Fréttir Greiningar

Auknar líkur á vaxtalækkun?

26.11.2014 11:46

Mikil viðbrögð voru á skuldabréfamarkaði við verðbólgutölum morgunsins. Krafa óverðtryggðra ríkisbréfa hefur lækkað um 6-11 punkta frá opnun þegar þetta er ritað, og krafa verðtryggðra markflokka hefur hækkað um 8-15 punkta. Velta með óverðtryggð bréf hefur verið með meira móti, en velta með verðtryggðu bréfin er hins vegar fremur lítil. Verðbólguálag til 5 ára hefur minnkað um u.þ.b. 0,25 prósentur og er nú u.þ.b. 2,8%.

Ástæða þessara hreyfinga á markaði er væntanlega bæði horfur á minni verðbólgu til skemmri tíma og auknar væntingar um lækkun stýrivaxta í næsta mánuði. Miðað við spá okkar fyrir desember mun verðbólga á 4. ársfjórðungi verða 1,2% að meðaltali og þá eru horfur á að verðbólga á 1. fjórðungi næsta árs verði 1,1% að jafnaði. Í sinni nýjustu þjóðhags- og verðbólguspá, sem birt var samhliða síðustu vaxtaákvörðun,  spáði Seðlabankinn hins vegar 1,7% verðbólgu á 4. fjórðungi í ár og 2,0% verðbólgu á 1. fjórðungi næsta árs. Verðbólguhorfur til skemmri tíma eru því talsvert betri en Seðlabankinn spáir m.v. fram komnar tölur og spá okkar.

Raunstýrivextir orðnir hærri en fyrir síðustu vaxtalækkun

Þá eru raunstýrivextir nú orðnir hærri en þeir voru fyrir lækkun stýrivaxta fyrr í mánuðinum, sé miðað við virka stýrivexti að frádreginni 12 mánaða verðbólgu, auk þess sem verðbólguálag á markaði hefur lækkað talsvert á tímabilinu. Má þar til upprifjunar nefna að í fundargerð vegna síðasta vaxtaákvörðunarfundar nefndarinnar var sagt að samkvæmt verðbólguspá bankans væri gert ráð fyrir því að verðbólga yrði nálægt verðbólgumarkmiðinu nánast allt spátímabilið og því væru forsendur til að draga úr hækkun raunvaxta.

Nú  hefur því í raun hvort tveggja gerst, að verðbólguþróunin næsta kastið virðist ætla að verða hagfelldari en Seðlabankinn spáði, og að raunstýrivextir hafa hækkað þrátt fyrir vaxtalækkunina í nóvember. Þá hafa verðbólguvæntingar lækkað á ýmsa mælikvarða. Að öðru óbreyttu eru því komin fram sterkari rök en áður fyrir því að lækka stýrivexti frekar á næsta vaxtaákvörðunarfundi peningastefnunefndar, en hann verður þann 10. desember næstkomandi.

Hægur bati á vinnumarkaði

Við þetta má bæta að heildarvinnustundum fjölgaði um 1,0% í október samkvæmt tölum Hagstofunnar sem birtar voru í morgun en peningastefnunefnd hefur horft nokkuð í þessa stærð við ákvarðanir sínar samkvæmt fundargerð. Nokkuð hefur dregið úr vexti vinnuaflseftirspurnar undanfarið og mælist hann nú hægur. Þannig fjölgaði heildarvinnustundum um 0,6% á þriðja ársfjórðungi þessa árs samanborið við 2,7% vöxt á öðrum ársfjórðungi og 3,0% vöxt á þriðja ársfjórðungi. Hefur batinn á vinnumarkaði verið heldur hægari á þessu ári en Seðlabankinn spáði t.d. í ágúst,

Samkvæmt fundarferð síðasta fundar peningastefnunefndar var á þeim fundi nokkur umræða um hvort rétt væri að bíða næsta fundar með vaxtalækkun, en stutt væri í hann og þá lægju fyrir þjóðhagsreikningar fyrir þriðja fjórðung ársins, ný verðbólgumæling og nýjar tölur af vinnumarkaði. Nú liggur fyrir bæði verðbólgumælingin og nýjar tölur af vinnumarkaði, en þjóðhagsreikningar verða birtir 5. desember nk.   

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall