Fréttir Greiningar

Ferðaþjónusta drjúg í gjaldeyrisöflun

04.12.2014 11:45

Það gjaldeyrisinnflæði sem verið hefur ríkjandi á gjaldeyrismarkaði á árinu er komið til vegna gríðarlegs vaxtar í ferðaþjónustu, og er nokkuð ljóst að ef hans nyti ekki við er hætt við að krónan hefði veikst töluvert. Ekki er hægt að segja að vöruskipti við útlönd hafi skapað neitt nettóinnflæði í gjaldeyri á árinu, enda bendir allt til þess að afgangur af þeim verði lítill ef nokkur þetta árið. Þó teljum við réttara að horfa í heild á vöru- og þjónustujöfnuð fremur en skoða þessa þætti aðskilda, enda er þróunin á milli þeirra á þá leið að vaxandi hluti vöruinnflutnings hefur þann tilgang að afla aukinna þjónustutekna. Má þar nefna fjárfestingu í flutningatækjum, aukin eldsneytiskaup og stækkandi hluta innfluttrar neysluvöru. 

Ferðamenn: Samfelld aukning í 50 mánuði

Samkvæmt tölum Ferðamálastofu Íslands fóru um 61 þúsund erlendir ferðamenn frá landinu um Keflavíkurflugvöll (KEF) í nóvember sl. Er hér um langfjölmennasta nóvembermánuð að ræða frá upphafi hvað brottfarir þeirra varðar, og nemur aukningin á milli ára 31%, sem er talsvert meiri aukning en verið hefur að jafnaði á árinu. Hefur ferðamönnum nú fjölgað samfellt í 50 mánuði í röð, eða allt frá því í október árið 2010. 

Einnig varð þó nokkur aukning á brottförum Íslendinga um KEF í nóvember frá fyrra ári. Fóru rúmlega 32 þúsund Íslendingar erlendis, sem er aukning upp á tæp 13% frá sama tíma í fyrra. Var ferðamannajöfnuður, þ.e. brottfarir erlendra gesta umfram Íslendinga, þar með jákvæður um rúm 28 þúsund í mánuðinum samanborið við um 5 þúsund í nóvember í fyrra. Þetta er aðeins í annað sinn sem ferðamannajöfnuður er jákvæður í nóvembermánuði.

Vöruskipti: Góður afgangur í nóvember

Hagstofan birti svo bráðabirgðatölur um vöruskipti við útlönd í nóvember í gærmorgun. Samkvæmt þeim var um 7,1 ma. kr. afgangur af vöruskiptum í mánuðinum, sem er þó talsvert minni en sá 11,4 ma. kr. afgangur sem mældist á sama tíma í fyrra. Minnkandi afgangur á milli ára skýrist af minni útflutningi, en alls nam verðmæti vöruútflutnings 50,1 mö. kr. í nóvember sl. samanborið við 55,2 ma. kr. á sama tíma í fyrra. Það skýrist svo aftur samdrætti á í útflutningi sjávarafurða, en á sama tíma jókst útflutningur iðnaðarvara. Þannig nam útflutningsverðmæti sjávarafurða 19,7 mö. kr. í nóvember sl. samanborið við 26,3 mö. kr. á sama tímabili í fyrra. Á sama tímabili jókst útflutningsverðmæti iðnaðarvara um 2,3 ma. kr. á gengi hvors árs, en verðmæti þeirra nam alls 28,2 mö. kr. Innflutningur dróst einnig saman á milli ára, en þó í mun minna mæli en útflutningur. Alls voru fluttar inn vörur fyrir 43,0 ma. kr. í nóvember sl. samanborið við 43,8 ma. kr. á sama tíma í fyrra. 

Ferðamenn: Rúmlega 17% fleiri en allt árið í fyrra

Brottfarir erlendra ferðamanna frá landinu um KEF eru nú þegar komnar upp í rúm 915 þúsund á fyrstu ellefu mánuðum ársins samanborið við 739 þúsund á sama tímabili í fyrra. Þetta jafngildir um 24% fjölgun á milli ára, eða sem nemur um 176 þúsund ferðamönnum. Eru ferðamenn nú orðnir rúmlega 17% fleiri en þeir voru allt árið í fyrra. Ef fjölgunin í desember verður álíka og hún verið hefur á árinu til þessa, sem er ekki ósennilegt, þá verða brottfarir þeirra um KEF 965-970 þúsund á árinu. Um 4% erlendra ferðamanna koma hingað til lands um aðra flugvell, með Norrænu og öðrum skipum, og sé það lagt saman við þá er fjöldi þeirra yfir milljón. Þess má geta að inn í þessum tölum eru ekki farþegar með skemmtiferðaskiptum, en þeir hafa stutta viðkomu hér á landi.  

Brottfarir Íslendinga um KEF eru komnar upp í 372 þúsund á fyrstu ellefu mánuðum ársins, og er það fjölgun upp á rúm 9% frá sama tíma í fyrra. Er ferðamannajöfnuður nú kominn upp í um 544 þúsund samanborið við 399 þúsund í fyrra. Þetta eru hreint ótrúlegar tölur, og má hér nefna að árin 2006 og 2007 þegar Íslendingar ferðuðust eins og enginn væri morgundagurinn þá var ferðamannajöfnuður í halla upp á 25-27 þúsund. 

Vöruskipti: Á pari

Á fyrstu ellefu mánuðum ársins hafa verið fluttar út vörur fyrir 537,9 ma. kr. en inn fyrir 537,8 ma. kr. Er vöruskiptajöfnuður þar með á pari á tímabilinu, eða m.ö.o. hagstæður um 0,1 ma. kr.  Er hér um óhagstæðustu vöruskipti að ræða frá hruni, en á sama tímabili í fyrra var afgangur af vöruskiptum upp á 43 ma. kr. og árið þar á undan nam afgangurinn 73,7 ma. kr. 

Óhagstæð þróun vöruskipta skýrist bæði af minnkandi útflutningi og auknum innflutningi á milli ára. Þannig hefur útflutningur dregist saman um 27,1 ma. kr. en innflutningur aukist um 15,6 ma. kr. á tímabilinu. Snarpur samdráttur í útflutningsverðmæti sjávarafurða skýrir einna helst minni vöruútflutning, en verðmæti þeirra er 30,7 mö. kr. minna á fyrstu ellefu mánuðum ársins m.v. sama tímabil í fyrra. Þar vegur slæm loðnuvertíð í upphafi þessa árs þungt. Einnig hefur útflutningur iðnaðarvara dregist saman á milli ára, eða um 4,7 ma. kr. Má þar helst benda á lágt verð á áli framan af ári og skömmtun á rafmagni til stórnotenda seinni hluta vetrar. Innflutningsverðmæti hefur aukist um 15,6 ma. kr. á sama tíma, sem má alfarið rekja til aukinna innflutnings á flutningatækjum, sér í lagi á skipum og svo á fólksbílum. Eins og við höfum áður fjallað um er sá samdráttur sem hefur átt sér stað í útflutningi vissulega áhyggjuefni, en á hinn  bóginn er aukningin á innflutningi að stórum hluta jákvæð, þar sem hún er mestu leyti vegna aðfangakaupa og aukinnar fjárfestingar til að afla þjónustutekna, bæði í ferðaþjónustu og vöruflutningum. 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall