Fréttir Greiningar

Allir sammála í peningastefnunefndinni

19.02.2015 10:09

Allir meðlimir peningastefnunefndar Seðlabankans voru sammála um að halda stýrivöxtum bankans óbreyttum á síðasta vaxtaákvörðunardegi, þann 4. febrúar síðastliðinn. Er það í fyrsta sinn síðan í október síðastliðnum sem slíkur samhljómur er meðal nefndarmanna. Þetta má lesa í fundargerð frá fundum peningastefnunefndar 2.-3. febrúar sem Seðlabankinn birti í gær. 

Niðurstaða kjarasamninga ráðandi um næstu skref

Í fundargerðinni kemur fram að áhyggjur nefndarmanna af komandi kjarasamningum höfðu aukist frá vaxtaákvörðuninni í desember. Töldu þeir að kjarasamningsgerð á vinnumarkaði frá desmenberfundinum og vísbendingar um að nýlegir samningar myndu hafa áhrif á kröfugerð á vinnumarkaði hefðu dregið úr líkum á því að gerðir yrðu kjarasamningar til þriggja ára á tiltölulega hófsömum nótum. 

Kemur fram í fundargerðinni að það sé mat nefndarinnar að haldist verðbólga undir markmiði og verði launahækkanir í komandi kjarasamningum í samræmi við verðbólgumarkmið gætu, að öðru óbreyttu, skapast forsendur fyrir frekari lækkun nafnvaxta. Hins vegar taldi nefndin að miklar launahækkanir og vöxtur eftirspurnar gætu grafið undan nýfengnum verðstöðugleika og valdið því að hækka þyrfti vexti á ný. Af þessu má ljóst vera að niðurstaða kjarasamninga verður ráðandi þáttur um aðgerðir nefndarinnar í peningamálum í kjölfar samningaanna. Fram að því virðist ljóst að nefndin mun halda vöxtum óbreyttum.  

Telja líkur á að bankinn sé að vanspá verðbólgunni

Í fundargerðinni kemur fram að þótt verðbólguhorfur hefðu batnað töluvert á milli vaxtaákvarðana og raunvextir hækkað hafði nefndin þegar tekið mið af þeirri þróun að hluta á desemberfundi sínum. Nefndin taldi auk þess að líklegra væri að verðbólgu væri vanspáð en ofspáð í nýjustu verðbólguspá Seðlabankans.
Líkt og fram kom í yfirlýsingunni vegna vaxtaákvörðunarinnar tekur nefndin ekki fullt tillit til hjöðnunar verðbólgu, og afleiddrar hækkunar raunvaxta, vegna lækkunar á eldsneytisverði á seinni hluta ársins 2014. Nefndin taldi litlar líkur á að eldsneytislækkunin smitaðist út í langtíma verðbólguvæntingar og launamyndun, en kæmi sú staða upp myndi það kalla á viðbrögð.

 

Bendir til að vöxtum verði haldið óbreyttum í mars

Framsýna leiðsögnin sem felst í yfirlýsingu og fundargerð peningastefnunefndar er að okkar mati nokkuð eindregið á þá leið að halda vöxtum óbreyttum í bili. Má þar auk ofangreinds benda á þessa klausu úr fundargerðinni: „Slakinn væri að mestu horfinn og gert væri ráð fyrir öflugum hagvexti á næstu misserum. Launavöxtur hefði verið töluverður á Íslandi, ólíkt flestum viðskiptalöndum, og vaxandi órói á vinnumarkaði gæti teflt í tvísýnu stöðugleikanum sem áunnist hefur. Af þessum sökum var nefndin sammála um að rétt væri að staldra við uns efnahagshorfur skýrðust frekar, einkum varðandi launaþróun.“ Í ljósi þess að ólíklegt virðist að niðurstaða verði komin í meirihluta þeirra kjarasamninga sem nú eru lausir fyrir næstu vaxtaákvörðun 18. mars næstkomandi eru að okkar mati mestar líkur á að nefndin ákveði að halda stýrivöxtum bankans óbreyttum þá  Líkur hafa að okkar áliti einnig minnkað á að vextir verði yfir höfuð lækkaðir frekar á komandi ársfjórðungum.

 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall