Fréttir Greiningar

Góðar horfur um utanríkisviðskipti á árinu

11.02.2015 11:35

Útlit er fyrir myndarlegan afgang af vöru- og þjónustujöfnuði í ár. Horfur eru einnig á að í heild verði undirliggjandi viðskiptaafgangur talsverður næstu misserin og hafa horfur batnað töluvert hvað þetta varðar undanfarið. Líkur eru því á áframhaldandi nettóinnflæði á gjaldeyrismarkaði næsta kastið, og mun Seðlabankinn því trúlega halda áfram að safna gjaldeyri í forðann á komandi mánuðum og misserum. Það er þó að því gefnu að ekki verið tekin stór skref í afnámi gjaldeyrishafta á tímabilinu sem breyta þessum aðstæðum verulega.

Þjónustuviðskipti drógu vagninn í fyrra

Árið 2014 var sáralítill afgangur af vöruskiptum. Léleg loðnuvertíð, lágt álverð framan af ári, rafmagnsskömmtun til álvera undir vetrarlok og allhraður vöxtur innflutnings neyslu- og fjárfestingarvara voru helstu ástæður þessa. Sterkur lokafjórðungur dró vöruskiptajöfnuðinn að landi og var 1,6 ma. kr. afgangur af vöruskiptum á árinu 2014 í heild samkvæmt tölum Hagstofunnar.

Þjónustuviðskipti drógu hins vegar vagninn með að skapa þann afgang sem varð af vöru- og þjónustuviðskiptum í fyrra. Þar kom ferðaþjónustan sér í lagi sterk inn. Afgangur af þjónustuviðskiptum nam 129 mö.kr. á fyrstu níu mánuðum ársins samkvæmt tölum Seðlabankans. Áætlum við að í heild hafi þjónustuafgangur verið u.þ.b. 140 ma. kr. árið 2014.

Vöruskiptin öll að koma til

Horfur eru á góðum vexti í vöruútflutningi og talsverður afgangi af vöruskiptum í ár. Leggst þar ýmislegt á jákvæðu hliðina. Til að mynda hafa viðskiptakjör við útlönd batnað verulega. Mikil lækkun eldsneytisverðs frá miðju síðasta ári gæti ein og sér haft í för með sér gjaldeyrissparnað sem nemur u.þ.b. 30 mö. kr. samanborið við síðasta ár miðað við tiltölulega varfærna forsendu um meðalverð hráolíu á bilinu 60-70 USD/tunnu. Fleiri innfluttar hrávörur hafa lækkað í verði, á meðan verð okkar helstu útflutningsafurða hefur ýmist hækkað eða staðið í stað.

Þá gæti loðnuvertíðin þennan vetur orðið í líkingu við vertíðina 2013, þegar loðnuútflutningur nam 443 þús.tonnum. Til samanburðar var loðnuútflutningur í fyrra u.þ.b.fjórðungur þeirrar tölu. Aukningin milli ára er talin skila allt að 25 mö. kr. í auknu útflutningsverðmæti, ef næst að veiða leyfilegan kvóta að fullu. Þar eru þó ákveðnar blikur á lofti vegna vályndra veðra og breyttrar hegðunar loðnunnar þetta árið.

Iðnaðarútflutningur eykst líklega nokkuð í magni mælt í ár þar sem skerðing raforku leiddi til minni álframleiðslu í fyrra en sem nam framleiðslugetu álveranna. Einnig gæti annar iðnaðarútflutningur vaxið allnokkuð í ár.

Þess má geta í þessu sambandi að samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar var 8,1 ma. kr. afgangur af vöruskiptum í janúar síðastliðnum samanborið við 7,2 ma.kr. í sama mánuði í fyrra, og byrjar árið 2015 því vel hvað þetta varðar. 

Líklega talsverður afgangur í ár

Útlitið er einnig bjart varðandi þjónustuviðskipti á árinu. Ekkert lát virðist á sókn ferðamanna hingað til lands, og gæti vöxturinn numið á þriðja tug prósenta milli ára. Tölur Ferðamálastofu fyrir brottfarir um Keflavíkurflugvöll í janúar síðastliðnum gefa þar tóninn, en fjölgun erlendra ferðamanna í þeim tölum nam 35% frá sama mánuði í fyrra.

Á heildina litið gæti afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum numið u.þ.b. 190-200 mö.kr. í ár, en það samsvarar u.þ.b. 8,5-9,0% af áætlaðri vergri landsframleiðslu (VLF) ársins. Áætlum við að útflutningur vöru og þjónustu geti numið u.þ.b. 1.200 mö.kr. á árinu 2015, en á móti vegur að innflutningur vöru og þjónustu mun væntanlega vaxa talsvert með aukinni einkaneyslu, fjárfestingu og útflutningi. Lauslega má áætla að innflutningur vöru og þjónustu gæti orðið í námunda við 1.000 ma. kr. í ár.

Mun bjartara útlit með greiðslujöfnuð

Viðskiptaafgangur verður að öllum líkindum talsverður í ár, og góðar líkur á viðskiptaafgangi næstu ár. Til viðbótar við myndarlegan afgang af vöru- og þjónustuviðskiptum bætist að batnandi hrein erlend staða þjóðarbúsins og viðvarandi lágir vextir erlendis hafa bætt nokkuð horfur varðandi jöfnuð frumþáttatekna (þ.e. vaxtajöfnuð, nettó ávöxtun hlutafjár og nettó launagreiðslur milli landa).

Í spá Seðlabankans sem birt var þann 4. febrúar síðastliðinn reiknar bankinn með að undirliggjandi viðskiptaafgangur nemi 3,8% af VLF í ár, og 2,1% af VLF hvort áranna 2016-2017. Það er í ágætu samræmi við væntingar okkar m.v. framangreindar tölur og horfur um frumþáttajöfnuð. Telur bankinn nú að horfur varðandi undirliggjandi viðskiptajöfnuð hafi batnað umtalsvert frá hans síðustu spá í nóvember, að miklu leyti vegna batnandi viðskiptakjara.

Útlit er fyrir að undirliggjandi viðskiptaafgangur dugi hér um bil fyrir öllum áætluðum ófjármögnuðum afborgunum af erlendum lánum annarra en Seðlabankans og ríkissjóðs næstu árin, en samkvæmt áætlun sem birtist í Fjármálastöðugleika í fyrrahaust munu slíkar afborganir nema 3,2% af VLF á yfirstandandi ári, 2,2% árið 2016 og 2,3% árið 2017. Þetta er mikil breyting frá þeirri mynd sem blasti við í áætlunum Seðlabankans fyrir ári síðan, en þá leit út fyrir að mikið vantaði upp á að þessar tölur stæðust á.

Heldur Seðlabankinn áfram að safna í gjaldeyrissarpinn?

Að öllu samanlögðu eru góðar líkur á því að okkar mati, á meðan ekki verða stórtækar breytingar á gjaldeyrishöftunum, að innflæði verði áfram að jafnaði á gjaldeyrismarkaði næsta kastið. Seðlabankinn hefur þá í hendi sér hvort hann kýs að halda gengi krónu stöðugu með gjaldeyriskaupum líkt og undanfarið ár, eða halda sig til hlés á gjaldeyrismarkaði. M.a. í ljósi þess hvað verðbólgan er lítil mun bankinn væntanlega halda áfram að safna gjaldeyri í gjaldeyrisforða sinn og halda með því aftur af styrkingu krónu, en það sem af er ári nema gjaldeyriskaup hans á markaði 75 m. evra, jafnvirði 11,4 ma.kr. 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall