er á milli funda og ekki mikið af hagtölum að berast á milli þeirra sem breytt getur sýn nefndarinnar. Þó munu þá liggja fyrir þjóðhagsreikningar fyrir þriðja fjórðung ársins, ný verðbólgumæling og nýjar tölur af vinnumarkaði sem nefndin mun horfa til. 

Framkvæmd peningastefnunnar þarf að vera gagnsæ og fyrirsjáanleg

Áhugavert er að sá aðili sem þarna kaus frekar að það yrði beðið með vaxtalækkun virðist hafa verið á því að nefndin hefði átt að gefa sterklega til kynna að vaxtalækkun væri á leiðinni og að markaðurinn væri þannig betur undir hana búinn þegar að henni kæmi. Er þetta í takti við aukna kröfu um gagnsæi peningastefnunnar sem hefur verið að koma fram á undanförnum árum. Eru sterk hagfræðileg rök fyrir slíkri kröfu, þ.e. að aukið gagnsæi er líklegt til að gera peningastefnuna árangursríkari. Þetta á sérstaklega við óvenjulegar eða krefjandi aðstæður, t.d. þegar bankinn er að glíma við skort á trúverðugleika líkt og hefur verið hér undanfarið og sýnilegt hefur verið í verðbólguvæntingum yfir verðbólgumarkmiðinu. Seðlabankar víða um heim hafa unnið að því hörðum höndum að gera framkvæmd peningastefnunnar kerfisbundna, trúverðuga og gangsæja til þess að hún verði fyrirsjáanleg og því áhrifameiri. Það er til marks um skort á gagnsæi þegar nefndin kemur markaðinum alveg á óvart með vaxtalækkun líkt og var með síðustu ákvörðun nefndarinnar. Má því segja að fyrrgreindur nefndarmaður hafi haft nokkuð til síns máls.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall