Fréttir Greiningar

Spáum óbreyttum stýrivöxtum 18. mars

12.03.2015 09:31

Við spáum því að peningastefnunefnd Seðlabankans muni ákveða að halda stýrivöxtum bankans óbreyttum á næsta vaxtaákvörðunarfundi sínum 18. mars nk. Helstu rök nefndarinnar fyrir  óbreyttum vöxtum verða að okkar mati þau að rétt sé að staldra við uns línur skýrast varðandi launaþróun, þ.e. þangað til fæst niðurstaða í kjarasamninga á almennum vinnumarkaði sem nú eru yfirstandandi. Nær útilokað virðist að niðurstaða verði komin í þessar viðræður fyrir vaxtaákvörðunina nú. Mun nefndin að okkar mati horfa til þess að órói á vinnumarkaði kann að tefla í tvísýnu stöðugleikanum sem áunnist hefur í verðlagsmálum. 

Spá okkar er í samræmi við þá framsýnu leiðsögn sem finna má í yfirlýsingu og fundargerð peningastefnunefndar vegna síðustu vaxtaákvörðunar. Leiðsögnin sem þar er að finna er nokkuð eindregið á þá leið að halda vöxtum óbreyttum í bili. Má þar m.a. benda á þessa klausu úr fundargerðinni:

„Slakinn væri að mestu horfinn og gert væri ráð fyrir öflugum hagvexti á næstu misserum. Launavöxtur hefði verið töluverður á Íslandi, ólíkt flestum viðskiptalöndum, og vaxandi órói á vinnumarkaði  gæti teflt í tvísýnu stöðugleikanum sem áunnist hefur. Af þessum sökum var nefndin sammála um að rétt væri að staldra við uns efnahagshorfur skýrðust frekar, einkum varðandi launaþróun.“ 

Við reiknum með óbreyttum stýrivöxtum út þetta ár. Fari kjarasamningar hins vegar úr böndunum má reikna með því að bankinn muni bregðast við með hækkun stýrivaxta. Gangi spá okkar eftir mun verðbólgan aukast á þessu ári hraðar en Seðlabankinn spáir í sinni nýjustu verðbólguspá. Munu raunstýrivextir bankans því lækka á tíma þegar spenna er að myndast í innlendu efnahagslífi. Reiknum við með því að peningastefnunefndin bregðist við vaxandi verðbólgu, vaxandi framleiðsluspennu í hagkerfinu og minnkandi peningalegu aðhaldi með hækkun stýrivaxta bankans um 0,75 prósentustig á næsta ári. 

Verðbólgan færist í aukanna eftir því sem líður á árið 

Verðbólgan mælist nú 0,8% og er óbreytt frá síðustu vaxtaákvörðun í byrjun febrúar. Lítil alþjóðleg verðbólga og stöðugt gengi krónu er meginástæða þess að verðbólgan mælist nú svona lág þrátt fyrir talsvert miklar innlendar launahækkanir. 

Útlit er fyrir að verðbólgan verði næsta kastið nokkuð yfir síðustu verðbólguspá Seðlabankans sem birt var samhliða vaxtaákvörðuninni í febrúar sl. Verðbólguhorfur eru að okkar mati þær að verðbólgan mun aukast á næstunni og verði aðeins yfir verðbólgumarkmiði Seðlabankans á næsta ári. Spá okkar og Seðlabankans eru hins vegar líkar að því leyti að við, líkt og Seðlabankinn, reiknum með því að að eftir því sem líður á árið muni verðbólgan aukast og að á næsta ári muni sú aukning hins vegar stöðvast í grennd við verðbólgumarkmið bankans. Seðlabankinn reiknar hins vegar með því að þetta gerist hægar og í minna mæli en við spáum. Í fundargerð síðasta fundar peningastefnunefndar kemur fram að nefndin telur líklegra að verðbólgu sé vanspáð en ofspáð í ofangreindri verðbólguspá bankans.   

Raunvextir Seðlabankans miðað við ársverðbólgu og meginvexti bankans, þ.e. vexti á 7 daga bundnum innlánum, eru nú 3,7% og eru þeir óbreyttir frá síðustu vaxtaákvörðun bankans í febrúar. Hafa raunstýrivextir bankans lækkað frá því í nóvember á síðasta ári þegar þeir stóðu í 4,0%. Fram að því höfðu raunstýrivextir bankans hækkað umtalsvert frá upphafi árs 2012, en þá voru þeir neikvæðir. 

Samkvæmt ofangreindri fundargerð voru meðlimir nefndarinnar þá sammála um að raunvextir bankans væru nokkuð háir í ljósi stöðu hagsveiflunnar. Miðað við spá okkar um óbreytta stýrivexti fram á næsta ár og aukna verðbólgu þegar líða tekur á þetta ár má reikna með því að raunstýrivextir bankans haldi áfram að lækka fram á byrjun næsta árs, og ná þá lágmarki í 1,6%. Verða raunstýrivextir bankans þá komnir undir jafnvægisraunstýrivexti og peningastefnan eftirspurnarhvetjandi. Er þessi þróun að gerast á sama tíma og spenna er að myndast í hagkerfinu og verðbólgan vaxandi eins og áður segir, en Seðlabankinn reiknar með 4,2% hagvexti í ár og 2,8% á næsta ári. Reiknum við með því að peningastefnunefndin bregðist við þessari þróun með hækkun stýrivaxta á árinu 2016 um 0,75 prósentur, og munu raunstýrivextir bankans hækka af þeim sökum upp í 2,4% undir lok næsta árs. 

Hagvöxtur 2014 í takti við áætlun Seðlabankans

Hagvöxtur á síðasta ári var 1,9% samkvæmt nýbirtum bráðabirgðatölum Hagstofunnar. Vöxturinn er  talsvert meiri en 9M bráðabirgðatölur gáfu til kynna (0,5% vöxtur) og í samræmi við væntingar okkar sem og nýjustu spá Seðlabankans sem birt var samhliða vaxtaákvörðun peningastefnunefndar í febrúar sl. Tölurnar ættu því ekki að breyta sýn bankans á stöðu hagkerfisins við næstu vaxtaákvörðun eða hafa áhrif á ákvörðun peningastefnunefndar Seðlabankans um stýrivexti nú. Hagvöxturinn á síðastliðnu ári var nálægt jafnvægisvexti hagkerfisins, en hagkerfið var á marga mælikvarða nálægt jafnvægi í fyrra.  

Allir nefndarmenn sammála um óbreytta stýrivexti

Allir meðlimir peningastefnunefndar Seðlabankans voru sammála um að halda stýrivöxtum bankans óbreyttum á síðasta vaxtaákvörðunardegi, þann 4. febrúar síðastliðinn. Er það í fyrsta sinn síðan í október síðastliðnum sem slíkur samhljómur er meðal nefndarmanna. Kemur þetta fram í  fundargerð frá fundum nefndarinnar í byrjun febrúar sl.

Auknar áhyggjur af því að kjarasamningar fari úr böndunum

Í fundargerð vegna síðasta fundar peningastefnunefndar kemur fram að áhyggjur nefndarmanna af komandi kjarasamningum höfðu aukist frá vaxtaákvörðuninni í desember. Töldu þeir að kjarasamningsgerð á vinnumarkaði frá desemberfundinum og vísbendingar um að nýlegir samningar myndu hafa áhrif á kröfugerð á vinnumarkaði hefðu dregið úr líkum á því að gerðir yrðu kjarasamningar til þriggja ára á tiltölulega hófsömum nótum. 

Fram kemur í fundargerðinni að það sé mat nefndarinnar að haldist verðbólga undir markmiði og  verði launahækkanir í komandi kjarasamningum í samræmi við verðbólgumarkmið gætu, að öðru óbreyttu, skapast forsendur fyrir frekari lækkun nafnvaxta. Hins vegar taldi nefndin að miklar launahækkanir og vöxtur eftirspurnar gætu grafið undan nýfengnum verðstöðugleika og valdið því að hækka þyrfti vexti á ný. Af þessu má ljóst vera að niðurstaða kjarasamninga verður ráðandi þáttur um aðgerðir nefndarinnar í peningamálum í kjölfar samningaanna. Fram að því virðist ljóst að nefndin mun halda vöxtum óbreyttum.   

Inni í verðbólguspá Seðlabankans, líkt og okkar, er og verður spá um launabreytingar á spátímabilinu. Reiknum við þannig með því að laun muni hækka um 6,6% yfir þetta ár og 6,5% yfir næsta ár. Liggur þessi spá til grundvallar stýrivaxtaspár okkar. Inni í þessari spá um launahækkun er bæði spá okkar um niðurstöðu komandi kjarasamninga sem og væntingar um launaskrið. Verði launahækkanir umfram þetta mun það eðlilega kalla á endurmat á stýrivaxtaspá okkar til hækkunar.

Óvissa vegna niðurstöðu kjarasamninga og fyrirhugaðs afnáms fjármagnshafta

Líkt og áður er mikil óvissa um þróun krónunnar næstu misseri í ljósi óvissu um uppgjör búa föllnu fjármálafyrirtækjanna og fyrirhugaðra tilslakana gjaldeyrishafta. Má segja að þetta sé einn af stærstu óvissuþáttum stýrivaxtaspár okkar litið lengra fram í tímann, og í leiðinni spár okkar um verðbólguþróun. Til skemmri tíma er óvissan mest um niðurstöðu komandi kjarasamninga. Spá okkar um stýrivexti byggir á því að þær tilslakanir sem gerðar verða á gjaldeyrishöftum á spátímabilinu verði framkvæmdar þannig að þær munu ekki raska stöðugleikanum á gjaldeyrismarkaðinum og ekki kalla á hækkun stýrivaxta til að tryggja þann stöðugleika. 

Stýrivaxtaspá okkar má nálgast hér.

 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall