Fréttir Greiningar

Verðbólga undir þolmörkum í fyrsta sinn

19.12.2014 12:26

Verðbólga samkvæmt vísitölu neysluverðs mælist nú undir 1,0% neðri þolmörkum verðbólgumarkmiðs Seðlabankans í fyrsta sinn frá því markmiðið var tekið upp vorið 2001. Horfur eru á að verðbólga verði áfram í kring um 1,0% fram á mitt næsta ár. Samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar hækkaði Vísitala neysluverðs (VNV) um 0,3% í desember. Var það í samræmi við verðbólguspá okkar, en opinberar spár lágu á bilinu frá óbreyttri VNV til 0,3% hækkunar VNV milli mánaða. 

Verðbólga mælist nú 0,8% og lækkar árstaktur hennar um 0,2 prósentustig frá nóvembermælingu VNV. Hins vegar mælist 0,4% verðhjöðnun yfir árið 2014 ef miðað er við VNV án húsnæðis, en á þann kvarða hækkaði verðlag um 0,2% milli mánaða í desembermánuði.

Flug og húsnæði hækkar..

Hækkun VNV nú skrifast að stærstum hluta á hækkun á flugfargjöldum til útlanda og húsnæðislið. Flugfargjöld hækka gjarnan hressilega í kring um hátíðarnar, og sú sveifla kemur sterkar fram en áður í desembermælingu VNV vegna breyttrar aðferðafræði við útreikning á þessum lið. Í mælingunni nú hækkuðu flugfargjöld til útlanda um 14,3% (0,17% áhrif í VNV). Þá hækkaði húsnæðisliður VNV um 0,45% (0,13% í VNV) eftir 0,14% lækkun mánuðinn á undan. Skýrist sú hækkun annars vegar af 0,5% hækkun á reiknaðri húsaleigu (0,07% í VNV) og hins vegar af 0,9% hækkun á greiddri húsaleigu (0,05% í VNV). Einnig hækkuðu húsgögn og heimilisbúnaður um 3,3% milli mánaða (0,05% í VNV) og matur og drykkjarvörur hækkuðu í verði um 0,4% (0,05% í VNV), að langmestu leyti vegna nærri 2,0% hækkunar á grænmeti og ávöxtum (0,04% í VNV).

..en eldsneyti og græjur lækka

Á móti vegur að verð á eldsneyti lækkaði að jafnaði um 2,4% (-0,1% í VNV) milli mánaðarmælinga Hagstofunnar. Er það nokkuð minni lækkun en við reiknuðum með, en í krónum talið lækkaði verð á bensíni um 7 kr. og verð á díselolíu um 9 kr. á milli mælinganna, eða um 3,2% að jafnaði. Þá voru áhrif af fyrirhugaðri lækkun vörugjalda um áramót til 0,05% lækkunar VNV í desember. Þar af var 1,6% lækkun á stærri raftækjum (-0,01% í VNV) og 2,4% lækkun á sjónvörpum og hljómflutningstækjum (-0,04% í VNV) í mánuðinum. 

Áfram lítil verðbólga

Horfur eru á að verðbólga verði áfram með minnsta móti. Eldsneyti hefur haldið áfram að lækka frá desembermælingunni, og nú í morgun hafa raunar sum olíufélög lækkað eldsneytisverð um 3 krónur. Að því gefnu að önnur fylgi í kjölfarið gæti staðan verið sú í lok dags að frá desembermælingu VNV hafi bensín lækkað um 11 kr. og díselolía um 9 kr. frá síðustu mælingu, sem jafngildir 4,8% lækkun eldsneytis að jafnaði (-0,18% í VNV). Við teljum líklegt að eldsneyti muni lækka enn frekar á næstu vikum, enda virðist talsvert svigrúm enn vera til verðlækkunar með hliðsjón af þróun eldsneytisverðs á heimsmarkaði. Þá má gera ráð fyrir að flugfargjöld lækki talsvert að nýju í janúarmánuði, þegar hátíðarbragurinn fer aftur af verðlagningu flugfélaganna. Enn fremur metum við áhrif skattbreytinga um næstu áramót, að frátöldum þeim áhrifum sem komið hafa fyrirfram vegna lækkunar vörugjalda og efra VSK-þrepsins, í heild til 0,1 – 0,2% lækkunar VNV.

Bráðabirgðaspá okkar gerir ráð fyrir 0,8% lækkun VNV í janúar, 0,5% hækkun í febrúar og 0,4% hækkun í mars. Gangi spáin eftir mun verðbólga að jafnaði mælast 0,7% á fyrsta fjórðungi næsta árs. Við teljum raunar að verðbólgan muni ekki fara yfir 1,0% þolmörk verðbólgumarkmiðs Seðlabankans að nýju fyrr en um mitt næsta ár. Það veltur svo að miklu leyti á niðurstöðu komandi kjarasamninga hversu hratt verðbólga eykst að nýju þegar líður á árið.

Seðlabankinn í nýrri stöðu

Þar sem verðbólga fór undir þolmörkin nú í desember þarf Seðlabankinn að rita greinargerð til stjórnvalda þar sem hann tíundar orsakir lítillar verðbólgu, útlistar hvernig hann hyggist bregðast við og leggur mat á hvenær markmiðinu verði náð að nýju. Hlýtur það að teljast nokkur nýlunda að bankinn sé í þessari stöðu, enda hefur mikil og þrálát verðbólga verið viðfangsefni hans lengst af frá upptöku verðbólgumarkmiðsins fyrir tæplega 14 árum síðan. Samfara hjöðnun verðbólgu hafa raunstýrivextir Seðlabankans hækkað þrátt fyrir 0,75 prósentustiga vaxtalækkun á yfirstandandi ársfjórðungi. Lætur nærri að raunstýrivextir verði u.þ.b. 3,8% í janúarmánuði m.v. einfalt meðaltal innlánsvaxta og vaxta á innstæðubréf annarsvegar, og liðna verðbólgu hins vegar. Við teljum ljóst að verðbólguþróunin nú og skammtímahorfur sé til þess fallið að auka líkur á frekari lækkun stýrivaxta við næstu vaxtaákvörðun Seðlabankans þann 4. febrúar næstkomandi.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall