Fréttir Greiningar

Gríðarleg aukning í kortaveltu erlendra ferðamanna

15.12.2014 11:21

Mikill vöxtur var í kortaveltu útlendinga hér á landi í nóvember sl., eða sem nemur um 32,5% í krónum talið frá sama tíma í fyrra. Samkvæmt tölum sem Seðlabanki Íslands birti á föstudag nam kortavelta erlendra ferðamanna alls 6,9 mö. kr. í mánuðinum samanborið við 5,2 ma. kr. á sama tíma í fyrra. Þessi mikli vöxtur rímar vel við tölur Ferðamálastofu um brottfarir útlendinga í nóvember, en þeim fjölgaði 31,0% á milli ára.

 ... en Íslendingar eyddu meiru

Eins og ávallt hefur verið raunin í nóvembermánuði þá tókst Íslendingum að toppa útlendinga í kortanotkun erlendis í síðasta mánuði, og þá þrátt fyrir að erlendir ferðamenn voru mun fleiri hér á landi en Íslendingar á ferðalögum erlendis í mánuðinum. Þannig voru brottfarir Íslendinga um Keflavíkurflugvöll um helmingi færri en brottfarir erlendra ferðamanna í nóvember, eða 32,5 þúsund á móti 60,9 þúsundum. Alls nam kortavelta Íslendinga í útlöndum 8,4 mö. kr. í nóvember og var kortaveltujöfnuður (kortavelta útlendinga að frádreginni kortaveltu Íslendinga í útlöndum) þar með óhagstæður um tæpa 1,6 ma. kr. í mánuðinum. Það er þó mun hagstæðari útkoma en áður hefur verið í nóvembermánuði, að nóvember 2008 undanskildum. Síðustu tvö ár var jöfnuðurinn óhagstæður um 2,5 ma.kr. í nóvember og árið 2011 var hann óhagstæður um 3,6 ma. kr.
 
Það er ekkert nýtt af nálinni að kortaveltujöfnuðurinn sé óhagstæður þrátt fyrir að ferðamannajöfnuðurinn sé hagstæður, enda eyðir hver Íslendingur mun meira í útlöndum en hver erlendur ferðamaður gerir hér á landi. Munurinn þarna á milli er jafnframt mestur á síðasta fjórðungi ársins, enda eru utanlandsferðir Íslendinga á þessum árstíma gjarnan verslunarferðir þar sem kortin eru straujuð af kappi. Þó ber að hafa í huga er rýnt er í tölur Seðlabankans um kortaveltu Íslendinga erlendis að ekki er greint á milli kortaveltu í tengslum við ferðalög og veltu í erlendum netverslunum. Þá innihalda kortatölurnar einnig kortaveltu námsmanna á erlendri grundu. Þó virðist nokkuð ljóst að þótt netverslun væri frádregin væri munurinn á útgjöldum Íslendinga á erlendri grundu og erlendra ferðamanna hér á landi enn þó nokkur. 

Kortaveltujöfnuður aldrei verið eins hagstæður

Á fyrstu 11 mánuðum ársins hafa erlendir ferðamenn straujað kortin sín fyrir 107,2 ma. kr. hér á landi á sama tímabili og kortavelta Íslendinga erlendis nemur 81,7 mö. kr. Er kortaveltujöfnuður þar með jákvæður um sem nemur 25,6 mö. kr., sem er gríðarleg  breyting frá því sem áður var. Á sama tímabili í fyrra var kortaveltujöfnuður hagstæður um 14,3 ma. kr. og árið þar á undan um 3,1 ma. kr. Fyrir hrun var jöfnuðurinn ávallt í halla á þessu tímabili, og má hér nefna að á hinu mikla einkaneysluári 2007 var hallinn kominn upp í 30,2 ma. kr. á tímabilinu. Þessi breyting endurspeglar vitaskuld hversu mikilvægur sá hraði vöxtur sem verið hefur í ferðaþjónustu hérlendis er fyrir gjaldeyrissköpun þjóðarbúsins.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall