Fréttir Greiningar

Sterkar tölur af vinnumarkaði

23.12.2014 10:56

Niðurstöður úr vinnumarkaðskönnun sem Hagstofa Íslands birti í gær benda til þess að mun meiri gangur hafi verið á vinnumarkaði í nóvember sl. en verið hefur síðustu mánuði. Þannig gefa mælingar Hagstofu á þróun vinnustunda ágæta vísbendingu um umsvif í hagkerfinu á hverjum tíma, enda endurspeglar fjöldi vinnustunda eftirspurn eftir vinnuafli, og þar með framboðshlið hagkerfisins. Gefa þær vísbendingu um að vinnuaflseftirspurn sé að aukast hraðar nú en verið hefur undanfarið, þó rétt sé að hafa í huga að talsverðar sveiflur geta verið í mánaðartölunum.

Mesta fjölgun í ár

Alls voru tæplega 181.500 manns starfandi í nóvember sl. sem jafngildir 4,0% fjölgun frá sama tíma í fyrra, eða sem nemur um 6.900 manns. Venjulegar vinnustundir í viku hverri voru 39,1 klst. í mánuðinum, sem felur í sér fjölgun vinnustunda um 0,4 klst. á viku frá því í nóvember í fyrra. Heildarvinnustundum fjölgaði því um 5,0% á milli ára samkvæmt rannsókn Hagstofunnar, sem er mesta aukning vinnustunda á þennan mælikvarða í heilt ár. Eins og áður segir er talsverð fylgni milli þróunar vinnustunda og hagvaxtar, og gefur þróunin nú vísbendingu um að vöxturinn sé eitthvað að taka við sér nú á síðasta fjórðungi ársins, eftir lítilsháttar samdrátt á fyrri fjórðungi samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar. 

Atvinnuleysi ekki verið minna frá hruni

Samkvæmt rannsókn Hagstofunnar voru 187.300 manns á íslenskum vinnumarkaði að jafnaði í nóvember sl., sem jafngildir 2,7% fjölgun vinnuafls frá sama mánuði í fyrra. Af þessum fjölda voru 5.800 manns atvinnulausir í mánuðinum, eða sem nemur 3,1% af vinnuafli. Hefur atvinnuleysi ekki mælst minna í könnun Hagstofunnar frá því fyrir hrun, og á það einnig við árstíðarleiðréttar tölur. Í nóvember í fyrra var hlutfall atvinnulausra 4,2%, eða sem nemur um 7.700 manns. Þó ber að halda til haga að þessar tölur geta reynst talsvert sveiflukenndar.

Talsverður munur á tölum um atvinnuleysi

Af ofangreindum tölum Hagstofunnar er ljóst að atvinnuleysi er áfram að minnka jafnt og þétt, og ber þeim saman við tölur Vinnumálastofnunar (VMST) um skráð atvinnuleysi hvað þetta varðar. Sem kunnugt er þá er um tvær mismunandi aðferðir að ræða við að mæla atvinnuleysi, og munar því oft nokkru á milli talna Hagstofu og VMST. Þannig mælist batinn á vinnumarkaði talsvert öflugri og atvinnuleysi minna samkvæmt tölum VMST en tölur Hagstofunnar sýna. 

Sé tekið mið af fyrstu ellefu mánuðum ársins hefur skráð atvinnuleysi að jafnaði mælst 3,6% samanborið við 4,5% á sama tímabili í fyrra. Á sama tíma hefur atvinnuleysi skv. tölum Hagstofunnar minnkað um 0,5 prósentustig, eða úr 5,5% niður í 5,0%. Það sem m.a. er að skýra þennan mun, fyrir utan að önnur aðferðin er byggð á könnun en hin á skráningu, er að þeir sem hafa verið án atvinnu í meira en 3 ár koma fram í tölum Hagstofunnar en ekki í tölum VMST. Þetta bil mun því eflaust verða enn meira á næsta ári þegar lagabreytingar taka gildi um atvinnuleysistryggingar, sem fela í sér styttingu á greiðslutímabili atvinnuleysistrygginga um 6 mánuði. Verður bótarétturinn þar með kominn niður í 2,5 ár í stað 3,0 ár. Má því segja að tölur VMST gefi nokkuð ýkta mynd af þróuninni, þá í jákvæða átt, enda færast þeir sem hafa verið atvinnulausir lengur en sem nemur bótaréttinum yfir á framfærslu sveitarfélaga. 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall