Fréttir Greiningar

Ársuppgjör og arðgreiðslur 2014

18.02.2015 10:17

Hlutabréf hækkuðu verulega í ársbyrjun. Vísitalan snéri hins vegar af hækkunarferli sínum þegar fyrstu ársuppgjör 2014 fóru að birtast. Þrátt fyrir að uppgjör Marel og Össurar hefðu verið ágæt var afkomuspá Icelandair vegna þessa árs töluvert lakari en margir markaðsaðilar höfðu væntingar um. Í sumum tilfellum voru reyndar væntingar markaðsaðila óraunhæfar enda mun gengi aðal tekjumyntar félagsins, evru, væntanlega liggja mun lægra gagnvart uppgjörsmynt félagsins, dollar, á þessu ári en síðasta ári. Þess fyrir utan er samkeppni farin að þrýsta á arðsemi hvers sætis.

Mikið af uppgjörum framundan

Stærstu félögin á íslenska hlutabréfamarkaðnum, Icelandair, Össur og Marel, birtu uppgjör sín í fyrstu viku febrúar. Þá hefur minnsta félag markaðarins, Nýherji, jafnframt birt uppgjör sitt en birting þess fór fram í síðustu viku janúarmánaðar. Bróður hluti annarra félaga birtir á næstu tveim vikum. Hagar birta þó ekki fyrr en í maí en félagið er ekki með hefðbundið reikningsskilaár heldur gerir upp m.v. tímabilið mars-febrúar.

Samhliða birtingu ársuppgjöra verður væntanlega tilkynnt um fyrirhugaðar arðgreiðslur félaganna. Stjórn Icelandair, Össur og Marel hafa þegar birt tillögu að arðgreiðslu en ákvörðunarvald er í höndum hluthafafundar. Stjórn Össurar leggur til 0,12 DKK greiðslu á hlut eða sem svarar 14% hagnaðar. Stjórn Icelandair leggur til að samtals verði greiddir 2,5 ma. kr. í arð eða 0,5 kr. á hlut. Stjórn Marel leggur til að greiddar verði 0,48 EUR á hlut eða samtals 3,5 m. EUR í arð. Gróft áætlað eru þessi félög því samtals að greiða um 4 ma. kr. í arð. 

Líkur eru á að bróður hluti þeirra félaga sem eftir eiga að birta uppgjör komi fjármunum áfram til hluthafa annað hvort með arðgreiðslu eða kaupum á eigin bréfum á markaði. Reginn greiðir þó væntanlega ekki arð enda félagið enn að stækka og Vodafone heldur væntanlega frekar áfram að koma fjármunum áfram til hluthafa með hóflegum endurkaupum eigin bréfa. Flestir hafa væntingar um myndarlegar arðgreiðslur frá tryggingarfélögunum enda boðar arðgreiðslustefna þeirra útgreiðslu bróður hluta hagnaðar. Þá gaf tilkynning með síðasta uppgjöri Haga til kynna að félagið hygðist breyta að einhverju marki stefnu sinni hvað varðaði ráðstöfun fjármuna og er því möguleiki á að þeir muni í auknum mæli ráðstafa  þeim til hluthafa. 

Koma væntanlega meira en 10 mö. kr. til hluthafa

Leiða má líkur að því, litið til þeirra félaga er þegar hafa birt uppgjör og þeirra sem eftir eiga að birta uppgjör, að heildar arðgreiðslur skráðu íslensku félaganna verði umfram 10 ma. kr. Það er þó mögulegt að hluti fjármuna verði komið áfram til hluthafa með kaupum á eigin bréfum á markaði annað hvort með endurkaupaáætlun líkt og TM, VÍS og Vodafone hafa gert, eða með einstökum stórum kaupum á markaði líkt og N1 og Össur fóru í  á síðasta ári. 

Auknar arðgreiðslur félaga eru skýrt merki um hversu ólíkur markaðurinn í dag er þeim markaði er var hér fyrir hrun. Félög eru ekki í útrás eða að vaxa með öðrum hætti og koma því í auknum mæli fjármunum áfram til hluthafa. Við gerum ráð fyrir að þrjú félög verði skráð á árinu Reitir, Eik og Skipti. Leiða má líkur að því Reitir stækki ekki mikið meira og verði því arðgreiðslufélag, líklegra er að Eik vilji stækka en slíkur vöxtur myndi væntanlega tefja arðgreiðslur. Erfiðara er að segja til með Skipti  án þess að þekkja fjárfestingarþörf en félagið stækkar þó varla og því líkur á að einhverjum fjármunum verði komið til hluthafa.

Markaðurinn mun hreyfast með niðurstöðum uppgjöra

Ársuppgjörum félaganna og meðfylgjandi kynningarefni gefa oft ekki aðeins vísbendingu um afkomu síðasta fjórðung ársins heldur einnig vísbendingu um vænta afkomu næsta rekstrarárs. Slíkar upplýsingar geta haft veruleg áhrif á markaðinn og sviptingar á hlutabréfaverði gætu því orðið meiri í næstu viku en yfir önnur uppgjörstímabil ársins. Það eru þó ekki öll félög farin að gefa vísbendingar um eigin afkomuvæntingar en slíkt verklag hlýtur þó almennt að teljast til eftirbreytni. 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall