Fréttir Greiningar

Útlit fyrir myndarlegan einkaneysluvöxt í árslok

15.12.2014 11:22

Útlit er fyrir að vöxtur einkaneyslu á síðasta fjórðungi ársins muni reynast myndarlegur, ekki síst vegna hraðari vaxtar einkaneyslu innanlands en verið hefur undanfarna fjórðunga. Nýbirtar kortaveltutölur Seðlabankans gefa sterka vísbendingu um þetta, en samkvæmt þeim nam raunvöxtur kortaveltu á milli ára 7,3% í nóvember síðastliðnum. 

Að vanda var vöxturinn mikill í veltu á erlendri grundu, en hann nam 15,6% að raunvirði milli ára. Hins vegar var raunvöxtur kortaveltu innanlands í nóvembermánuði frá sama mánuði í fyrra nærri tvöfalt meiri en hann hefur að jafnaði verið á árinu, eða um 6,2% á móti 3,4%. Líklegt er að hér vegi aukin kaup á varanlegum neysluvörum þungt, en samkvæmt Smásöluvísitölu RSV, sem Rannsóknasetur verslunarinnar birti í síðustu viku, varð mikil aukning í sölu stórra raftækja og húsgagna í nóvember miðað við sama mánuð í fyrra. Hvað raftækin varðar teljum við að verðlækkun vegna yfirvofandi lækkunar vörugjalda um næstu áramót vegi þungt. Þá hefur verð á húsgögnum lækkað talsvert frá miðju ári, og má gera ráð fyrir að þar séu áhrif styrkingar krónu á fyrri hluta árs að koma fram.

Stefnir í mesta vöxt í þrjú ár

Ef ekki kemur bakslag í þróunina í desember er útlit fyrir að vöxtur einkaneyslu verði allhraður á síðasta fjórðungi ársins. Þannig nemur raunvöxtur kortaveltu einstaklinga í október og nóvember samanlagt um 6,2% milli ára, þar af 4,8% innanlands en 16,4% erlendis. Ef þetta verður raunin fyrir fjórðunginn í heild erum við að sjá fram á mesta vöxt á milli ára allt frá því á 2. ársfjórðungi 2011 þegar kortavelta var að byrja að taka við sér eftir það samdráttarskeið sem varð í kjölfar hrunsins.

Vanmetur Hagstofan vöxt einkaneyslu?

Í nýjustu þjóðhagsspá okkar, sem gefin var út í október síðastliðnum, spáðum við 4,5% vexti einkaneyslu í ár. Kortatölurnar það sem af er ári virðast í ágætu samræmi við þá spá. Á fyrstu þremur fjórðungum ársins var vöxturkortaveltu 4,6% að raunvirði þegar vísitala neysluverðs (VNV) án húsnæðis er notuð til staðvirðingar. Á hinn bóginn sýna tölur Hagstofunnar um þróun einkaneyslu á fyrstu níu mánuðum ársins talsvert minni vöxt. Samkvæmt þeim var 2,8% vöxtur í einkaneyslu á tímabilinu frá sama tíma í fyrra. Hér liggur ein stærsta skýringin á litlum hagvexti samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar, ef þær eru bornar saman við spár okkar og annarra um hagvöxt á yfirstandandi ári, en einkaneysla vegur þungt í þjóðhagsreikningum.

Þessar tölur Hagstofunnar geta tekið verulegum breytingum við síðari endurskoðun. Í ljósi kortaveltutalna, sem og annarra hagtalna á borð við smásöluveltu og nýskráningar bifreiða, finnst okkur líklegra en ekki að vöxtur einkaneyslu reynist meiri þegar frá líður en kemur fram í þessum fyrstu tölum Hagstofunnar. Seðlabankinn hefur lýst þessari sömu skoðun í fjölmiðlum að undanförnu, og bendir þá m.a. á að Hagstofan noti verðvísitölu einkaneyslu sem er talsvert úr takti við þróun á vísitölu neysluverðs á sama tíma. Í tengslum við þessi ummæli má benda á að mun meira samræmi er í þróun þessara talna (þ.e. kortaveltu og einkaneyslu) á breytilegu verðlagi en á föstu verðlagi. 

Þó ber að halda því til haga að verðvísitala einkaneyslu tekur tillit til verðþróunar á íbúðamarkaði, og á það bæði við leigu og söluverð íbúða. Við, líkt og Seðlabankinn, höfum hins vegar notað VNV án húsnæðis til að staðvirða kortaveltutölur. Þar sem verðhækkun á íbúðamarkaði var einn helsti drifkraftur verðbólgu á 3. ársfjórðungi hefur þessi munur talsverð áhrif á útreikninga á raunþróun kortaveltu annars vegar, og einkaneyslu hins vegar. Hann skýrir þó ekki að okkar mati nema hluta af muninum á mati Hagstofu á einkaneyslu og þeim hagvísum sem mest er horft til í þessu sambandi.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall