Fréttir Greiningar

Kaupmáttaraukning í boði lækkunar á vöruverði

24.11.2014 11:52

Kaupmáttur launa hefur undanfarið aukist talsvert hér á landi, bæði vegna allhraðrar hækkunar launa og lítillar verðbólgu. Innlendur verðbólguþrýstingur er þó minni en ætla mætti af þróun launavísitölu. Er það m.a. vegna þess að hækkun launavísitölunnar síðustu mánuði er að verulegu leyti vegna  hækkunar launa opinberra starfsmanna annars vegar, og óreglulegra liða hins vegar, og hefur því óbeinni áhrif á verðlag heldur en raunin væri ef launaskrið væri helsti drifkrafturinn. Innflutt verðhjöðnun vegur einnig gegn hækkandi launakostnaði í verðlagsþróun vöru og þjónustu.

Umtalsverð hækkun launavísitölu

Launavísitalan hækkaði um 0,6% í október frá fyrri mánuði samkvæmt nýlega birtum tölum Hagstofu Íslands. Hækkaði 12 mánaða taktur launavísitölunnar  í 6,6% úr 6,2% í september. Hækkunin var að stórum hluta vegna árstíðabundinna þátta s.s. álagsgreiðslna og kvöld/helgarvinnu námsmanna, og einnig voru áhrif af samningum kennara fyrr á árinu. Lítil merki voru hins vegar um launaskrið á almennum markaði.

Í október hækkaði vísitala neysluverðs (VNV) um 0,13% frá fyrri mánuði. Kaupmáttur launa jókst því um 0,5% milli mánaða. Undanfarna 12 mánuði hefur kaupmáttur launa vaxið um 4,6%. Hækkunartakturinn hefur ekki verið hraðari síðan í maí 2012, þegar áhrif tveggja kjarasamningsbundinna hækkana voru inni í 12M taktinum.

Áhrif af kjarasamningum við kennara voru einnig allsterk í 0,6% hækkun launavísitölunnar í ágúst sl. Þá sýnir ársfjórðungsleg sundurliðun Hagstofu á launavísitölu að laun opinberra starfsmanna hækkuðu mun hraðar á 2. ársfjórðungi (2,6%) en laun almennra starfsmanna (1,7%) frá fjórðungnum á undan. M.ö.o.  hefur hækkun launavísitölunnar undanfarið verið að stórum hluta vegna hækkunar launa opinberra starfsmanna og óreglulegra launaliða frá því áhrifin af ASÍ/SA samningunum fjöruðu út í vor. 

Þjónusta og húsnæðisliður knýja verðbólgu

Verðbólga er þessa dagana drifin af verðhækkun á húsnæði og þjónustu. Styrking krónu og hagstæð verðþróun á eldsneyti og hrá- og neysluvörum erlendis heldur hins vegar aftur af verðbólgunni. Í október sl. var verðbólga 1,9%. Framlag innfluttra vara í 12 mánaða takti verðbólgunnar var -0,6%, og framlag innlendra vara var 0,0%. Framlag húsnæðis í 12 mánaða taktinum var hins vegar 1,4%, framlag opinberrar þjónustu var 0,4% og annarrar þjónustu 0,8%.

Með öðrum orðum er 12 mánaða verðbólga í húsnæðisliðnum 6,8%, í opinberri þjónustu 4,3% og í annarri þjónustu 3,4%. Innfluttar vörur hafa hins vegar lækkað um 1,8% undanfarna 12 mánuði og innlendar vörur hafa lækkað um 0,1% á sama tíma. Þar sem launakostnaður vegur mun þyngra í verði þjónustu en vöruverði má því álykta sem svo að hækkun launakostnaðar hafi komið fram í verðlagi að stórum hluta, en verið veginn upp af verðlækkun á hráefni hvað vöruverð snertir. Áhrif af hækkun launa kennara og annarra opinberra starfsmanna þar sem kostnaður við þjónustu er greiddur af ríkinu en ekki neytendum með beinum hætti eru þó vitaskulda mun vægari til skemmri tíma litið og leiði samningarnir til hagræðis fyrir rekstur hins opinbera verða áhrifin þeim mun minni til lengdar litið.

Horfur á frekari aukningu kaupmáttar

Ef næst hófleg lending í almennum kjarasamningum á 1. ársfjórðungi 2015, sem á þessari stundu er vissulega mikil óvissa um, verður meira jafnvægi milli launaþróunar hjá almennum og opinberum starfsmönnum en virðist hafa verið raunin undanfarið. Kaupmáttur, og þar með einkaneysla, gæti því vaxið allhratt næsta kastið. Við gerum ráð fyrir 6,6% hækkun launavísitölu árið 2015, svipaðri og í ár. Við teljum hins vegar að hækkunin verði í meiri mæli á almennum markaði og minni mæli vegna opinberra starfsmanna á næsta ári en raunin hefur verið í ár. Verðbólguþrýstingur vegna launa verður þar af leiðandi meiri á næsta ári en í ár að okkar mati.

Við gerum ráð fyrir 3,0% verðbólgu yfir árið 2015. Kaupmáttur launa vex skv. því um 3,3% yfir árið í spánni. Má segja að 1,0% - 1,5% kaupmáttarvaxtarins sé vegna aukinnar framleiðni, tæplega 1,0% vegna lítillar innfluttrar verðbólgu og afgangurinn sé töf á verðbólguþrýstingi og aðrir þættir.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall