Fréttir Greiningar

Heimilin bættu fjárhagsstöðu sína talsvert í fyrra

23.01.2015 10:50

Í þessari viku hafa borist nokkrir hagvísar sem benda til þess að hagur heimilanna hafi vænkast umtalsvert á síðastliðnu ári. Þannig komu fram upplýsingar um hraðan vöxt kaupmáttar launa á árinu, talsverða hækkun verðs íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu, aukningu í vinnuaflsnotkun og minnkandi atvinnuleysi. Ljóst er að staða heimilanna nú í upphafi árs 2015 hefur ekki verið betri síðan fyrir hrun bankakerfisins 2008. Reiknað er með að hagur heimilanna vænkist enn frekar í ár.   

Kaupmáttur launa jókst hratt á síðasta ári

Laun hækkuðu á síðasta ári um 5,8% frá árinu 2013 samkvæmt launavísitölu Hagstofa Íslands sem birt var fyrr í þessari viku. Er þetta viðlíka hækkun launa og var 2012 en öllu minni hækkun en bæði árin 2011 og 2010. 

Atvinnutekjur íslenskra heimila voru 1.030 ma.kr. árið 2013, og í því sambandi skilaði ofangreind hækkun launa heimilunum umtalsverðri fjárhæð. Það sem skiptir heimilin hins vegar ekki síður máli er að verðbólgan var lítil á síðasta ári, eða 2,0% að jafnaði, sem gerði það að verkum að hækkun launa í fyrra skilaði meiri kaupmáttarauka en sést hefur hér á landi síðan 2007. Var kaupmáttaraukningin 3,7% en þess má geta að á árinu 2007 jókst kaupmáttur launa um 3,8% og var það þá mesta aukning kaupmáttar launa á milli ára sem mælst hafði frá árinu 1998.

Kaupmáttur launa var í lok síðastliðins árs orðinn svipaður og hann var þegar hann var mestur á þensluskeiðinu fyrir hrun bankanna 2008. Hafði hann þá aukist um 15,6% frá því að hann var minnstur eftir hrunið. Segja má að hér sé um markverðan árangur að ræða, a.m.k. ef borið er saman við þá kaupmáttaraukningu sem verið hefur í flestum nálægum ríkjum á sama tíma. 

Vinnuaflsnotkun jókst og atvinnuleysi minkaði

Samkvæmt niðurstöðum úr vinnumarkaðskönnun Hagstofunnar sem birtar voru í vikunni fjölgaði heildarvinnustundum í hagkerfinu um 1,9% á síðasta ári. Er aukningin aðallega vegna fjölgunar starfandi, en þeim fjölgaði um 1,6% á tímabilinu. 

Hratt vaxandi kaupmáttur launa ásamt aukinni vinnuaflsnotkun skýrir talsverðan vöxt í neyslu og fjárfestingum heimilanna á síðasta ári. Þjóðhagsreikningar fyrir árið í heild liggja ekki enn fyrir en af vísbendingum að dæma má reikna með að hvort tveggja hafi aukist nokkuð hratt á árinu. Þannig var kortanotkun einstaklinga 4,8% meiri að raunvirði í fyrra en á árinu 2013. Einnig jókst fjárfesting heimilanna í íbúðarhúsnæði um 17,8% að raungildi á fyrstu níu mánuðum ársins 2014. 

Atvinnuleysið minnkaði í fyrra, en það var 5,0% að meðaltali á árinu samanborið við 5,4% á árinu 2013 og 6,0% á árinu 2012 samkvæmt ofangreindri könnun Hagsofunnar. Atvinnuleysið er enn nokkuð hátt samanborið við það sem það var fyrir hrunið 2008, en í því sambandi er rétt að hafa í huga að þá var mikil spenna á innlendum vinnumarkaði. Einnig hefur jafnvægisatvinnuleysið aukist í hagkerfinu. Þannig má segja með nokkurri vissu að sá slaki sem myndaðist á innlendum vinnumarkaði í kjölfar hrunsins 2008 sé því sem næst horfinn. 

Mikil hækkun á verði íbúða á síðasta ári

Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 8,6% á milli áranna 2013 og 2014 samkvæmt tölum sem bárust frá Þjóðskrá Íslands fyrr í þessari viku. Um er að ræða mestu hækkun íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu síðan 2007, en þá hækkaði verð íbúða um 10,8% á milli ára. Á landinu öllu hækkaði íbúðaverð hins vegar um 8,4% í fyrra samkvæmt gögnum Hagstofunnar, og er það einnig mesta hækkun á einu ári síðan 2007 þegar verð íbúða á landinu öllu hækkaði um 9,4%. 

Verðhækkun húsnæðis hefur bætt hag þeirra heimila sem eiga sitt eigið húsnæði, sem eru allflest íslensk heimili eða 73% á árinu 2013 samkvæmt könnun Hagstofunnar. Eru 55% heimilanna með húsnæðislán og í flestum tilfellum um verðtryggt lán að ræða. Eiginfjárstaða heimilanna hefur í þessum tilfellum aukist umtalsvert, en verðbólgan var sérstaklega lág yfir síðastliðið ár eða 0,8%. Eigið fé heimilanna í fasteignum var í lok árs 2013 ríflega 1.729 ma.kr., en eign þeirra í fasteignum var metin á 2.971 ma.kr. og íbúðalán á móti 1.242 ma.kr.  

Reiknum með framhaldi á þessari þróun

Við spáum því að hagur heimilanna komi til með að halda áfram að batna á þessu ári. Spáum við því að laun muni hækka um 6,6% yfir þetta ár og að verðbólgan verði 2,0% samkvæmt okkar nýjustu verðbólguspá sem birt var nú um miðjan janúar. Kaupmáttur launa mun því aukast talsvert á árinu gangi þessi spá eftir, þó aukningin verði heldur minni en yfir þetta ár. Einnig reiknum við með því að húsnæðisverð hækki umtalsvert í ár þó við væntum einnig hægari hækkunar þar en á síðasta ár. Raunverð íbúða mun halda áfram að hækka samkvæmt okkar spá. Eiginfjárstaða heimilanna í húsnæði mun því styrkjast enn frekar á þessu ári gangi spáin eftir. 


Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall