Fréttir Greiningar

Óbreytt 0,8% verðbólga í janúar

29.01.2015 11:08

Verðbólga mældist undir neðri vikmörkum verðbólgumarkmiðs Seðlabanka Íslands annan mánuðinn í röð nú í janúar. Að frátöldu húsnæði er raunar 0,6% verðhjöðnun á Íslandi miðað við nýjustu verðmælingar. Samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofu lækkaði vísitala neysluverðs (VNV) um 0,71% í janúarmánuði frá mánuðinum á undan. Lækkunin var öllu minni en gert hafði verið ráð fyrir. Við höfðum spáð 0,9% lækkun VNV, en aðrar spár lágu á bilinu 1,0%-1,1% lækkun. Horfur eru á að verðbólga verði áfram lítil næstu mánuði. 

Lækkun vegna útsala og eldsneytis

Líkt og jafnan í janúarmánuði höfðu vetrarútsölur veruleg áhrif á verðmælinguna, og voru áhrifin raunar sterkari en undanfarin ár. Föt og skór lækkuðu í verði um ríflega 15% (-0,72% áhrif í VNV) og húsgögn og heimilisbúnaður um tæp 5% (-0,22% í VNV). Þá hafði lækkun eldsneytisverðs veruleg áhrif á janúarmælingu VNV  líkt og við mátti búast. Eldsneyti lækkaði um 11% milli mánaða (-0,42% í VNV) sem endurspeglar mikla lækkun eldsneytisverðs á alþjóðamörkuðum, auk lækkun efra þreps virðisaukaskatts (VSK).

Matur hækkar

Hækkun neðra þreps VSK endurspeglast hins vegar í verði á mat og drykk, sem hækkaði um 2,6% í janúar (0,38% í VNV). Áhrifa afnáms sykurskattsins svokallaða gætir þó augljóslega í janúar, en líklega eiga þau eftir að skila sér að hluta í þessum lið, og  gæti það haft áhrif á næstu mánuðum. 

Húsnæðisliður heldur uppi verðbólgunni

Húsnæðisliður VNV hækkaði um 1,2% í janúarmánuði. Liðurinn hefur hækkað um  5,0% undanfarna 12 mánuði, og líkt og fram kom að ofan er hækkun hans ein helsta ástæða þess að ekki mælist verðhjöðnun hér á landi um þessar mundir. Hækkun á markaðsverði íbúðarhúsnæðis vegur hér drjúgt, og má nefna að reiknuð húsaleiga, sem að mestu endurspeglar þróun markaðsverðs, hækkaði um 1,3% í janúar frá fyrri mánuði. Auk þess hækkaði verð á rafmagni og húshitun um 2,2% í janúar (0,07%).

Óvænt hækkun flugfargjalda

Flugfargjöld til útlanda hækkuðu um 2,8% í janúarmánuði. Kemur það verulega á óvart, enda hafði verðkönnun okkar bent til þess að þessi liður myndi lækka myndarlega eftir 14% hækkun hans í desembermánuði. Hér þarf einnig að hafa í huga að eldsneytisverð hefur lækkað um nærri helming frá miðju síðasta ári og VSK á flugfargjöldum lækkaði um nýliðin áramót. Hugsanlega koma lækkunaráhrifin því fram á komandi mánuðum. 

Áhrif skattbreytinga talsverð

Breytingar á opinberum gjöldum um síðustu áramót sköpuðu venju fremur mikla óvissu um mælingu VNV nú, enda áhrif þeirra afar misjöfn eftir undirliðum, og í sumum tilfellum eru að verki gagnstæðir kraftar á sömu undirflokka. Samkvæmt frétt Hagstofunnar lækkaði fastskattavísitala neysluverðs um 1,12% í janúar frá fyrri mánuði. Það bendir til þess að áhrif þeirra breytinga á þeim opinberu gjöldum sem fastskattavísitalan nær utan um hafi verið til u.þ.b. 0,4% hækkunar í janúar. Þar ber þó að halda til haga að fastskattavísitalan nær ekki utan um verðbreytingar vegna afnáms vörugjalda og sykurskatts, auk þess sem breytingar á þeim gjöldum komu að hluta til fram fyrir áramót, og eiga einnig eftir að koma fram að einhverju leyti á næstu mánuðum.

Lítil verðbólga næsta kastið

Horfur fyrir næstu mánuði eru til heldur meiri hækkunar VNV en við gerðum ráð fyrir í bráðabirgðaspá okkar, sér í lagi í febrúar. Bráðabirgðaspá okkar nú gerir ráð fyrir að VNV hækki um 0,6% í febrúar, um 0,4% í mars og um 0,2% í apríl. Verðbólga verður skv. spánni 0,8% á 1. ársfjórðungi, og sömuleiðis 0,8% í apríl næstkomandi. Verðbólga verður samkvæmt því áfram rétt við neðri þolmörk verðbólgumarkmiðsins fram á vor, en væntanlega mun hún í kjölfarið stíga jafnt og þétt og mælast í grennd við 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans þegar líður að lokum ársins.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall