Fréttir Greiningar

Stýrivextir lækkaðir um 0,5 prósentur

10.12.2014 12:00

Peningastefnunefnd Seðlabankans ákvað að lækka stýrivexti bankans um 0,5 prósentur. Spár voru á bilinu 0,25-0,5 prósentustiga lækkun. Spáðum við 0,25 prósentustiga lækkun.Rök nefndarinnar fyrir lækkun eru lág verðbólga, lækkun verðbólguvæntinga og hækkun raunstýrivaxta ásamt hægum hagvexti á þessu ári. 

Þrátt fyrir að nefndin noti nýbirtar hagvaxtartölur fyrir fyrstu níu mánuði þessa árs sem rök fyrir vaxtalækkuninni bendir hún á að tölur um hagvöxt á þessu ári séu verulega á skjön við aðrar vísbendingar um þróun eftirspurnar. Virðast nefndarmenn því ekki trúa þessum tölum fullkomlega, enda er um bráðabirgðatölur að ræða sem að okkar mati verða líklega endurskoðaðar til hækkunar.  Var þessi vantrú á tölurnar undirstrikuð á kynningarfundi vegna vaxtaákvörðunarinnar í morgun. Þar sagði seðlabankastjóri að þessar tölur hefðu ekki haft mikil áhrif á þessa ákvörðun nefndarinnar, þó að tölurnar bendi til þess að hagvöxtur á þessu tímabili hafi verið undir spá Seðlabankans og það kunni að smitast yfir á næsta ár. Sagði hann að nefndin tæki þessum tölum með mikilli varúð.  

Önnur vaxtalækkun líkleg í febrúar

Segir nefndin í yfirlýsingu sinni að verðbólgan verði ef að líkum lætur nokkuð undir markmiði a.m.k. fram yfir mitt næsta ár. Er það í samræmi við okkar spá, og eru líkur á því að ný verðbólguspá Seðlabankans sem birt verður samhliða næstu vaxtaákvörðun 4. febrúar nk. verði talsvert bjartsýnni hvað varðar verðbólguhorfur til skemmri tíma en kom fram í síðustu verðbólguspá þeirra sem birt var í upphafi nóvember sl. Í yfirlýsingu nefndarinnar segir að haldist verðbólgan undir markmiði og verði launahækkanir í komandi kjarasamningum í samræmi við verðbólgumarkmið gætu skapast forsendur fyrir frekari lækkun nafnvaxta. Í ljósi væntrar verðbólguþróunar og þess að við teljum ólíklegt að þá verði búið að ljúka kjarasamningum á almennum vinnumarkaði, en þeir eru lausir í byrjun mars, teljum við góðar líkur á annarri vaxtalækkun þá. 

Lág erlend verðbólga hefur áhrif

Á ofangreindum kynningarfundi sagði seðlabankastjóri að innflutt verðbólga, sem um þessar mundir er afar lág og skýrir að hluta af hverju verðbólgan hér á landi er svo lítil, væri eitthvað sem Seðlabankinn væri ekki að reyna að hafa áhrif á. Hins vegar skiptir sú verðbólga máli þar sem hún hefur áhrif á raunstýrivextina og þar með aðhaldsstigið. Einnig gæti lítil innflutt verðbólga haft m.a. áhrif á innlenda launamyndun og þar með verðbólguþróunina. Lág erlend verðbólga kemur því inn í ákvörðun nefndarinnar þó svo að erlend verðbólga sem slík sé utan áhrifasviðs stjórntækja Seðlabankans. 

Vaxtahækkun undir lok næsta árs

Nefndin tekur fram í yfirlýsingu sinni að miklar launahækkanir og vöxtur eftirspurnar gætu hins vegar grafið undan nýfengnum verðstöðugleika og valdið því að hækka þurfi vexti á ný. Reiknum við með því að þetta verði raunin þegar líða tekur á næsta ár og að nefndin muni hefja að hækka vexti bankans á ný undir lok þess árs. Við reiknum með því, líkt og Seðlabankinn, að hagvöxtur verði það mikill á næstu misserum að framleiðsluspenna fari að myndast í hagkerfinu. Þá mun verðbólgan færast aðeins í aukana þegar kemur fram á næsta ár. Hvorttveggja kallar á hærri stýrivexti. 

Varúðarhækkun fyrir losun fjármagnshafta

Athygli vekur að ekki er minnst á þörfina á hærri raunstýrivöxtum samfara losun hafta, nú þegar loksins virðist vera að koma skriður á þau mál. Virðist nefndin því ekki hafa ýkja miklar áhyggjur af áhrifum nýrrar áætlunar um losun hafta á gengisþróun krónu næsta kastið. Aðspurður að þessu á ofangreindum kynningarfundi sagði Seðlabankastjóri að það væri verið að hanna lausnir sem miðuðu við það að halda gegni krónunnar stöðugu við losun hafta. Þegar líður nær því að lyfta höftum á raunhagkerfið allt saman verður gengismiðlunarleiðin virkari og þá kemur vel til greina að það verði einhver varúðarhækkun í vöxtum tímabundið til að tryggja stöðugleika krónunnar. Slíka hækkun þyrfti ekki að gera með miklum fyrirvara þar sem þar er ekki verið að tala um langt miðlunarferli frá vaxtastigi yfir í verðlagsþróun. Seðlabankastjóri sagði að um þessar mundir væri bankinn fremur í því hlutverki að reyna að kaupa eins mikið af gjaldeyri og hægt er á innlendum gjaldeyrismarkaði, og koma þannig í veg fyrir að raungengi krónunnar hækkaði of mikið og hratt.  Nefndi hann einnig að því öflugri sem gjaldeyrisforði bankans og önnur varúðartæki væru, og því hagstæðari sem stærðir á borð við innlenda og erlenda skuldastöðu, stöðu ríkisfjármála, og viðskiptajöfnuð væru, þeim mun minni líkur væru á óstöðugleika í gengi krónu.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall